02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4079 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

24. mál, Búnaðarfélag Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. kvaddi sér hljóðs hér á hv. Alþingi á s. l. hausti með nokkuð sérstæðum hætti. Hann flutti röð frv. um að leggja ýmsar ríkisstofnanir niður. Ég hefði talið rétt eða a. m. k. koma mjög til álita að um þessi mál öll hefði verið rætt í einni heild til þess að virða fyrir sér þessa afstöðu, vegna þess að ég tel það næstum einsdæmi hér á hv. þingi að ungur þm. kveðji sér hljóðs með jafnneikvæðum hætti. En svona aðeins til að gefa þeim fáu alþm. sem hér eru nú enn staddir yfirlit um þessi mál — því að þetta eru allt frv. sem flutt voru í byrjun þings — þá ætla ég að leyfa mér að nefna nokkur þeirra.

Hv. þm. vill leggja niður Síldarverksmiðjur ríkisins, Skipaútgerð ríkisins, Ferðaskrifstofu ríkisins, Jarðboranir ríkisins, lánadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, Ríkismat sjávarafurða. Hann vill láta hætta þátttöku í starfsemi Fiskifélags Íslands, leggja niður skipulagsstjórn ríkisins, leggja niður tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins, leggja niður starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins, embætti húsameistara, Fasteignamat ríkisins og svo að sjálfsögðu að hætta þátttöku í starfsemi Búnaðarfélags Íslands eins og hann hefur gert allítarlega grein fyrir.

Nú væri e. f. v. ástæða til þess að ræða hvert þessara mála í nokkrum orðum. En til þess er nú hvorki tími né tækifæri á þessum síðdegisfundi. En af eðlilegum ástæðum þá hneig mál manna í þá átt að ræða um Búnaðarþing og voru ekki allir á sama máli og hv. flm. Það er sjálfsagt rétt að það má ýmislegt um þessar stofnanir segja og það má velta því fyrir sér hvort breyta þurfi um starfsháttu sumra þeirra. En þegar hv. flm. tekur svo til orða, eins og núna í seinni ræðu sinni, að það sé langbest að leggja niður landbrn. í heilu lagi, þá finnst mér hann ganga nokkuð langt þó að hann mælti þessi orð af fullri kurteisi að því er virtist.

Ég vildi vekja athygli á þessum málum öllum í heild, ekki hafa um þau fleiri orð, en aðeins að segja það í fullri vinsemd við hv. ræðumann að mér virðist hann vera nú þegar til í það og liðtækur í því að velta í rústir. En hvort hann er jafnliðtækur í því að byggja á ný skal ósagt látið. Ég vona að seinni tími leiði það í ljós.