02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4077 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

24. mál, Búnaðarfélag Íslands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér liggur fyrir, sem er 24. mál þessa þings, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að annast framkvæmd þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til þess að hætta þátttöku í starfsemi Búnaðarfélags Íslands.“

Grg.:Þáltill. þessi byggist á þeirri skoðun Bandalags jafnaðarmanna að leggja beri niður þá starfsemi á vegum ríkisins sem í ljósi breyttra atvinnuhátta, tækni og annarra aðstæðna er hægt að sinna með hagkvæmari hætti.“

Hv. þm. hefur flutt margar tillögur sem eru svipaðs efnis, t. d. till. um starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins sem er í raun og veru alveg sams konar till. Grg. er þannig, með leyfi forseta:

Till. þessi byggist á þeirri skoðun Bandalags jafnaðarmanna að leggja beri niður þá starfsemi á vegum ríkisins sem í ljósi breyttra atvinnuhátta, tækni og annarra aðstæðna er hægt að sinna með hagkvæmari hætti.“

Þannig eru tólf tillögur um að leggja niður hina ýmsu starfsemi og grg. er svo að segja í öllum tilvikum eins orðuð. Ég veit ekki nokkur dæmi þess að slíkur tillöguflutningur hafi verið boðinn Alþingi áður og, herra forseti, ég efast um að þessar tillögur séu umræðuhæfar.

Síðasti ræðumaður komst þannig að orði að Bandalag jafnaðarmanna hefði haldið áttum. Ég er á annarri skoðun. Ég held að þeir haldi alls ekki áttum, það sé fjarri því. Hv. flm. sagði áðan að það hefði komið fram, að mér skildist, í grg. Búnaðarfélags Íslands að þeir hefðu ekki skilið Bandalag jafnaðarmanna og mér heyrðist á flm. að hann væri hissa á því. Ég væri fyrir mitt leyti ákaflega undrandi ef þeir hefðu skilið þá hugsun sem á bak við þennan málflutning er. Ég þekki þessa menn. Þetta er svo fjarri þeim viðhorfum sem yfirleitt gerast, a. m. k. úti á landsbyggðinni.

Till. sem er til umr. hefur nokkra sérstöðu. Það er vegna þess að Búnaðarfélag Íslands er hluti af landbrn., sinnir ýmsum störfum hér sem rn. annarra landa annast. Ef Búnaðarfélagið hefði ekki þessa starfsemi mundi sjálft landbrn. þurfa að annast langtum víðtækari starfsemi en það gerir. Það er hægt að rökstyðja á ýmsan hátt að Búnaðarfélag Íslands sé hluti af landbrn.

Ég ætla ekki að fara að ræða þessa till. frekar. Hún er, eins og ég sagði í upphafi, ekki umræðuhæf. Ef einhver þekkir þingsöguna betur en ég langar mig til að vita hvort hægt er að benda á svona tillöguflutning áður.

Mér dettur það í hug í þessu sambandi að þegar ég var unglingur kom maður, sem var á vegum ákveðins stjórnmálaflokks, og boðaði til fundar og ætlaði að fara að kenna bændum að búa og var uppi með ákveðnar tillögur í því efni. Svo vildi til — þetta var að hausti til — að hann kom á bæ og var boðið kaffi. Þar var fé í rétt. Hann fór út í rétt til að sjá féð og sá þar fallega kind og greip undir hana og sagði: Ja, hún er nú bara komin að burði þessi. — En þetta er nú hrútur, því miður!

Þannig eru stundum þeir, sem leggja sig fram við að kenna, vel heima í hlutunum.