29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

106. mál, tannlækningar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. er að stofni til sama frv. og lagt var fram á Alþingi árið 1974, en varð þá ekki útrætt. Það varð mest umræða þá um réttarstöðu tannsmiða sem töldu á rétt sinn gengið ef það frv. yrði afgreitt óbreytt. Síðar gerðist það í þessum málum að tannsmíði var gerð að iðngrein og er nú aðallega stunduð af tannsmíðaverkstæðum, en hins vegar hafa tannlæknar, eins og allir vita, að sjálfsögðu rétt til þess að stunda tannsmíði, enda er það veigamikill þáttur í námi þeirra og lokaprófi. Hins vegar hafa flestir þeirra eða allir þann hátt á að senda frá sér tannsmíðaverkefni til tannsmiða sem smíða þá eftir máli því sem tannlæknir tekur af sjúklingi. Með þessu frv. er ekki ætlunin að breyta á nokkurn hátt réttarstöðu þessara tveggja stétta varðandi tannsmíði frá því sem nú er í gildi, en í dag er það svo að það er tannlæknirinn einn sem hefur leyfi til þess að taka mát og máta gervitennur, festa þær í sjúkling, hvort sem er um heila góma eða parta eða einstakar tennur, krónur eða brýr að ræða. Það hefur enginn annar leyfi til þess að vinna sjálfstætt við sjúkling, enda er læknisfræðileg þekking á líffærafræði tyggingarfæra undirstaða þess að vel takist við ísetningu gervitanna.

Á þeim tíu árum sem eru liðin frá því að þetta frv. var fyrst flutt hefur tannlæknadeild Háskóla Íslands fengið nýtt og fullkomið kennsluhúsnæði þar sem unnt er að mennta tólf tannlæknaefni til starfa á hverju ári. Þar væri einnig hægt að starfrækja skóla fyrir tannsmiði svo og fyrir ýmsar aðrar stéttir sem á þessu sviði starfa. Heilsugæslustöðvar hafa verið byggðar víðast hvar á landinu, sbr. lög sem Alþingi samþykkti 1973 og tóku gildi 1. jan. 1974. Þá hefur tannlæknir verið ráðinn í hlutastarf í rn. sem m.a. hefur það verkefni að skipuleggja og koma á fræðslu um tannhirðu og tannvernd í skólum og heilbrigðisstofnunum um gjörvallt landið og fá tannlækna til starfa í strjálbýli. Loks greiðir ríkið hluta tannlæknakostnaðar, en það var ekki gert fyrir árið 1974.

Þetta frv. fór í gegnum Nd. seint á síðasta þingi og þar urðu um það nokkrar umr. og þó einkum um 3. gr. þess þar sem fjallað er um tannlæknaleyfi og leyfi til að veita mönnum þann rétt að kalla sig tannlækna. Í 2. mgr. er fjallað um að sé um erlendan ríkisborgara að ræða skuli hann enn fremur sanna fullnægjandi kunnáttu sína í íslenskri tungu og þar segir að leitað skuli umsagnar Tannlæknafélags Íslands og landlæknis. Einkum um þetta atriði urðu umræður í heilbr.- og trn. Nd., um það hvort eðlilegt væri að leita umsagnar Tannlæknafélagsins sérstaklega varðandi þetta mál.

Með tilliti til þess að í frv. sem Alþingi hefur að undanförnu samþykkt um starfsréttindi, eins og t.d. frv. til l. um sjóntækjafræðinga sem var orðið að lögum þegar þetta mál var til umr. svo og frv. til l. um sjúkraliða sem varð einnig að lögum á síðasta þingi, þar sem eru hliðstæð ákvæði um að leitað skuli umsagnar félags, Félags sjóntækjafræðinga í öðru tilfellinu og Sjúkraliðafélags Íslands í hinu, þá þótti n. í Nd. ekki fært að gera þá breytingu að fella niður að leitað skyldi umsagnar Tannlæknafélagsins, þ.e. n. treysti sér ekki til að standa að þeirri breytingu sameiginlega. Frv. var síðan afgreitt frá Nd. með shlj. atkv. og sent á síðustu dögum þingsins til þessarar hv. deildar sem taldi ekki fært að afgreiða málið á svo skömmum tíma. Ég tók því þá ákvörðun að flytja frv. óbreytt eins og það var afgreitt frá Nd. seint á síðasta þingi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.