02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4065 í B-deild Alþingistíðinda. (3381)

370. mál, verð á áburði

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil gera aths. við þann málflutning sem hv. 3. þm. Reykv. viðhafði áðan um forustumenn bændastéttarinnar þar sem þeir hafa ekki tök á að svara fyrir sig.

Ég held að það sé lítill ávinningur fyrir menn að upphefja slíkan málflutning um fjarstadda menn. Við sem þekkjum til landbúnaðar vitum allt of vel að það eru óviðráðanlegar aðstæður fyrir okkur sem valda erfiðleikum landbúnaðarins nú. Það er hvorki á valdi forustumanna bændastéttarinnar eða annarra. T. d. nefni ég þá þróun á markaðsaðstæðum, sem er í öllum löndum í kringum okkur, sem valdið hefur því að þar hefur orðið að draga úr framleiðslu. Til viðbótar því sem ég nefndi áðan um samdráttinn frá 1979 má vissulega geta um hið erfiða tíðarfar mörg þessara ára. Það skilur eftir ærið þungar klyfjar á mörgum bændum.