02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4083 í B-deild Alþingistíðinda. (3392)

337. mál, orkufrekur iðnaður á Vesturlandi

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 535 um orkufrekan iðnað á Vesturlandi. Tillögugreinin hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna möguleika á aukinni uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Vesturlandi. Í því efni er sérstaklega bent á kalsíumkísil, járnkróm, framleiðslu á magnesíum úr dólómíti með notkun kísiljárns og framleiðslu á pólýkristallíni.“

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í allri umræðu um efnahags- og atvinnumál á undanförnum misserum hefur sýnst sitt hverjum. Eitt hafa menn þó verið sammála um: að það sé óumflýjanlegt að renna fleiri stoðum undir íslenskt efnahags- og atvinnulíf.

Flestir viðurkenna að okkur sé lífsnauðsyn að líta til fleiri átta, annars verði hefðbundnir undirstöðuatvinnuvegir okkar jafnvel ofsetnir og lífskjörin rýrni. Stóriðja, orkufrekur iðnaður, er að sjálfsögðu engin allsherjarlausn í efnahags- og atvinnumálum okkar. Þar verður, eins og öllum er kunnugt, miklu fleira að koma til. Á það ber þó að leggja áherslu að skynsamleg nýting á þeirri miklu vatns- og hitaorku sem fyrir er í landinu hlýtur jafnan að vera einn þeirra fjölmörgu þátta sem litið verður til í uppbyggingu atvinnulífs hér á landi.

Þær hugmyndir sem hafa komið fram um orkufrekan iðnað á undanförnum árum hafa jafnan verið tengdar ákveðnum stöðum, t. d. kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði, rætt um nýtt álver við Eyjafjörð og rætt um stækkun álversins í Straumsvík. Á Vesturlandi er ekki síður þörf fyrir ný atvinnutækifæri en í öðrum landshlutum, sbr. þá óheillaþróun sem orðið hefur síðustu ár varðandi fólksflutninga til og frá umræddu svæði, en eins og tölur sýna hefur flutningur fólks af svæðinu verið allmiklu meiri en fjöldi þess fólks sem hefur komið og sest að á Vesturlandi. T. a. m. á árinu 1983 voru brottfluttir 207 fleiri en þeir sem komu og hösluðu sér völl á Vesturlandi. Augljóst er að mikið þarf til þess að snúa þessari öfugþróun við. Hvað kemur t. d. í staðinn fyrir mikla atvinnu af hvalveiðum og vinnslu við afurðir af þeim en þessi atvinnugrein mun stöðvast eins og nú horfir? Ríkisstjórn og Alþingi geta að mínum dómi ekki skotið sér undan þeirri skyldu að gera sitt til þess að í þau skörð verði fylli.

Við Hvalfjörð er mjög góð aðstaða fyrir orkufrekan iðnað, hafnaraðstaða og lega að orkuflutningskerfi er góð og tengsl við járnblendiverksmiðjuna gætu gert nýja framleiðslugrein enn hagkvæmari.

Í þessari till. er bent á nokkrar framleiðslugreinar. Á vegum stóriðjunefndar hafa verið unnin drög að skýrslu um framleiðslu á magnesíum úr dólómíti en við þá framleiðslu er notað talsvert af kísiljárni. Þessi framleiðsla fellur því mjög vel að aðstæðum við Hvalfjörð. Það er nauðsynlegt að gæta sem best hagkvæmnisjónarmiða og því mikilvægt að nýta aðstöðuna á Grundartanga til frekari framleiðslu. Það hafa jafnframt verið unnar skýrslur um framleiðslu á magnesíum með rafgreiningu úr sjó. Slík framleiðsla er að sjálfsögðu best staðsett við háhitasvæði en það er nauðsynlegt að bera saman þessar tvær leiðir sem hægt er að fara til framleiðslu á magnesíum og að sjálfsögðu þarf þá að hafa hagkvæmnisjónarmið að leiðarljósi.

Kalsíumkísill gefur einnig vísbendingu um möguleika í orkufrekum iðnaði sem kanna þarf nánar. Einnig væri ástæða til þess að athuga gaumgæfilega framleiðslu á járnkrómi. Hugsanlega gæti framleiðsla járnkróms hér á landi orðið sameiginlegt norrænt verkefni þar sem tækni kæmi frá Svíþjóð, en Svíar hafa þá tækni á hendi, hráefni frá Grænlandi eða Finnlandi en orkan væri íslensk.

Full ástæða er til að sýna framleiðslu pólýkristallíns verulegan áhuga. Pólýkristallín er kísilmálmur sem er mjög hreinn og mikið notaður í hátækniiðnaði. Framleiðsla á pólýkristallíni er mjög orkufrek en verksmiðjueiningarnar eru yfirleitt ekki stórar. Málmurinn er mjög verðmætur en það þarf að sjálfsögðu að afla meiri þekkingar á framleiðsluaðferðum.

Það væri ekki úr vegi fyrir okkur að líta einmitt til þessara þátta sem nú hafa verið nefndir. Kísilefnin eru, sem fyrr segir, mikilvæg undirstaða í hátækniiðnaði og þekking á kísilefnafræði gæti orðið okkur Íslendingum dýrmæt í framtíðinni. Framleiðsla á pólýkristallíni gæti vísað okkur veginn inn í hátækniiðnaðinn.

Hér hefur þess verið freistað að nefna nokkra nýja möguleika sem til greina koma varðandi orkufrekan iðnað. Enda þótt það hafi verið gert er síður en svo verið að útiloka önnur svið orkufreks iðnaðar, sem hagkvæmt væri hugsanlega að staðsetja á Vesturlandi, hvort sem þau svið eru þegar nýtt eða fyrirhugað er að nýta þau annars staðar á landinu. Og ævinlega hlýtur að koma til álita að auka við þá framleiðslu sem fyrir er á vegum járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, þ. e. bæta við þriðja ofninum.

Herra forseti. Það eru fáir í salnum, ekki ástæða til málalenginga. Ég legg til að till. verði vísað til atvmn. að loknum þessum hluta umr.