01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4009 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

149. mál, siglingalög

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Því er eins farið með þetta frv. að ég hleyp í skarðið fyrir formann n. sem er fjarverandi. Skal ég hafa sem fæst orð um frv. þó að það sé mikill lagabálkur.

Frv. það til siglingalaga, er fyrir liggur til 2. umr. í hv. Ed., var lagt fram á síðasta Alþingi og var vísað til samgn. hv. deildar. Nefndin fjallaði um það á nokkrum fundum og sendi það til umsagnar allmargra aðila. Frv. var svo endurflutt á yfirstandandi þingi og nefndin kallaði að nýju eftir umsögnum. Bárust svör frá níu aðilum, eins og fram kemur á nál. á þskj. 643. Nefndin hefur haft mið af þessum umsögnum við umfjöllun um frv. og við gerð brtt. um það og er sammála um að mæla með samþykkt þess með þeim brtt. sem fram koma á þskj. 644.

Siglingalögin eru mikill lagabálkur sem inniheldur 243 lagagreinar. Sérstök nefnd, sem skipuð var 8. sept. 1981 af samgrh., vann að endurskoðun laganna undir forustu Páls Sigurðssonar dósents sem var formaður nefndarinnar. Auk Páls áttu sæti í nefndinni fulltrúar helstu hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi og kaupskipaflota.

Jafnframt endurskoðun á siglingalögunum var nefndinni falið að endurskoða sjómannalögin, enda þessi lög svo nátengd að vart verður á milli skilið í mörgum greinum. Sjómannalögin hafa einnig verið lögð fram í hv. Ed. og eru þau nú til umfjöllunar í samgn. Er þess að vænta að þau komi úr nefndinni fljótlega eftir páskaleyfi.

Eins og ég sagði eru siglingalögin viðamikill lagabálkur sem er að meginstofni byggður upp með fyrirmynd í hinum norrænu siglingalögum. Norðmenn, Danir og Svíar hafa tekið mikinn þátt í alþjóðasamstarfi í þessum efnum og á síðari árum höfum við Íslendingar tekið þátt í slíkri samvinnu í auknum mæli og erum nú orðnir þátttakendur í og aðilar að flestum samþykktum og sáttmálum er snerta siglingar og alþjóðasamþykktir í þeim efnum. Þess vegna verðum við að hafa okkar siglingalög mjög í samræmi við lög annarra siglingaþjóða.

Fyrstu siglingalög okkar voru sett 1913. Voru þau nánast þýðing á þeim dönsku. Þessum lögum var svo breytt aftur 1914 og voru þau að meginstofni óbreytt til ársins 1963. Hafa þau að mestu verið óbreytt síðan svo að ekki er óeðlilegt að þau þurfi nú gagngerðrar endurskoðunar við.

Dr. Páll Sigurðsson dósent, formaður endurskoðunarnefndarinnar, hefur unnið með samgn. og aðstoðað hana á ýmsan hátt við meðferð málsins og kann nefndin honum þakkir fyrir.

Ég mun nú fara nokkrum orðum um breytingarnar, sem eru prentaðar á sérstöku þskj. eins og ég sagði, og nál. samgn.

Í nál. kemur fram að þeir níu aðilar sem ég gat um áðan og skiluðu n. áliti og umsögn voru Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannafélag Ísfirðinga, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, Landssamband ísl. útvegsmanna, Verkalýðsfélag Akraness, Stýrimannafélag Reykjavíkur, Stýrimannafélag Íslands, Slysavarnafélag Íslands og Hafskip hf.

Nefndin hefur tekið mið af þessum umsögnum við gerð þeirra brtt. sem hér eru nefndar, en langflestar breytingarnar eru orðalagsbreytingar sem horfa til glöggvunar og þarfnast ekki sérstakrar skýringar. Ég tel greinarnar með orðalagsbreytingunum ekki upp hérna, þær eru tíundaðar á þskj., en þær eru allflestar þannig að ekki er ástæða til að fjölyrða um. T. d. er sagt í 2. gr., 3. lið: „Er skipið er ekki talið þess vert að við það sé gert“. Við breytum þessu í: ekki þess virði að við það sé gert. Það eru þannig orðalagsbreytingar sem verða á þessum liðum öllum sem getið er í nál.

Varðandi breytingarnar við 199. gr. skal það tekið fram að nefndin taldi að orðalag 2. málsl. fyrri mgr. skv. frv. gæti leitt til óæskilegrar niðurstöðu, einkum gagnvart sjómönnum sem stundum eiga erfitt um vik að gæta réttar síns sökum langvarandi fjarveru og þess háttar, og er því lagt til að þessu ákvæði frv. verði breytt á þann veg að hæfilegt tillit sé tekið að þessu leyti til þarfa þeirra, en jafnframt til hagsmuna grandalausra viðsemjenda eigenda skips, svo sem nánar er skýrt í grg. sem fylgir frv. Það er 199. gr. sem þarna er fjallað um. Það er einkum gagnvart sjóveði og slíku, sem getur komið upp á, þannig að aðilum sé búið betra öryggi en verið hefur í gömlu lögunum.

Þá eru gerðar breytingar á 221. gr. og 226. gr. Í 221. gr. er allítarlega talað um rannsóknir á slysum. Öllum rannsóknum sem að þessu lúta hefur verið mjög ábótavant í siglingalögum okkar. Hefur það komið mjög glöggt fram í umræðum sem farið hafa fram um t. d. öryggismál sjómanna hjá þeirri nefnd sem um þau mál hefur fjallað og á ráðstefnu um þessi mál að þarna þyrfti að gera verulega bót á. Leggur nefndin til í 221. gr. að henni sé breytt til þess að aðgerðir verði raunhæfari en verið hafa. Ætla ég að leyfa mér að lesa það sem nefndin leggur til að gert verði:

„Dómari sá, sem stjórnar sjóprófi, skal leita aðstoðar lögreglu eða Rannsóknarlögreglu ríkisins við skýrslutöku, vettvangskönnun og aðra þætti málsrannsóknar eftir því sem frekast verður við komið, einkum þó ef manntjón hefur orðið eða meiri háttar líkamstjón. Skal lögð á það áhersla að lögreglurannsókn hefjist sem fyrst eftir að slys varð eða skip kom til hafnar. Skulu skipstjóri og skipverjar, svo og útgerðarmaður skips, veita alla þá aðstoð er þeir geta í té látið vegna lögreglurannsóknar. Niðurstöður og gögn lögreglurannsóknar skulu lögð fram í sjóprófi svo skjótt sem auðið er, en eigi skal fresta upphafi sjóprófs af þeim sökum einum að þau liggi enn eigi fyrir.

Skipstjóra er skylt að óska eftir því að lögreglurannsókn vegna mannskaða eða meiri háttar líkamstjóns, sem greinir í 2. mgr., fari fram. Skipstjóri skal eigi halda skipi úr höfn þar sem lögreglurannsókn fer fram nema í samráði við lögregluyfirvöld.

Skipstjóra eða þeim, er kemur í hans stað, er skylt að annast skráningu og tilkynningu allra slysa er verða á skipi eftir nánari reglum er samgrh. setur í samráði við Tryggingastofnun ríkisins. Skráningar- og tilkynningarskyldan tekur m. a. til hvers konar vinnuslysa á sjó, eitrana, atvinnusjúkdóma og annarra þeirra atvika sem þýðingu kunna að hafa í því sambandi.“

Þarna er um nýjung að ræða. Það hefur komið berlega í ljós að það sem oft er álitið til sjós að séu smávægileg slys eða lítils háttar er ekki skráð, en svo kemur í ljós eftir einhvern tíma, e. t. v. nokkur ár, að sá sem slasaðist kennir meins sem er afleiðing af slysinu forðum. Þá er nauðsynlegt fyrir tryggingalækni og tryggingafélag útgerðar að fyrir liggi á þar til gerðum skráðum blöðum hvar og hvenær slysið hafi orðið. Þetta leggur nefndin áherslu á að verði gert og það felst í þessari brtt.

226. gr. er einnig um sjóprófin. Sú grein er nokkuð stytt, en gleggri en var í frv. Till. gerir ráð fyrir því að „í tengslum við sjópróf skal dómurinn skoða skip ef telja má að slík skoðun geti skipt einhverju máli fyrir rannsókn slyss og jafnframt skal dómurinn framkvæma eða láta framkvæma aðra þá skoðun sem nauðsyn ber til.“ Þarna er fastar og skýrar að orði kveðið, að okkar dómi, en er í frv. og leggjum við því til þessa breytingu.

Brtt. við 172. gr. er vegna nýrra samninga sem hafa verið teknir upp við útvegsmenn og skipafélögin um tryggingamál sjómanna. Í brtt. við 172. gr. er tekið upp hvernig um samdist, en fellt út það sem var fyrir í greininni. Það stafar auðvitað af því að þegar frv. er samið var ekki vitað hvernig þessum málum yrði breytt. Þarna er fyrst og fremst um að ræða breytingar á upphæðum vegna dánarbóta og örorku og slysa og hvernig farið skuli með örorku í þessum efnum. Þarna er réttur manna tryggður eins og þeir náðu samkomulagi um. Ég veit ekki annað, eftir umsögn viðsemjenda þeirra, skipafélaga og útgerðar, en þeir hafi verið sammála um að þannig verði að málum staðið.

Þetta var það helsta. Ég held að ég þurfi ekki að fara yfir brtt. frekar. Þær eru allmargar brtt. sem ég hirði ekki um að lesa upp því að það mundi tefja þingfundinn. Það getur hver gert fyrir sig. Flest þau greinanúmer sem talin eru upp á nál. fela í sér orðalagsbreytingar, en ekki breytingar sem neinu varða um framkvæmd laganna.

Ég læt þá máli mínu lokið og vona að frv. verði afgreitt til 3. umr. með þessum breytingum.