02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4037 í B-deild Alþingistíðinda. (3350)

401. mál, orkuverð til Járnblendifélagsins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Það var skemmtilegt að heyra að hæstv. iðnrh. hefur ekki gleymt gömlu stílbrögðunum alveg. Virðuleiki ráðherraembættisins er ekki alveg að sliga hann. Hins vegar hefði hann gjarnan mátt rifja það upp áður en hann kom hér í stólinn að það er betri siður ráðh. áður en byrjað er á almennu pólitísku skítkasti að svara fsp. fyrst. En því miður er það nú þannig, hæstv. forseti, að iðnrh. á eftir að svara helmingnum af fsp. mínum. Hann svaraði að vísu á síðustu mínútunni 1. lið en að 2. lið kom hann bara alls ekki og á eftir að svara honum gersamlega. Þar var beðið um ákveðnar upplýsingar sem hæstv. iðnrh. lét ekki í té. (Iðnrh.: Ég er með þær hérna.) Hann upplýsir nú að hann sé með þær. En það er merkilegt að hann skyldi ekki lesa þær þegar hann fékk 10 mín. hér til þess að svara fsp. Nú er það hins vegar þannig með þingsköpin að eftir að ég er búinn að tala hér, herra forseti, og iðnrh. kemur hér væntanlega upp á eftir og svarar seinni hlutanum, þá er ég búinn með minn tíma. (ÓÞÞ: Það kemur nú ekki að sök.) Það getur vel verið, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að það komi ekki að sök, en það er aukaatriði í þessu máli. Aðalatriðið er það að iðnrh. hafði svo vondan málstað greinilega í þessu máli að hann kaus að leggja höfuðáhersluna á almennt pólitískt skítkast í stað þess að gera það sem honum ber skylda til: að svara fsp. Vænti ég þess að hann geri það hér á eftir, 2. lið.

Því miður er það nú svo, hæstv. iðnrh., að ég á ekki heiðurinn af þessum ágætu fyrirsögnum sem iðnrh. var að lesa hér á leiðurum og fréttum sem eru merkt einstaklingum í Þjóðviljanum. En það er svo sem eftir öðru að hæstv. iðnrh. komi hér og eigni mér leiðara og fréttir sem eru greinilega merktar í blaðinu öðrum einstaklingum. Ég skal ekki draga úr því að þetta eru ágætir leiðarar og ágætar fréttir en þær eru greinilega merktar öðrum einstaklingum. Og það sýnir best hvernig málstaðurinn var að iðnrh. skyldi þurfa að grípa til þess bragðs hér að veifa þessu plaggi, blaðaúrklippum janúarmánaðar s. l., og eigna mér þar alls konar setningar og tilvitnanir sem hann las hér upp þó að þær séu greinilega merktar öðrum einstaklingi.

Kjarni málsins er hins vegar sá, hæstv. iðnrh., að járnblendiverksmiðjan borgar nú helmingi lægra orkuverð en verksmiðjan í Straumsvík og borgar þó verksmiðjan í Straumsvík hvergi nærri nægilega hátt orkuverð. Þegar málefni járnblendiverksmiðjunnar voru til umræðu á síðustu árum á vettvangi Alþb. þá var hvað eftir annað, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur hér upplýst, lögð á það rík áhersla að endurskoðun á orkuverðinu og.öðrum þáttum yrði höfuðatriði í samningum um nýja eignaraðila. Það var meginatriði af hálfu Alþb. í þeirri umræðu. En það er alveg ljóst að hæstv. iðnrh. hljóp algerlega frá þessum skilyrðum og féllst á kröfu Japananna um að þeir kæmu inn í fyrirtækið og fengju í staðinn óbreytt orkuverð um langa framtíð. Og þessar ágóðatölur, sem hann las hér upp, til Landsvirkjunar einhvern tíma við lok þessa áratugs eða næsta áratugs eru algerlega lauslegar spásagnir, sem enginn fastur grunnur er fyrir að muni koma til fyrirtækisins og eru þar að auki mun lægri upphæðir en sem nemur muninum á orkuverðinu frá járnblendiverksmiðjunni annars vegar og til ÍSALs hins vegar, þannig að jafnvel þótt Landsvirkjun fengi eitthvað af þeim ágóða sem hæstv. iðnrh. var að lýsa hér áðan, þá væri það bara lítið brot af þeim verðmun sem er á orkunni til Járnblendifélagsins og annarrar stóriðju í landinu. Það er því mjög veigalítil borgun til baka sem þarna er um að ræða. Áfram verður ríkjandi styrkjastefna frá orkuverum almennings í landinu til þessa fyrirtækis í gegnum hátt orkuverð til almennings.

En fyrst hæstv. iðnrh. fór að gera að umtalsefni hér mál inni í flokkum, varðandi þessa verksmiðju og þennan samning, hafði að vísu rangt fyrir sér hvað Alþb. snertir, en látum það liggja á milli hluta, þá vil ég bara geta þess, hæstv. iðnrh. til upplýsingar, að það eru fleiri en ég í stjórn Landsvirkjunar sem ekki voru hrifnir af þessum samningi. Þegar þessi samningur hæstv. iðnrh. kom til afgreiðslu í stjórn Landsvirkjunar — og ég tek það fram að ég segi þetta hér vegna þess að hæstv. iðnrh. kaus að flytja þessa umræðu inn á flokkspólitískan grundvöll, ella hefði ég ekki vakið á því athygli hér —þá lýsti borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson, formannsefni í Sjálfstfl., því yfir að hann stæði ekki að þessum samningi, hann gæti ekki stutt hann, hann væri svo lélegur. Hann sat hjá í atkvgr. í stjórn Landsvirkjunar um þennan samning. Og sá fulltrúi sem Sjálfstfl. hér á Alþingi kaus í stjórn Landsvirkjunar, Árni Grétar Finnsson, lýsti því yfir þegar hann kom á fund Landsvirkjunar eftir að samningurinn hafði verið gerður — hann var fjarstaddur þegar samningurinn var afgreiddur — að hann hefði ekki stutt hann. Það liggur því alveg ljóst fyrir að það er mjög víðtæk gagnrýni í stjórn Landsvirkjunar á þennan samning, sem hæstv. iðnrh. er hér að reyna að gylla sem eitthvert aðdáunarvert verk, sem allir séu að hrópa húrra fyrir og séu ánægðir með nema bara einhverjir óknyttapiltar í Alþb. og þá í annarlegum tilgangi.

Herra forseti. Það væri nær fyrir hæstv. iðnrh. að kynna sér skoðanir stjórnarmanna Landsvirkjunar úr hans eigin flokki á þessum samningi og vera reiðubúinn í efnislegar umræður við okkur hér á Alþingi um þetta hneykslanlega lága orkuverð heldur en að kjósa þann pólitíska skætingstón sem hann kaus hér í svari sínu og upplýsti fyrst og fremst eitt: að hæstv. iðnrh. hefur svo lélegan efnismálstað að verja í þessu máli að hann kýs ýmist að svara ekki fsp. eða nota eina mínútu í lokin til að svara hinni fyrri, en nota síðan megintímann í almennt pólitískt skítkast.