02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

321. mál, löggjöf um fiskeldi

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ljóst er að það er nauðsynlegt að setja löggjöf um fiskeldi og ákveða með hvaða hætti því skuli fyrir komið í okkar stjórnkerfi. Jafnvel þó að ég viðurkenni að slík löggjöf sé mjög nauðsynleg er enn þá nauðsynlegra að samræma vinnubrögð á þessu sviði. Ég get ekki séð að það muni standa og falla með löggjöfinni sem slíkri, heldur að samræmd séu vinnubrögð allra þeirra sem koma að málum, þannig að þau fyrirtæki sem hyggjast fara út í þennan atvinnurekstur geti notið sín með eðlilegum hætti.

Strax vorið 1983 hafði ég sem sjútvrh. áhuga fyrir því að hrinda af stað frekari undirbúningi þessara mála en varð fljótt var við að Rannsóknaráð ríkisins hafði hafið starf á þessu sviði. Það er einnig mikilvægt að ekki séu margar nefndir og margir aðilar að vinna að sömu verkefnum og því geta allir verið sammála að mikilvægara sé að reyna að samræma kraftana. Ég verð að segja eins og er að ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með það hversu lengi hefur dregist að þessi nefnd skili af sér, en að sjálfsögðu má það ekki koma í veg fyrir að hér sé staðið eðlilega að málum. Með því að skipa þá nefnd, sem hæstv. landbrh: nefndi hér, væntum við þess að samræmd verði störf rannsóknastofnana á þessu sviði.

Ýmsar rannsóknastofnanir vinna að fiskeldi; Fiskifélag Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Hafrannsóknastofnunin, veiðimálastjóri og fleiri aðilar. Það hefur verið ákveðið að Hafrannsóknastofnun efli rannsóknastarf í þessu sviði, enda er það í samræmi við lögin um Hafrannsóknastofnunina, og þá er að sjálfsögðu mikilvægt að fullt samstarf sé haft við aðrar stofnanir. Hlýtur að vera eðlilegt að stofnun eins og Hafrannsóknastofnun sinni þessu verkefni í ríkum mæli því að þar eru saman komnir okkar helstu sérfræðingar á sviði fiskifræði. Að sjálfsögðu er ekki mikill munur á því í mörgum tilfeilum hvort er um að ræða fiskeldi eða aðra fiskifræði og nauðsynlegt að nýta þá sérþekkingu.

Þessi nefnd mun hefja væntanlega störf alveg á næstunni. En það sem skiptir meginmáli er fjármögnun þeirra fjárfestinga sem nú er byrjað á. Það er brýnasta verkefnið og hefur því miður verið nokkuð á reiki hvernig að skuli staðið. Sem betur fer er það að skýrast um þessar mundir.

Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um þetta mál. Það liggur alveg fyrir að fiskeldi hefur ekki verið sinnt nægilega vel af okkur á undanförnum áratug og margir hafa farið þar verulega fram úr okkur. Ég hef t. d. talið að það bæri að auka rannsókn á laxinum í hafinu þannig að við vissum meira um hætti hans. Því hefur ekki verið tekið mjög vel af ýmsum aðilum og virðist mörgum að ekki megi skoða þann ágæta fisk á því svæði, það megi aðeins skoða hann þegar hann gengur upp í árnar. Með þessu var ég ekki að leggja til að hafin væri laxveiði í sjó. Hins vegar er mjög slæmt að geta ekki nýtt rannsóknaskip til þessarar starfsemi. Við höfum nýlega eignast ágætis skip, endurnýjað Dröfnina, sem er vel búið til að stunda slíkar rannsóknir. Ég er enn þeirrar skoðunar að þær beri að gera og vænti þess að það geti orðið. Hér mega ekki ríkja neinir fordómar og mönnum ber að sameina kraftana þannig að þeir geti fengið sem fyllsta vitneskju um þessi efni.