10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4100 í B-deild Alþingistíðinda. (3418)

403. mál, meðferð opinberra mála

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið. Vegna spurninga hv. 8. þm. Reykv. hvort hér sé um valdþjöppun að ræða, þá held ég að það sé víðs fjarri að svo geti talist. Í fyrsta lagi er aðeins um að ræða heimildarákvæði fyrir ríkissaksóknara sem þarna er sett inn, en sem getur samt sem áður verið æskilegt vegna þess að þessi mál geta verið mjög umfangsmikil. Sem betur fer eru þau ekki mörg sem hafa verið hjá dómskerfinu en sum þeirra eru mjög umfangsmikil og því nauðsynlegt að þar sé sérhæft starfslið sem um þau fjallar. Það gæti orðið mjög erfitt fyrir aðra að eiga að fara með þau.

Vissulega er það svo að öll lagaákvæði geta verið háð endurskoðun. Það er því ekki neitt öruggt að það sem hér er sett fram standi um langa framtíð. En hér eru gerðar tillögur um meðferð mála sem vonast er til að verði til að hraða framgangi þeirra sem sérstaklega eru tímafrek og vandasöm. Þó að hér sé aðeins getið um þennan flokk mála þýðir það ekki að önnur eigi að sitja á hakanum því að vissulega er það mjög brýnt að framgangur mála í dómskerfi taki ekki allt of langan tíma. Þar þarf að vísu að horfa á hina hliðina, að gætt sé fyllsta réttaröryggis svo að mál séu rækilega skoðuð. En ég vil staðfesta það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þær tillögur, sem hér eru lagðar fram, munu greiða fyrir að framgangur mála verði betri á þessu sviði.