01.04.1985
Neðri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4020 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

210. mál, selveiðar við Ísland

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er komið til 2. umr. frv. til laga um selveiðar við Ísland sem lagt var fyrir síðasta Alþingi, en varð þá eigi útrætt og kom aftur fyrir þingið óbreytt frá ríkisstj. fyrir síðustu jól. Nú er það komið frá sjútvn. óbreytt að því er varðar tillögu meiri hl. n., en minni hlutinn, sem hér mælti áðan fyrir sínu nál., leggur til tvær breytingar á frv. Ég ræddi þetta frv. nokkuð í fyrra þegar það kom fyrir þingið og einnig lítillega þegar það var lagt fram aftur á þessu þingi og óskaði þá eindregið eftir því að sjútvn. vandaði meðferð þessa máls og reyndi að haga sínum störfum þannig að unnt væri að stilla saman um málsmeðferð og frv. þannig að líklegt væri að hægt væri að ná víðtækri samstöðu um þetta mál sem varðar hagsmuni mjög margra. En það hefur því miður ekki farið svo að meiri hluti nefndarinnar hafi séð ástæðu til þess að breyta frv. í neinu og leggur nú til að það verði samþykkt óbreytt.

Ég hef kvatt mér hljóðs til að ítreka andstöðu mína við ákveðna þætti í þessu frv. og beina jafnframt fyrirspurnum til ráðh., sérstaklega til hæstv. landbrh. (Forseti: Hæstv. ráðh. er hér.)

S. l. haust barst mér erindi, sem snertir þetta mál, frá áhugasömum bónda við Breiðafjörð sem nú er hniginn við aldur, Játvarði Jökli Júlíussyni, þar sem voru erindi sem hann hafði sent hæstv. sjútvrh. s. l. haust og erindi sem hann hafði sent þm. Vestfjarðakjördæmis, iðnaðardeild Sambandsins svo og stjórn Búnaðarfélags Íslands. Í erindi Játvarðar Jökuls var einnig að finna sérstök mótmæli gegn því frv. sem hér er til umr. frá aðalfundi Búnaðarfélags Reykhólahrepps sem haldinn var 24. júní 1984. Ég vitnaði til örfárra atriða í þessu bréfi Játvarðar Jökuls við 1. umr. málsins á yfirstandandi þingi og kom því síðan á framfæri við formenn í sjútvn. þingsins og bað þá um að íhuga sérstaklega hans ábendingar þar sem hann hefur, að því er mér virðist, mjög góða yfirsýn yfir þetta mál og tilfinningu fyrir þeim hagsmunum sem snúa að nytjum sels og hagsmunum bænda í þessu sambandi.

Ég er ekki þar með að segja að allar hans ábendingar séu þess efnis að ástæða væri til að taka tillit til þeirra við lagasetningu um þetta mál, en ég held að það væri fróðlegt fyrir þm. að íhuga ýmislegt af því sem fram kom í hans máli. Ég inni formann sjútvn. eftir því hvaða meðferð erindi Játvarðar Jökuls hafi fengið í n. og hvort ekki hafi verið talin ástæða af hennar hálfu að athuguðu máli að taka tillit til einhverra af hans ábendingum. Ég vænti þess að ráðh. svari því til hér á eftir.

Ég vil áður en lengra er haldið taka það fram að ég tel fulla þörf á því að setja lög um selveiðar og hafði vænst þess að meðferð þingsins og sérstaklega hv. sjútvn. stuðlaði að því að svo gæti orðið á yfirstandandi þingi. En mér sýnist að málsmeðferð n., þar sem hún að meiri hluta til leggur ekki til neinar breytingar, stuðli ekki að því samkomulagi sem þörf væri á um þetta stóra mál.

Ég vil inna hæstv. landbrh. sérstaklega eftir því hvort hann sé samþykkur þessu frv. eins og það liggur hér fyrir þinginu, hvort hann hafi veitt því blessun sína í ríkisstj. og hvort hann telji ástæðu til að frv. verði samþykkt með þeim hætti sem meiri hluti sjútvn. leggur hér til.

Ég vil einnig inna þm. Vesturl. eftir því sérstaklega hvort þeir hafi kannað þetta frv. svo og þm. Vestf., en til beggja þessara þingmannahópa hefur verið beint atriðum varðandi frv. Það er ekki síst það sem snýr að stjórnun selveiða og meðferð sels við Breiðafjörð sem þarna er um að ræða. Með þessu frv. er fellt úr gildi ákvæði laga frá 1925, um selveiðar við Breiðafjörð, ákvæði laga nr. 30/1925, um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, eins og það er kallað. Ég held að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir þá þm., sem þarna eru næst vettvangi, að íhuga hvort réttmætt sé að fella þessi ákvæði úr gildi þótt gömul séu og taka upp þau ákvæði sem eru í þessu frv. Þau ákvæði veita í rauninni sjútvrh. geysilega mikil völd í sambandi við stjórnun selveiða og lítt takmörkuð eins og sjá má af 6. gr. þessa frv. þar sem segir í upphafi, með leyfi forseta:

„1. Ráðh. getur sett reglur um framkvæmd laga þessara. Með reglugerð getur ráðh. m. a.:

1. Bannað selveiðar á tilteknum svæðum.

2. Takmarkað selveiðar við ákveðinn tíma.

3. Friðað ákveðnar tegundir sela og ákveðið fjölda þeirra sela er veiða má af einstökum tegundum á ákveðnum svæðum á tilteknu tímabili.

4. Sett reglur um leyfilegar veiðiaðferðir og um hlaupvíddir skotvopna er nota má til selveiða.

5. Ákveðið hvernig skuli gengið frá drepnum selum.

6. Sett reglur um veiðar í vísindalegum tilgangi.

7. Ákveðið aðgerðir er stuðla að fækkun sela sé þess talin þörf.“ — Ég bæti því hér inn í að með þessu ákvæði í tölulið 7 er auðvitað leiðin til að löggilda hringormanefnd hina umdeildu.

„8. Ákveðið að fengnu samþykki Náttúruverndarráðs reglur um selveiðar á svæðum, sem friðlýst hafa verið eða kunna að verða, með heimild í lögum nr. 471/1971, um náttúruvernd.

9. Sett reglur sem nauðsynlegar þykja til að tryggja framkvæmd alþjóðlegra samninga um selveiðar er Ísland kann að gerast aðili að.“

Þetta er 6. gr. frv. Ég vek athygli á því hvað ráðh. eru hér veitt óskoruð völd í þessum efnum með mjög takmörkuðum ákvæðum um það til hvers hann skuli taka tillit í þeim reglugerðum sem honum væri veitt heimild til samkvæmt þessum ákvæðum.

Ég vil koma því á framfæri við hv. þd. og rifja það upp fyrir hæstv. landbrh. hvað Búnaðarþing hafði að segja um þetta mál. Ég inni ráðh. eftir því hvort hann sé samþykkur áliti Búnaðarþings eða andvígur. Þar var svofelld ályktun um frv. til laga um selveiðar við Ísland samþykkt samhljóða, að ég hygg, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing hefur skoðað frv. til laga um selveiðar við Ísland sem nú liggur fyrir Alþingi og vill af því tilefni taka þetta fram:

1. Selveiði er frá fornu fari hlunnindi sem fylgt hafa sjávarjörðum hér á landi, staðið undir verulegum hluta af lífsframfæri þeirra sem þar hafa búið og er hluti af fasteignamati þessara býla. Því er sjálfsagt að málefni selveiða heyri undir landbrn.

2. Óráðlegt verður að telja að fella niður gildandi ákvæði um sérstök friðunarsvæði, friðun Breiðafjarðar o. s. frv., nema í samráði við hlunnindaeigendur á viðkomandi svæðum.

3. Meðan verð á selaafurðum á markaði er svo lágt að það afstýrir því ekki að sel fjölgi úr hófi er eðlilegt að skipulega sé unnið að því að halda selafjölda innan hóflegra marka með kópadrápi eða á annan hátt og fela veiðistjóra umsjón með þeim aðgerðum, sem annars væru í ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga, og höfð hliðsjón af fyrirkomulagi hreindýraveiða og refavinnslu.

Þessi atriði, sem hér eru talin, nægja til þess að Búnaðarþing leggst gegn frv. í þessari mynd en leggur til að nýtt frv. verði samið þar sem tillit sé tekið til ofangreindra atriða.“ Þetta er umsögn Búnaðarþings um þetta mál og er mjög ótvíræð.

Ég vek athygli á umsögn Hafrannsóknastofnunar sem prentuð er á þskj. 652 með áliti minni hl. sjútvn. þar sem Hafrannsóknastofnunin telur óráð að samþykkja 2. gr. frv. óbreytta. Ég vek einnig athygli á þeim þætti í umsögn Náttúruverndarráðs sem prentuð er á sama þskj. þar sem segir:

„Náttúruverndarráð fagnar því að lagt er fram frv. til laga um selveiðar við Ísland. Ráðið leggur áherslu á að slíkt frv. verði gert að lögum hið fyrsta. Náttúruverndarráð getur þó ekki samþykkt óbreytt það frv. sem nú liggur fyrir en leggur áherslu á að 3. gr. frv. verði breytt í samræmi við það sem hin stjórnskipaða nefnd er samdi frv. lagði til.“

Síðan segir: „Náttúruverndarráð bendir á að breytingin, sem gerð hefur verið á 3. gr. frv., er grundvallarbreyting á frv. í heild og ef 3. gr. verður ekki breytt í fyrra horf þá verður að breyta ýmsum öðrum greinum frv. í samræmi við það, t. d. 6. og 8. gr. Náttúruverndarráð vekur athygli á nýútkomnu fjölriti Landverndar, Selir og hringormar, en þar er ítarleg umfjöllun um ofannefnt frv. á bls. 68–75.“

Þessi skýrsla, sem þarna er vitnað til frá Landvernd, kom í hólf þingmanna allra, að ég hygg, fyrir ekki löngu. Hér er um að ræða mjög ítarlega og fróðlega samantekt um selveiðar við Ísland, rannsóknir á selum og umsögn um það frv. sem hér er til umr. Ég vil inna hv. formann sjútvn. þessarar deildar eftir því hvort n. hafi kynnt sér þetta fjölrit, fjallað um það og rætt og telji að þær ábendingar, sem þar koma fram, séu þess eðlis að ekki sé ástæða til að taka tillit til þeirra við lagasetningu sem þessa.

Ég bendi á að það er ekki á nokkurn hátt farið offari í þessari greinargerð Landverndar sem þrír líffræðingar standa að. Það er hvatt til þess að löggjöf sé sett um þessi efni en það er jafnframt vakin athygli á því, svo sem skylt hlýtur að vera þeim sem vilja fjalla hlutlægt um þessi mál, að niðurstöður rannsókna um samhengi á milli hringorma í fiski og fjölda sela eru langt frá því að vera einhlítar og bent á fjölmörg atriði því sjónarmiði til stuðnings. Ég er ekki þar með að segja að ekki eigi að vinna skipulega að því að halda selastofni innan ákveðinna marka. En það er nauðsynlegt að menn vinni að þeim málum með opin augun og fjalli um fyrirliggjandi niðurstöður rannsókna og líti á þær hlutlægt.

Í samþykkt Búnaðarfélags Reykhólahrepps, sem ég vitnaði til áðan, er að finna ábendingar í sex tölusettum liðum varðandi þetta frv. Engar af þeim ábendingum virðast hafa verið tilefni fyrir meiri hl. sjútvn. til að gera breytingar við fyrirliggjandi frv. Ég vænti þess að hæstv. landbrh. hafi kynnt sér þessi efni. Ef hann hefur ekki fengið þessar ábendingar í hendur er auðvelt að bæta úr því. En erindi hefur sjútvrh. einnig fengið frá þeim sem ég nefndi hér, Játvarði Jökli Júlíussyni. Ég vil leyfa mér, vegna þess að hann hefur opinberað þetta erindi og sent það til ýmissa aðila, að vitna í það bréf frá 1. október 1984 þar sem segir m. a.:

„Ég óx upp við selveiðar hér við Breiðafjörð, lifði og hrærðist í þeim hvert einasta vor og eins eftir að ég varð bóndi. Vorkópaveiðina á söndunum á suðurströnd landsins þekki ég hins vegar bara af afspurn. Þar er kópunum náð á landi, þeir alast upp á landi eins og útselskóparnir, haustkóparnir. Mörg haust var ég og liðsmaður við haustkópaveiði, þekki hana og uppeldi og lifnaðarhætti útselskópanna af náinni reynslu. Ég er því afskaplega næmur fyrir þeim ósköpum og fádæmum sem dunið hafa yfir hin síðari árin. Þar á ég við ofsóknir hringormanefndar gegn bændum og bústofni þeirra, íslensku selastofnunum. Ekki grunaði mig hvað frv. viðvék að önnur eins skelfing væri þar á ferðinni eins og reyndin sannaði, var þó forvitinn.“

Síðan segir Játvarður Jökull: „Mér hreint og beint krossbrá við að sjá allan rétt bænda, allar hefðir og drjúgan hluta náttúrlegs veruleika borin fyrir borð eins og gert er í frv. Átakanlegast var þó að sjá hve algerlega „hlunnindaráðunauturinn“ Árni G. Pétursson hafði brugðist bændum. Sannaðist á honum að „betra er autt rúm en illa skipað“. Einmana þarna og sjúklingur“ — en hann skrifar þetta á Reykjalundi — „varð ég sem of sterkur af dirfsku og eldmóði en vissi ekki hvað ætti til bragðs að taka, samdi bréf, mótmæli gegn frv. og sendi þm. Vestfjarðakjördæmis. Afrit sendi ég 1. þm. Vesturl., Friðjóni Þórðarsyni, fannst að honum ætti að renna breiðfirska blóðið til skyldunnar og hann kynnti mótmæli mín í sínum hópi.“

Þetta er tilvitnun úr erindi Játvarðar Jökuls til sjútvrh. vegna framlagningar þessa frv. og umræðna sem urðu um það á síðasta þingi, en sjútvn. beggja deilda hafa fengið það til meðferðar.

Ég vildi vekja í þessu máli mínu athygli á því hversu afar deildar meiningar eru um frv. í þeirri mynd sem það liggur hér fyrir. Það er ekki farsælt fyrir Alþingi að ætla að setja lög um þetta málefni án þess að farið sé ofan í þessar athugasemdir sem fjölmargir standa að baki, bæði náttúruverndarmenn og þeir sem beinna hagsmuna hafa að gæta af selveiðum bæði fyrr og síðar. Ég vil því eindregið hvetja til þess að málið fái betri meðferð hér í þinginu og það verði reynt að ná saman um lög um selveiðar þar sem betur er vandað til lagasetningar en stefnt er að með fyrirliggjandi frv.