02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4065 í B-deild Alþingistíðinda. (3382)

370. mál, verð á áburði

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er skrýtin formúla hjá hæstv. landbrh. að það megi ekki tala um menn sem ekki eiga sæti hér á Alþingi. Meðan hæstv. landbrh. var forseti Sþ. leyfðist mönnum að flengríða í ræðustólnum á forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar og mörgum öðrum aðilum utan þings án þess að þáv. forseti gerði nokkru sinni aths. við það, en þegar komið er að forustumönnum Framsfl. í landbúnaðarmálum eiga þeir allt í einu að vera stikkfrí á Alþingi. Þá má ekki minnast á af því að þeir eru fjarstaddir. Svona formúla getur einfaldlega ekki gengið, hæstv. landbrh., nema þá að ráðh. vilji halda öðru tveggja fram: annaðhvort að um þá forustu eigi alls ekki að tala hér á Alþingi vegna þess að hún eigi ekki sæti hér og geti ekki svarað fyrir sig, og hverfur þá stór partur af umræðusneið þjóðfélagsvandamálanna af borðum þm., eða þá að hæstv. landbrh. ætlar að taka á sig sjálfur alla ábyrgðina af því sem þessir menn hafa verið að gera á undanförnum árum. Ef það er ætlun hæstv. landbrh. er út af fyrir sig hægt að ræða málin á þeim grundvelli.

Auðvitað er það staðreynd að Framsfl. ber meginábyrgðina á þessu öllu saman. Þeir menn sem hafa verið í forustu í bændasamtökunum hafa um leið verið flokkspólitískir forustumenn Framsfl. Ég þekki það vel til í þessum herbúðum að ég veit að menn eru ekki valdir í þessar stöður nema njóta þess flokkslega trúnaðar Framsfl. að þeir séu taldir fullburðugir þess að reka í senn erindi flokksins og þessara samtaka og láta samtökin þjóna flokknum fyrst og fremst. (ÓÞÞ: Hvað hafa mennirnir brotið af sér, Ólafur Ragnar?) Þeir hafa fyrst og fremst brotið það af sér, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að þeir hafa haldið þannig á málefnum landbúnaðarins að á sama tíma og milliliðafyrirtækin í landbúnaðinum hafa hlaðið upp stórgróða hér á höfuðborgarsvæðinu og standa núna fyrir byggingu mestu stórhýsa á höfuðborgarsvæðinu hefur sífellt stærri hluti bændastéttarinnar úti um land orðið fátækari og fátækari. Þetta kalla ég að bregðast trúnaði við sína félagsmenn að halda þannig á málefnum landbúnaðarins að það séu stórkostlegar framkvæmdir fyrir gróðann af þessum fyrirtækjum því að sum þeirra hafa ekki tekið krónu að láni í að byggja þessi stórhýsi. Þrjú af stærstu stórhýsunum sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru byggð á vegum bændasamtakanna og fyrirtækja þeirra. Ásamt Íslenskum aðalverktökum eru þetta þau fyrirtæki sem standa fyrir mestu stórhýsabyggingum á höfuðborgarsvæðinu. Mætti þó að vísu bæta Hagkaupum við ef tilvonandi verslunarhús þeirra er haft með. (Gripið fram í: Er það þá eign bænda?) Nei, en það er haft til samanburðar. Það er aðeins ein framkvæmd á vegum einkaverslunarinnar á höfuðborgarsvæðinu sem stenst samanburð við hinar miklu framkvæmdir þessara þriggja fyrirtækja bænda.

Það sem þessir menn hafa brotið af sér, svo að ég endurtaki það fyrir hv. þm., er það að þeir hafa látið þessa gróðamyndun og stórkostlegu eignasöfnun eiga sér stað á sama tíma og stór hluti félagsmanna þeirra, sem þeir hafa átt að gæta hagsmuna fyrir, hefur orðið fátækari og fátækari. Það er ósköp eðlilegt að flokkspólitískir oddvitar Framsfl., eins og hæstv. landbrh. Jón Helgason, vilji alls ekki láta tala um þetta á Alþingi. Sameinað þing, 68. fundur.