02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4060 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

370. mál, verð á áburði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ekki fengust mikil svör við þeirri spurningu sem þarna skiptir mestu: Hvert verður áburðarverðið og hvenær verður það ákveðið?

Hæstv. ráðh. greindi okkur frá því að sá háttur hefði nú verið hafður á af hálfu stjórnar Áburðarverksmiðjunnar að gera ekki tillögu til ráðh., heldur leita eftir ábendingum frá ríkisstj. áður en tillaga er gerð til ráðh. sem gert er ráð fyrir skv. erindisbréfi að komi 15 dögum fyrir 15. apríl eða um miðjan marsmánuð. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvað veldur því að ekki er gerð tillaga af hálfu stjórnar Áburðarverksmiðjunnar til ráðh. um þetta efni? Hvað veldur því að svo seint er verið að verki í sambandi við þetta mál? Mér er kunnugt um að síðasti fundur í stjórn Áburðarverksmiðjunnar var haldinn um mánaðamót febrúar-mars, en síðan þá enginn fundur. Í stjórn Áburðarverksmiðjunnar er auðvitað ákveðinn stjórnarmeirihluti ríkisstjórnarflokkanna. Er það hann sem stendur fyrir þessu í samráði við ráðh.? Hefur ráðh. gefið stjórn Áburðarverksmiðjunnar um það leiðbeiningar að hún skuli nú ekki vera að gera ákveðna tillögu, heldur skuli hún leita eftir ábendingum og fyrst að þeim gefnum af hálfu ríkisstj. móti stjórn Áburðarverksmiðjunnar tillögur til ráðh.? Hvenær á þetta að enda? Hvenær gerir ráðh. ráð fyrir að hafa ákveðið áburðarverðið? Mér sýnist að það sé alllangt ferli eftir? Hvenær er næsti ríkisstjórnarfundur sem á að ganga frá forsendum til stjórnar verksmiðjunnar þannig að hún geri tillögur sem ráðh. var að tala um? Verður hann haldinn fyrir páska? Verður hann haldinn eftir páska? Síðan er eftir að fá tillögur stjórnarinnar og síðan telur ráðh. sig hafa frest, kannske allt að 15 dögum skv. erindisbréfi, til að taka á þessu máli.

Þetta eru aldeilis forkastanleg vinnubrögð, sem eru hér viðhöfð, þegar það liggur fyrir ómótmælt af ráðh. að uppi séu hugmyndir um og forsendur bendi til þess að um sé að ræða gífurlega hækkun á áburðarverði. Það voru ekki vefengdar þær tölur, sem ég vitnaði til úr Morgunblaðinu, upp á 85% hækkun sem þar væri talin þörf á í þessu sambandi.

Ég fel að hér sé þannig að staðið gagnvart bændum að það sé stórkostlega gagnrýni vert að ákveða ekki áburðarverðið. Í fyrsta lagi standa margir bændur frammi fyrir því sem ráðgátu hvernig þeir eigi að fjármagna áburðarkaupin. Í öðru lagi vita þeir ekki hvaða framleiðslumagn þeir fá fullt verð fyrir á yfirstandandi verðlagsári og því er allt í óvissu í rauninni um með hvaða hætti þeir skuli skipuleggja sinn búrekstur. Þetta grípur hvað inn í annað.

Hæstv. ráðh. sagðist hafa sent ábendingar áburðarverksmiðjustjórnarinnar til fjögurra aðila. Hann hefði fengið svar frá einum, ef ég skildi hann rétt. Enn heyrðist ekkert frá öðrum. Ég inni hæstv. ráðh. eftir því í hvað stefni skv. þeim gögnum sem fyrir liggja varðandi hækkun áburðarverðs.

Hæstv. ráðh. gerir ekki ráð fyrir að létta á áburðarverðinu með greiðslum gegnum kjarnfóðursjóð — greiðslum sem vissulega eru teknar af bændum sjálfum og fjármagnaðar af bændum sjálfum og gripið var til á síðasta verðlagsári. Skv. því og að engar aðrar hugmyndir eru mótaðar um þetta efni, þá blasir hér við áburðarverðshækkun á bilinu 5–100%. Hvernig telur ráðh. að verði kleift að standa að búskap á yfirstandandi ári ef þetta á fram að ganga? Ætlar hann að koma í veg fyrir að þessi hækkun nái fram að ganga? Það færi betur að leiðir beindust í því efni. Ég sé ekki annað en þetta geti þýtt að bændur fari að taka pokann sinn fyrr en ella.

Ráðh. gerði svo að umtalsefni í framhjáhlaupi stöðu bænda, tók undir það að hún væri erfið, og hann nefndi framleiðslusamdráttinn 1979. Hann nefndi ekki fjármagnskostnaðinn sem ríkisstj. hefur hleypt lausum á allan atvinnurekstur í landinu jafnt og á launafólk sem skuldar. Það er kannske ekki minna atriði. Ætli fjármagnskostnaðurinn sé ekki stærra atriði en framleiðslusamdrátturinn? Og hvað um samdrátt niðurgreiðslnanna? Ekki var minnst á samdráttinn í þeim og þann samdrátt í sölu sem hlýtur að fylgja í kjölfarið á samdrætti niðurgreiðslna sem ríkisstj. hefur lækkað hvað eftir annað á sínum valdaferli. Fleira mætti þarna til tína.

Hér er um að ræða slíka vanrækslu í sambandi við málefni landbúnaðarins, slíka stefnu gagnvart landbúnaðinum og bændum, að við blasir byggðahrun ef fram heldur sem horfir í þessum efnum. Sú staða sem við blasir hér, hið óleysta dæmi í sambandi við áburðarkaupin, vekur ekki bjartsýni á meðan ekki kemur annað fram en lesa mátti út úr svörum ráðh., sem raunar voru engin svör, við mínum spurningum, nema varðandi 4. lið, að ekki er ráðgert að grípa til aðgerða eins og greiðslu í gegnum kjarnfóðursjóð til að lækka áburðarverðið. Það var í rauninni það eina sem fram kom fyrir utan ástæður fyrir hækkuninni. Ég skal ekki vefengja það sem þar kom fram. En ég vænti frekari svara frá hæstv. ráðh.