02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3378)

370. mál, verð á áburði

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég hef ekki gefið stjórn Áburðarverksmiðjunnar fyrirmæli um hvernig hún skuli haga störfum, þannig að það er ekki að mínum fyrirmælum að tillaga hefur ekki komið frá henni enn þá.

Ég mótmæli því að orð mín séu skilin þannig hér að verðhækkun á áburði verði 50–100%, eins og mér fannst hv. fyrirspyrjandi gera. Meðan áburðarverðið hefur ekki verið ákveðið treysti ég mér ekki til að segja hvað það verður.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. ræddi um þá áhættu sem Áburðarverksmiðjan tekur varðandi lán og af hverju hún ekki hefur sama hátt á og Sementsverksmiðjan. Það hefur frá upphafi verið þannig að Áburðarverksmiðjan hefur veitt greiðslufrest á áburðinum til bænda, þannig að hluti af honum er ekki greiddur fyrr en afurðalán koma í nóvember að hausti. Sá mismunur veldur miklu, bæði kemur andvirðið seint og áhættan af gengisbreytingum verður meiri.

Ég óskaði eftir því að reynt yrði að kanna hversu samkeppnisfær Áburðarverksmiðjan væri við innfluttan áburð. Eftir upplýsingum um áburðarverð erlendis frá að dæma og þegar tekið er tillit til verslunarháttanna, verðjöfnunar t. d. sem er á flutningskostnaði á áburði frá verksmiðjunni og kemur inn í áburðarverð, virtist sem þar væri um sambærilegt verð að ræða þó að nákvæma tölu hafi ég ekki í höndunum og geti ekkert fullyrt. Þetta er samkv. þeirri athugun sem gerð var.