02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4056 í B-deild Alþingistíðinda. (3371)

344. mál, raunvextir afurðalána

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Án þess að víkja hér að löngum inngangi hv. þm. að þeirri fsp. sem hann hér hefur flutt leyfi ég mér að taka fram í upphafi að í svari mínu hér á eftir er gert ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi eigi við raunvexti á innlendan mælikvarða eftir að erlend kjör útflutningslána hafa verið umreiknuð í krónur. Þá þykir mér rétt að gefa svarið í þrennu lagi miðað við tímaviðmiðanir. Hafa verður í huga að meiri háttar gengisbreyting fellur innan þess tímabils sem fsp. markar.

Fyrst skal gerð grein fyrir raunvöxtum afurðalána miðað við tímabilið frá 1. ágúst 1984 til 1. febrúar 1985 eins og beðið er um í fsp. Á þessum tíma var ársávöxtun afurðalána út á innanlandssölu 23.8% en árshækkun lánskjaravísitölu 26%. Raunvextir voru því neikvæðir um 7%. Ávöxtun afurðalána af útflutningsframleiðslu miðað við heilt ár reyndust 75.6% og raunvextir 31.9.

Það er áður en eftirgjöf gengismunar af hálfu Seðlabankans er tekin með í reikninginn. Að teknu tilliti til hennar verður ársvöxtun hins vegar 59.6% og raunvextir 19.9%.

Eins og áður segir er þetta tímabil þannig valið að meiri háttar gengisbreyting fellur innan þess. Það hlýtur því að teljast raunhæfara að miða við þann tíma sem gengisbreytingin endist, ef þannig má að orði komast. Til þess að komast nær sanni í þessu efni voru raunvextir afurðalána reiknaðir fyrir allt árið 1984. Þá verður útkoman að afurðalánin út á innanlandssölu skila 1.9% raunvöxtum en afurðalán vegna útflutnings 21.4 án eftirgjafar en 10.3% með vaxtaeftirgjöf. Loks er nærtækast að miða samanburðinn á raunvöxtum afurðalána vegna útflutnings annars vegar og vegna sölu innanlands hins vegar við það tímabil sem erlendir afurðalánavextir hafa verið í gildi frá 21. september 1983 og út þann tíma sem gengisfellingin í nóvember 1984 er talin muni endast að meðtöldu hugsanlegu gengissigi skv. áður upplýstum þjóðhagsmarkmiðum, sem fram komu í september þegar núgildandi kjarasamningar geta runnið út. Samanburður yfir þetta tímabil hefur verið gerður að því er tekur til viðbótarlána og sýndi sú athugun nána samsvörun innlendra og erlendra lánskjara yfir þetta tímabil og hvors árs þess um sig. Sams konar samanburður fyrir endurkeypt lán mundi hins vegar sýna lægri innlenda vexti frá ágústmánuði 1984 en þar kæmi á móti 10% eftirgjöf Seðlabankans sem fyrr er greint frá.

Með vísan til þessa sem ég hef nú sagt og um það hvernig nærtækast sé að bera saman raunvexti á afurðalánum vegna útflutnings annars vegar og vegna sölu innanlands hins vegar tel ég ekki um mismun á vaxtakjörum að ræða.