02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (3384)

24. mál, Búnaðarfélag Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Nú ber svo við að til umfjöllunar er till. til þál. þar sem grg. er aðeins þrjár línur. Nú er það svo að þm. hafa komið í pontu og kvartað undan alllöngum grg. M. a. hefur 5. þm. Austurl. stundum legið undir því að vilja gera nokkuð ítarlaga grein fyrir þeim málum sem hann hefur verið að flytja hér á Alþingi. Ég hallast að því, herra forseti, að það gæti verið æskilegt að þarna yrði farinn einhver millivegur og sýnist að það væri gæfulegt að sumir skýrðu dálítið betur það sem þeir væru að tala um, en aðrir reyndu e. t. v. að stytta mál sitt nokkuð.

Aðalatriði þess sem hér hefur komið fram er spurningin um hvað sé skynsamlegt að ríkisvaldið hafi mikið samstarf við félagasamtök sem fjalla um atvinnurekstur í landinu. Þau tíðindi bárust fyrir nokkru að nokkrir trillukarlar í Vestmannaeyjum ákváðu að sækja sjóinn og gerðu það með pomp og prakt og tilkynntu fyrir fram að þeir hefðu ákveðið að virða ekki bann sjútvrn. Satt best að segja leiddi það hugann að því hvort ekki væri búið að troða helst til miklu valdi inn í sjútvrn., valdi sem ætti einhvern veginn að vera í höndum félagsskapar á vegum atvinnuvegarins sjálfs og tryggði stjórnun innanfrá. Og hver voru viðbrögð ráðh.? Jú, það fyrsta var að hann nánast óskaði eftir því að stofnuð yrðu samtök smábátaeigenda sem hann gæti rætt við um þessi málefni.

Ég vil byrja á að víkja að þeim rökum sem koma fram í grg. fyrir því að hætta þátttöku í starfsemi Búnaðarfélags Íslands. Þar er fyrst minnst á breytta atvinnuhætti. Hinir breyttu atvinnuhættir munu trúlega vera tækninýjungar í sveitum. Það er þá spurning um hvort mjaltavélakerfið hafi t. d. gert þetta óskynsamlegt, tilkoma traktoranna, loftáburðurinn sem er notaður eða hvort það var þegar menn fóru að flytja mjólk með skipulegum hætti til mjólkurbúa eða hvað yfir höfuð það er í tæknivæðingunni og breyttum atvinnuháttum sem hefur gert þetta að verkum. Ef þetta hefur verið í lagi þegar rjómabúin voru uppi, hvað hefur þá breyst ef það er ekki í lagi þegar Mjólkursamsalan sér um vinnsluna? Mér sýnist að það sé ákaflega erfitt að átta sig á því eða finna rök fyrir því að afskipti eigi ekki að vera af landbúnaði í gegnum félagasamtök vegna breyttra atvinnuhátta. Og enn ætla ég að vitna í sjávarútveginn.

Ætli það hafi ekki verið ærin nauðsyn, þegar rætt hefur verið um málefni sjávarútvegsins að undanförnu, að fylgjast með því hvað þeirra forustumenn vildu og lögðu til? Mér er ekki grunlaust um að ráðh. hafi m. a. s. gengið svo langt að samþykkja það sem hann taldi varla rétt vegna þess að honum þótti sem þeir hefðu það mikil völd að illa væri stætt á því að ganga fram hjá hugmyndum þeirra. Ég er sem sagt engu nær með þessa grg. varðandi tæknina og breytta atvinnuhætti.

Þá eru það „aðrar aðstæður“ sem gera það að verkum að hægt er að sinna þessu með hagkvæmari hætti. Það er nú það. Eru það bættar samgöngur sem gera það að verkum? Hafa bættar samgöngur leitt í ljós að hægt sé að sinna þessu með hagkvæmari hætti? Mér er ljóst að það hefur komið í ljós að menn treysta sér til að bjarga fé úr sjálfheldu með nokkuð snöggum ráðum og tæknin er til staðar, þannig að það eru vissir þættir sem hugsanlegt er að menn vilji skoða, en satt best að segja verður það allþunnur þrettándi líka þegar talað er um breyttar aðstæður nema þá því aðeins að menn hafi fundið út að bændur séu orðnir það fámennir í landinu að sjálfsagt sé af þeirri ástæðu að veita þeim nú aðför og vita hvort það sé ekki í það minnsta hægt að klekkja á forustumönnum bænda. Þetta er orðið nokkuð vinsælt. Menn ráðast á forustumenn stétta og telja að það verði þeim til vinsælda, að því er virðist, hjá stéttinni sjálfri.

Gott og vel. Ef forustumenn bænda eru jafnlélegir og af er látið, jafngersamlega vanhæfir og kom fram hjá 3. þm. Reykv., er þá ekki nauðsyn á auknum ríkisafskiptum til að reyna að hafa eitthvert vit í þessu og ætti þá ekki hv. flm. að leggja til að ríkisstj. fengi fulltrúa í stjórn Búnaðarfélags Íslands? Ekki virðist gæfulegt að standa að málinu á þann veg að höggva þetta niður, ef forustumennirnir eru óhæfir, og segja að þeir geti sjálfir séð um þetta.

Ég hygg að hv. flm. hafi ekki gert sér grein fyrir því til hvaða hluta hins þrískipta valds hann telst. Það fer ekki á milli mála að hann telst til löggjafarvaldsins, ekki satt? Hér leggur hann til að löggjafarvaldið samþykki bænarskjal til framkvæmdavaldsins um að breyta lögum. Um það fjallaði framsöguræðan. Er þá verið að leggja það til að framkvæmdavaldið eigi að ráða lagasetningunni og löggjafarvaldið eigi að taka að sér það hlutverk, sem mér skildist að landbrh. hefði í dag, að taka við tillögunum frá Búnaðarþingi? Er verið að leggja til að Alþingi Íslendinga eigi að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið? Hvað er verið að leggja til?

Það liggur fyrir ógrynni af tillögum um lagabreytingar frá Bandalagi jafnaðarmanna þar sem þeir leggja til að ýmsar stofnanir verði lagðar niður í þessu þjóðfélagi. Þar hafa þeir ekki tapað áttum hvað snertir að þeir gera sér grein fyrir því að þeir eru hluti af löggjafarvaldinu og eiga að koma með tillögur um lagabreytingar. Hitt er svo allt annað mál hvort Alþingi er sammála öllum þeim hugmyndum sem þar koma fram. Það er þó í takt við þá stöðu sem þm. hafa að flytja breytingar á lögum ef þeir eru andvígir lögum. Hér er aftur á móti lagt til að framkvæmdavaldið eigi að taka að sér að móta þessa lagasetningu.

Ég hygg að mesta valdaafsal ráðh., sem löggjafarvaldið framkvæmdi, hafi verið þegar embætti ríkissaksóknara var stofnað. Mér þætti vænt um ef hv. 8. þm. Reykv. kynnti sér það að hvergi á Norðurlöndum hefur ráðh. afsalað sér jafnmiklu valdi og hann gerði með því að leggja til á sínum tíma að þann veg yrði að þeim málum staðið — og það var ekki valdaafsal til neins félagsskapar, heldur til eins manns sem er nánast búinn að breyta þessu kerfi í dómstól í dag. Það er ekki einu sinni að eftirlitsskylda sé til staðar af hálfu dómsmrh. Dálítið merkilegt að hv. 8. þm. Reykv., sem er grimmur talsmaður þess að valdið skuli geymt í rn. og hvergi annars staðar, hefur einnig verið að flytja tillögur um að þeir vilji flytja valdið til fólksins, til grasrótarinnar. Er það grasrótin sem er í rn.? Er það grasrótin? Er samræmi í þessum málflutningi? (StB: Þínum eða mínum?) Þínum eða mínum, spyr hv. þm., 8. þm. Reykv. Það er von að hann sé farinn að efast um samræmið í eigin málflutningi. Mér er ljóst hvaða afstöðu hann hefur til míns.

Ég hygg að það megi taka um það bil hvern einasta lagabálk á Íslandi og lesa hann upp og finna þar skopleg tilvik. Til skemmtunar væri kannske ágætt fyrir hv. 8. þm. Reykv., sem hefur ágætt skopskyn, að kynna sér allt sem stendur í lögum um klerka landsins, hvaða skyldur þeir hafa, eftir hverju þeim ber að fara. Það er engin tillaga gerð um að leggja niður Kirkjuþing. Kannske eigum við von á henni. Það er búið að samþykkja till. á Alþingi um að vinna að því að farið verði í lagahreinsun og það er gott að skoða eitt og annað, en þegar menn gera grín að því hér í ræðustól að settar skuli hömlur við því að ráðherrar geti hafið innflutning á búfé til landsins virðist eins og menn hafi gersamlega gleymt sögu þjóðarinnar. Kannske er það vegna þess að hún hefur ekki verið kennd í skólum hvað snertir það tímabil sem hér er um að ræða. Hvað skyldi það hafa kostað Íslendinga að hafa álpast inn í innflutning á erlendu búfé frá þýsku fjárræktarbúi sem talið er að hafi að fyrirlagi nasista haft þá stefnu að koma sýktu búfé inn á aðrar þjóðir? Það má alveg einstakt vera ef á sama fjárbúinu er hægt að finna jafnmargar pestir og hægt er að koma til landsins með örfáum kindum. E. t. v. mættu menn hugleiða þetta dálítið. Kannske telja menn að það beri ekki á nokkurn hátt að njóta þeirrar sérstöðu, sem landið þrátt fyrir allt hefur, að það er það einangrað frá öðrum þjóðum að sjúkdómar hafa ekki átt greiðan aðgang inn í landið nema fyrir mistök forráðamanna.

Hv. 8. þm. Reykv. minntist á niðurgreiðslur og taldi fráleitt að Búnaðarfélag Íslands fjallaði um það mál. Nú veit ég að hann telur að bændur séu nokkuð merkilegir einstaklingar og menn, en skyldu þeir ekki neyta fæðu eins og aðrir Íslendingar og vera neytendur? Það er þessi stórkostlega spurning, hvort þarna sé risinn upp sérstakur þjóðflokkur sem ekki neytir neinnar fæðu og má þess vegna ekki ræða neitt um neysluvenjur þessarar þjóðar. (ÓRG: Hver var landbrh. þegar þetta sýkta búfé kom til landsins?) Það er von að þeir sem stunda kennslu við Háskólann þurfi að leita upplýsinga í sögulegum efnum — og hafa gefið út leiðbeiningar um félagsfræði líka. (ÓRG: Þess vegna erum við nú að spyrja að því.) Ég vil vekja athygli á því að hugsanlegt væri að koma gögnum á framfæri við hv. þm., en það er spurning hvort hann hefur tíma, miðað við erfiðleika við að stjórna alheiminum, að sinna slíkum verkefnum varðandi sýkt búfé. (ÓRG: Hver var landbrh. þegar þetta gerðist?) Það fer ekkert á milli mála að Framsfl. kom við sögu. En spurningin er einfaldlega þessi: Ætli það sitji ekki nokkuð fast í okkur framsóknarmönnum einmitt þess vegna að það þurfi að hafa eftirlit með því þegar búfé er flutt til landsins? Við teljum að ekki sé eðlilegt að ráðh. einn geti ráðskast með slíka hluti.

En varðandi niðurgreiðslurnar. Þegar búið er að setja ákveðið verð á vöru sem hefur myndast, hvort sem það er með niðurgreiðslum eða öðru, þá hefur það veruleg áhrif á markaðinn og sölumöguleika hvort þar eiga sér stað stórkostlegar verðsveiflur eða ekki. Þetta veit hv. 8. þm. Reykv. og e. t. v. er það vegna þeirra söluerfiðleika sem íslenskar landbúnaðarvörur hafa verið í sem ekki er óeðlilegt að Búnaðarþing taki afstöðu til mála eins og þessara, jafnvel þó að hv. 8. þm. Reykv. telji að því komi þetta ekkert við.

Ég vek athygli á því og vænti þess að hv. 8. þm. Reykv. hugleiði það, að það er verulegur eðlismunur á starfsemi Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Stéttarsamband bænda vinnur að beinum fjárhagslegum hagsmunum bændastéttarinnar. Búnaðarþing hefur að mörgu leyti svipuð markmið og Fiskifélag Íslands sem tekur afstöðu til mála út frá breiðara sjónarmiði. Ég tel að sú skipting sem átti sér stað þegar Búnaðarfélaginu var skipt og Stéttarsamband bænda var stofnað hafi vissulega verið það skref sem þurfti að stíga til þess að ekki væri hægt að halda því fram að á Búnaðarþingi væru menn fyrst og fremst með fjármunalega hagsmuni bændastéttarinnar fyrir augum, heldur væri þar verið að horfa á atvinnuveginn út frá því sjónarmiði hvað væri skynsamlegt og hagkvæmt í þeim efnum.

Mér er ljóst að bændur eru minnihlutahópur í þessu þjóðfélagi. Og mér er það ágætlega ljóst að þeir, sem hafa áhuga á að etja saman þéttbýli og dreifbýli og hafa áhuga á að etja saman sléttum með það fyrir augum að það geti verið hagkvæmt til að ná stuðningi hinna fjölmennari stétta að viðhafa málflutning eins og hér hefur verið gert, geta e. t. v. haft uppskeru síns erfiðis. Vel má vera að það sé markmiðið. Hitt er svo spurning og þar bið ég forustumenn Bandalags jafnaðarmanna að hugsa um: það stjórnmálaafl, sem haslar sér völl á landsvísu, hlýtur og á, eftir að menn hafa komið til þings, að hafa þá meginreglu í gildi að horfa yfir stéttir þjóðfélagsins af þeirri víðsýni að um beinan fjandskap gagnvart ákveðnum stéttum sé ekki að ræða.

Það hefur verið mjög vinsælt sport að undanförnu að halda því fram að forustumenn bænda hafi brugðist vegna þess að menn byggðu stórt yfir afurðasölufélög og þá starfsemi sem þar á sér stað. Þar er byggt mikið af stórhýsum. Ég játa að ég er ekki sammála öllum ákvörðunum sem þessir aðilar gera og taka varðandi byggingarframkvæmdir. En ég er ekkert sáttari við þær ákvarðanir sem forustumenn kjörnir af Alþingi eða skipaðir af ríkisstj. hafa tekið í ákvörðunum um byggingarframkvæmdir. Þegar því er haldið fram að þessir menn, sem hafa verið að berjast fyrir hagsmunamálum bænda, hafi gert stóran hluta þeirra fátækan, þá finnst mér sem menn hafi gleymt rökrænni hugsun. Ætlum við að halda því fram að þar sem ASÍ hefur byggt sumarbústaði við Ölfusborgir og varið fjármunum til þess að einstaklingar í þeirra samtökum eigi kost á að dvelja þar, á sama tíma og allir vita að kaupgjald er lágt í landinu, hafi það gert ákveðna hópa í þjóðfélaginu fátækari? Dettur okkur í hug að halda slíku fram? Auðvitað ekki. Auðvitað dettur okkur ekki í hug að halda slíku fram.

Það vita það allir að forustumenn, hvort sem það eru forustumenn bænda, forustumenn í verkalýðshreyfingunni eða aðrir, hafa verið að vinna að hagsmunum sinna félaga eins og þeir hafa talið sig hafa vitsmuni til. Ég tel að í þessum stöðum séu menn sem séu fullkomlega hæfir til að meta hvað séu hagsmunir þeirra umbjóðenda. Ég tel að sú þróun, sem á sér stað í þessu þjóðfélagi, að það er stöðugt að breikka bilið milli valdhafanna og almúgans, þessi firring sem á sér stað jafnt og þétt og hv. 8. þm. Reykv. veit mætavel um, hljóti að leiða til þess að menn meti það eftir hvaða leiðum er hægt að skila aftur valdi, sem framkvæmdavaldið hefur tekið til sín, til hinna ýmsu hópa í þjóðfélaginu og efla þannig lýðræðið og stuðla þannig að því að sú ákvarðanataka sem verið er að framkvæma á hinum ýmsu sviðum sé tekin af þeim þjóðfélagshópum sem tvímælalaust standa næst verkefnunum og hafa mestu yfirsýn yfir verkefnin þess vegna. Þetta verkefni er ekki svo lítið. Ég veit ekki betur en Bandalag jafnaðarmanna telji þetta eitt af sínum pólitísku verkefnum. Ég hef þá algerlega misskilið þeirra hugmyndafræði ef þetta er ekki eitt af því sem þeir vilja gera. Þess vegna tel ég að ef Bandalag jafnaðarmanna vill breyta lögum um starfsemi hjá Búnaðarfélagi Íslands, hvort sem það er jarðræktarlög eða eitthvað annað, beri þeim að leggja fram breytingar á lögunum sjálfum, þannig að það liggi alveg ljóst fyrir hvaða efnisatriði menn eru að tala um, en ekki að verið sé að leggja til að brjóta niður það form að bændur fái að hafa mikil áhrif á stjórn hinna ýmsu mála sem snerta landbúnaðinn í gegnum Búnaðarfélag Íslands. Og ég vil bæta því við: Ég öfunda ekki þann ráðh. sem tæki upp þá stefnu að telja að fjöldasamtök, hin ýmsu fjöldasamtök á Íslandi í þeim málaflokkum sem hann fer með, séu einskis virði og það beri sem minnst að taka tillit til þeirra. Ég er dálítið hræddur um að það gæti farið svo að ýmsar stjórnarathafnir hans yrðu nokkuð skoplegar.

Það er t. d. hægt að hóta því að nota varðskipin til að færa trillurnar til hafnar. En hvað skyldu varðskipin þurfa að vera mörg ef allar trillur á Íslandi færu á sjó? Ætti það sé ekki nauðsyn að á flestum sviðum löggjafans sé staðið þannig að málum að tekið sé fullt tillit til fjöldasamtaka og reynt að hafa þau áhrif á gang mála að þeirra áhrifa gæti sem mest til að styðja að skynsamlegri framþróun?

Ég vil bæta því við í lok máls míns, að eftir að hafa hlustað á flm. flytja sína ræðu áðan varð mér miklu ljósara hvað það var sem hann átti við með þáltill. Það var allt annað að gera sér grein fyrir málinu eftir að hafa hlustað á ræðu hans en að lesa þá grg. sem því fylgir. Það fór ekki milli mála að kjarninn í því sem hann var að tala um var í fyrsta lagi að hann taldi að völd Búnaðarfélags Íslands væru of mikil, ráðh. réði of litlu um landbúnaðarmálin. Það var eitt atriðið. Og hann var að tala um hagsmuni ríkissjóðs. Það skildi ég á þann veg að hann taldi að of miklir fjármunir færu frá ríkinu til þessarar starfsemi. Það sem gleymdist í þessu máli er að löggjafarvaldinu er ætlað að setja lögin og vilji menn breyta lögunum hljóta menn að leggja á það áherslu hér á Alþingi að flytja tillögur að lagabreytingum, eins og Bandalag jafnaðarmanna hefur gert þar sem það leggur til að hinar ýmsu stofnanir verði lagðar niður, og það sé hægt að skoða hvert mál í samhengi út frá því.

Ég vil líka bæta því við að ég vænti þess að Stefán Benediktsson, hv. 8. þm. Reykv., hagi ekki sínum málflutningi á þann veg að markmiðið sé að etja saman stéttum á Íslandi. Ég trúi því illa að það geti fyrir honum vakað. Hreint út sagt: Ég tel að við þennan tillöguflutning hljóti að hafa verið um vissan misskilning að ræða.

Það er allt annað mál hvort menn telja að verið sé að greiða of háa styrki til jarðræktar á Íslandi, það er allt annað mál hvernig menn telja að búfjárrækt eigi að framkvæmast eða hitt, hvort menn telji að eigi að brjóta niður það kerfi að hafa samráð við Búnaðarfélag Íslands og bændur um framkvæmd þessara mála. Menn mega ekki grauta þessu tvennu saman. Auðvitað greinir menn á um annað atriðið. Menn getur greint á um það á marga vegu hvort veita eigi fjármunum til landbúnaðarins, í hvað þeir eiga að fara ef þeim er veitt eða hvort það eigi ekki að veita fjármunum til landbúnaðarins. Það er eðlilegt ágreiningsefni. En hitt, að leggja til að Búnaðarfélagið og samtök bænda verði rústuð og einskis virt í stjórnun í landbúnaði, er aðför að einni stétt. Það væri furðulegt ef Alþingi Íslendinga teldi að svo væri komið að þeim mun betur væri stjórnað atvinnugrein á Íslandi, þeim mun minna tillit sem tekið væri til þeirra sem þar ynnu. Það væri furðuleg niðurstaða. Ég trúi því ekki að óreyndu að hv. 8. þm. Reykv. hafi í alvöru talið að þetta væri það sem bæri að stefna að.