10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3413)

341. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Því er eins farið með afgreiðslu þessa máls og kom fram hjá frsm. að ég gat ekki verið viðstaddur afgreiðsluna, en ég lýsi mig samþykkan málinu. Þetta er að nokkru leyti hluti af samningunum frá því í vetur, þ. e. í sambandi við lífeyrissjóðinn.

Svipað er með þetta frv. og það sem við vorum að ræða áðan. Nafngiftin er nokkuð merkileg: frv. til laga um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Við sem höfum fengist við sjávarútvegsmál undanfarin ár höfum fyrst og fremst litið á Aflatryggingasjóð sem hlutatryggingasjóð til að tryggja að þegar aflabrestur yrði væru til peningar til þess að standa í skilum við mannskap. Þannig hefur þessi sjóður verið undanfarin ár þar til hæstv. núv. ríkisstj. notar hann fyrir hálfgerða ruslakistu alls konar millifærslna í sambandi við ýmislegt sem verið er að gera í sjávarútvegi. Með þessu frv. er verið að færa endurgreiddan söluskatt í Aflatryggingasjóð og síðan er þeim peningum úthlutað eftir ýmsum reglum sem ekki eru í neinum tengslum við það hlutverk sem sjóðnum var ætlað áður.

Ég veit ekki hverju má búast við í framtíðinni um heiti frumvarpa ef framhaldið verður sem þetta. Í frv. sem við vorum að ræða áðan, um aðgerðir til þess að bæta hag sjómanna, var verið að skipuleggja millifærslu fyrir ríkisstj. til að leysa ákveðin vandamál og þetta frv. er um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins þar sem um beina millifærslur er einnig að ræða. Ég vildi benda á að það er merkilegt að sú góða stofnun skuli nú vera orðin hálfgerð ruslakista.