02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

344. mál, raunvextir afurðalána

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er sagði hæstv. forsrh. á fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur nýlega að það hefðu verið pólitísk mistök að láta viðgangast misvægi launakjara í landinu og lánskjaravísitölu. Þetta var í rauninni engin smáræðis yfirlýsing því að þetta misvægi er kjarninn í efnahagsstefnu ríkisstj. Efnahagsstefnan var í megindráttum fólgin í tvennu, annars vegar því að afnema vísitölutryggingu launa en halda henni á öðrum sviðum og svo að hinu leytinu að stórhækka raunvexti. Það sem hæstv. forsrh. var að segja var að kjarninn í stjórnarsáttmálanum, bæði hinum upprunalega og hinum endurnýjuðu stjórnarsáttmálum í sumar, efnahagsstefnan sjálf hefði verið röng, þá væntanlega bæði afnám verðtryggingar á laun en ekki verðtryggingar á öðru, sem bjó til þennan mismun að mestu leyti, og svo vaxtastefnan, sú stefna að hækka raunvexti.

Það varð auðvitað ekki önnur ályktun dregin en að efnahagsstefnan, stjórnarstefnan og stjórnarsáttmálinn væru pólitísk mistök. Formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, dró þá eðlilegu og rökréttu ályktun að myndun ríkisstj. hefði skv. orðum forsrh. verið pólitísk mistök. Það var vitaskuld ekki hægt að draga aðra ályktun af orðum hæstv. forsrh. Þetta líkaði hæstv. forsrh. ekki og sagðist ekkert skilja í Þorsteini Pálssyni, hann væri að snúa út úr fyrir sér og ríkisstjórnarmyndunin væri auðvitað ekki pólitísk mistök, það hefði hann aldrei sagt, heldur að misgengi launa og lánskjara væru pólitísk mistök.

Þá stóðu menn í sömu sporum aftur. Kjarni stjórnarstefnunnar, efnahagsstefna ríkisstj. frá upphafi var þá pólitísk mistök og allir stjórnarsáttmálarnir og allar yfirlýsingarnar en ekki stjórnin sjálf. Sem sagt, ef ríkisstj. hefði haft aðra stefnu þá væri allt í lagi, eða: stjórnin var góð en hún var bara mynduð um stefnu sem var röng, stefnu sem var pólitísk mistök að dómi hæstv. forsrh.

Þessi niðurstaða verður þá sú að það hafi ekki verið pólitísk mistök að mynda stjórnina en hins vegar hafi hún verið mynduð um stefnu sem var pólitísk mistök. Það var kannske ekki nema von að hv. þm. Þorsteini Pálssyni þætti erfitt að átta sig á þessu.

En hæstv. forsrh. sagði fleira í þessu sjónvarpsviðtali. Hann kenndi Seðlabankanum um misræmið milli lánskjara og launa og sagði að þeir seðlabankamenn ættu að hugsa um þetta, þaðan ættu tillögur að koma, þessar tillögur vantaði. Hann gaf í rauninni í skyn að ríkisstj. réði engu um þetta misræmi. Þá fór nú heldur að vandast málið. Ef það var Seðlabankinn, ef það voru embættismenn úti í bæ sem réðu þessu, hvernig gátu þetta þá verið pólitísk mistök, hlutu menn að spyrja, ef stjórnmálamennirnir höfðu ekkert með það að gera? Þessi svör vöktu þannig fleiri spurningar en þau svöruðu í rauninni.

En í ljósi alls þessa og til þess að reyna að fá glætu í málið, þá virðist rétt að minna á að ríkisstj. sjálf ákveður vexti á afurðalánum, hún sjálf en ekki Seðlabankinn, hún þarf ekkert að bíða eftir honum með það. Og sú fsp. sem hér er fram borin ætti því að geta varpað einhverri glætu á vaxtastefnuna á reynd vegna þess að ríkisstj. ræður ein að því er afurðalánin varðar og svör við þessari fsp. ættu þá að upplýsa hvernig samræmi eða misræmi hafi verið í ákvörðunum ríkisstj. í þessum efnum þegar hún ræður ein og sér og hvernig hún standi að því ein og sér að gera það sem hæstv. forsrh. nefnir pólitísk mistök. Fsp. eru þannig:

„Hvaða raunvextir hafa verið á afurðalánum vegna útflutnings annars vegar og á afurðalánum vegna sölu innanlands hins vegar á tímabilinu frá 1. ágúst 1984 til 1. febrúar s. l.?

Ef hér er um mismun að ræða, telur þá ráðh. að sá mismunur sé eðlilegur og hvaða efnahagsleg rök eru fyrir honum?“

Þessari fsp. er beint til hæstv. viðskrh.