10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4094 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

237. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti fjh.- og viðskn. Ed. um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 50 1. júní 1984, um Lífeyrissjóð bænda.

Ég þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. Nefndin varð sammála um að mæla með því að það yrði samþykkt óbreytt.

Frv. er í rauninni aðeins um framlengingu á ákvæðum gildandi laga og var gert ráð fyrir að þau yrðu framlengd til fimm ára eða til ársloka 1989. Hér er um að ræða lífeyrisgreiðslur til þess hóps aldraðra bænda sem veitt eru lífeyrisréttindi umfram þau sem þeir hafa áunnið sér með iðgjaldagreiðslum. Í rauninni er frv. um framlengingu á því fyrirkomulagi og varð ekki ágreiningur um það í nefndinni. Mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Það kemur fram að Jónína Leósdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk áliti hennar.