02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

321. mál, löggjöf um fiskeldi

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 510 að beina fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. og landbrh. um undirbúning að löggjöf um fiskeldi. Ég sé sem stendur aðeins hæstv. landbrh. í salnum, en vænti þess að úr því verði bætt. (Forseti: Það er verið að ná í hæstv. sjútvrh. Ég vona að hann komi innan tíðar.)

Á síðasta þingi flutti ég ásamt þremur öðrum þm. Alþb. till. til þál. um fiskeldi og rannsóknir á klaki og eldi sjávar- og vatnadýra. Ég leyfi mér að vitna til þeirrar till.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa áætlun um eflingu fiskeldis með það að markmiði að eldi og ræktun sjávar- og vatnadýra geti sem fyrst orðið gildur liður í þjóðarbúskap og atvinnulífi á Íslandi.

Við gerð áætlunarinnar verði m. a. haft samráð við Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Rannsóknaráð ríkisins og Háskóla Íslands.

Sérstök áhersla verði lögð á þá þætti sem skilað geta arði sem fyrst, svo sem eldi á ungfiski úr sjó, en jafnhliða verði sköpuð aðstaða til víðtækra rannsókna og tilrauna með aðra þætti, svo sem klak og seiðaeldi við íslenskar aðstæður.

Fyrstu aðgerðir á þessu sviði verði m. a. í því fólgnar:

1. að undirbúa heildarlöggjöf um fiskeldi þar sem m. a. verði ákveðin yfirstjórn þessara mála og stuðningur af hálfu hins opinbera;

2. að koma upp tilraunaaðstöðu vegna fiskeldis og klaks á vegum Hafrannsóknastofnunar sem jafnframt geri tilraunir með öflun á ungfiski til eldis svo og með fóðuröflun;

3. að undirbúa fjármögnun til framkvæmda á þessu sviði;

4. að kanna almennar forsendur fyrir fiskeldi hérlendis, m. a. varðandi fisktegundir, markað og arðsemi;

5. að meta gildi jarðvarma og aðrar staðbundnar forsendur fyrir fiskeldi;

6. að draga saman vitneskju um rannsóknir og reynslu hérlendis og erlendis í ræktun vatna- og sjávardýra.

Áætlunin skal lögð fyrir Alþingi ásamt frv. tál l. um fiskeldi eigi síðar en í þingbyrjun 1984.“

Þessi till. fékk umfjöllun í hv. atvmn. Sþ. og meiri hl. hennar lagði til s. l. vor að till. yrði vísað til ríkisstj. Það komu fram mjög jákvæð viðhorf til þessa máls í hv. atvmn. og leitað var m. a. umsagnar sjútvrn. um þetta efni. Kom það fram í nál.sjútvrn. hefði hafið undirbúning að skipun nefndar til að undirbúa heildarlöggjöf um fiskeldi í sjó sem áformað hafði verið að leggja fyrir Alþingi sem frv. til l. Hins vegar hafi komið í ljós að starfandi var nefnd á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, sem skipuð var haustið 1982, og var sú nefnd að vinna að sömu hlutum og fyrirhuguð nefnd á vegum sjútvrn. átti að vinna að, segir í nál. Síðan segir þar:

„Eftir þeim upplýsingum sem rn. hefur fengið frá ritara nefndar Rannsóknaráðs, Úlfari Antonssyni, mun nál. þeirrar nefndar verða tilbúið innan fárra vikna.“

Þetta er dagsett 16. maí 1984. Þar segir síðan:

„Það er ætlun sjútvrn. að um leið og álit nefndar Rannsóknaráðs ríkisins liggur fyrir hefji nefnd sjútvrn. störf og með þau markmið að leiðarljósi sem fyrr eru nefnd.“

Þessari till., sem vísað var til ríkisstj., var beint til sjútvrn. með bréfi dags. 29. maí s. l., en samhljóða bréf sent landbrn. þar sem ljóst er að bæði þessi rn. hafa lögum samkvæmt með að gera ákveðna þætti — og þá kannske alveg sérstaklega landbrn. — sem varða fiskeldi og fiskirækt. Ég hef leyft mér að beina fsp. til hæstv. ráðh. beggja, sjútvrh. og landbrh., svofelldri:

„Hvað líður undirbúningi að heildarlöggjöf um fiskeldi með hliðsjón af þáltill. um fiskeldi og rannsóknir á klaki og eldi sjávar- og vatnadýra sem vísað var til ríkisstj. 22. maí 1984?"

Ég vil bæta því hér við að eftir að afstaða var tekin til þessa máls í hv. atvmn. með hliðsjón af umsögn frá sjútvrn. sem byggði á upplýsingum Rannsóknaráðs ríkisins þar sem talið var að álits væri að vænta frá nefnd þar innan fárra vikna hefur mikið verið rætt og fjallað um fiskeldismál og komið hafa upp mörg atriði sem sýna hve brýna nauðsyn ber til þess að tekið sé á þessum málum af löggjafanum, þeim markaður farvegur í stjórnkerfinu, fjármagn tryggt til aðgerða, rannsóknaraðstaða og stefna varðandi rannsóknir á þessu sviði verði fastmótuð eins og gert var ráð fyrir í till. okkar Alþb.-manna.

Þetta hefur því miður enn ekki gerst. Ég vil leyfa mér hér að lokum að vitna til orða framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs ríkisins, Vilhjálms Lúðvíkssonar, sem hann viðhafði á ársfundi Rannsóknaráðs ríkisins þann 8. febr. s. l. varðandi þetta efni. Hann segir þar með leyfi forseta:

„Þó þannig hafi fremur dregið mátt úr rannsóknastarfseminni um skeið er mikið talað um nauðsyn nýsköpunar í atvinnuvegunum og nefndar háar tölur um fjármagn sem eigi að fara til þeirra hluta. Því miður er það svo að þau atvinnutækifæri sem menn tala mest um, t. d. á sviði líftækni og fiskeldis, eru að miklu leyti enn þá óundirbyggð að því er rannsóknir varðar og hafa þegar orðið af því stórfelld skakkaföll. Ég óttast“, segir Vilhjálmur Lúðvíksson, „að á næsta leiti sé alda fjárfestingar í fiskeldi sem að miklu leyti verði byggð á sandi því að þeir þættir, sem arðsamt matfiskeldi þarf að byggjast á hér á landi, eru enn að miklu leyti órannsakaðir og hvergi hefur enn þá verið sýnt fram á hvernig reka eigi fiskeldi í heild frá klaki til markaðar þannig að rekstraröryggi verði tryggt. Sú skýring á vaxtarferli laxins með aðstoð jarðhita, sem hér er reiknað með, er flókið og mjög vandasamt mál.“

Þetta voru orð Vilhjálms Lúðvíkssonar framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs. Þau minna okkur á nauðsynina á að tekið sé á þessum málum af löggjafar- og framkvæmdavaldi með öðrum hætti en gert hefur verið.