10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4102 í B-deild Alþingistíðinda. (3423)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þau orð hv. síðasta ræðumanns því að ég ber ekki heldur nokkurt traust til hæstv. ríkisstj. sem nú situr. Við erum alveg sammála um það. Mér þykir hins vegar ákaflega einkennilegt og raunar miður ef það er ætlunin að afgreiða þetta frv. núna frá hv. Ed. að 1. flm. fjarstöddum. Mér þykir sem málinu hafi verið frestað annað eins. Ég gildi gjarnan heyra skoðanir hans á þeirri nýju stöðu sem nú er komin upp í málinu. Það var vitað að framsóknarmenn í báðum stjórnarflokkunum voru þessu máli andvígir, en nú hefur komið í ljós við þessa umr. að framsóknarmönnum hefur fjölgað, a. m. k. í öðrum stjórnarflokknum, og allt er þetta okkur nýlunda hér.

Þetta mál fékk ítarlega umfjöllun í nefnd. Þangað komu bæði formaður bankastjórnar Seðlabankans og bankastjórar viðskiptabankanna. Þær röksemdir sem hv. 5. þm. Norðurl. e. hafði hér uppi um að samþykkt þessa frv. kynni að auka á spennu hér á höfuðborgarsvæðinu er ég ekkert sannfærður um að hafi við rök að styðjast. Eins og raunar hv. 3. þm. Vesturl. gat hér um í sinni ræðu hefur verið í gildi 38% binding. (Gripið fram í: 28%.) Já, 28%. Mér sýnist nú að þrátt fyrir þessa bindingu hafi spennan hér á höfuðborgarsvæðinu verið engu lagi lík. Ég á ekki nokkra von á því að þetta hafi breytingu í þeim efnum í för með sér.

Hins vegar er ég sannfærður um, eftir þá umfjöllun sem þetta mál hlaut í nefndinni, að það sé rétt að samþykkja þetta frv. og það sé rangt að vísa því til ríkisstj. Það er alkunna að sú aðferð að vísa málum til ríkisstj. er viðhöfð þegar menn heykjast á því að fella mál, vilja ekki láta það standa skráð á þingtíðindum að málið hafi verið fellt. Þá er því vísað til ríkisstj. þar sem það fær hægt andlát. Ríkisstj. er ekki skyldug til að gera nokkurn skapaðan hlut varðandi þetta mál þó svo því sé vísað til hennar. Þá er bara verið að drepa málinu á dreif og eyða því. Meira að segja ber það allt of oft við að með þær þáltill., sem samþykktar eru hér á hinu háa Alþingi og sendar eru til ríkisstj. er ekkert gert, eins og dæmin sanna, þó að þar sé um skýrar og ótvíræðar viljayfirlýsingar Alþingis að ræða.

Ég hef svo sem ekkert umboð til að leggja til að þessu máli verði frestað. En mér finnst afar einkennilegt ef á að afgreiða það hér að fjarstöddum 1. flm. sem mér er kunnugt um að verður á næsta fundi hv. Ed. ef hann verður svo sem venja er n. k. mánudag. Ég veit a. m. k. ekki betur. En það skulu menn alveg gera sér ljóst og hafa hreint í sínum huga, að ef á að afgreiða þetta mál núna og bera það undir atkvæði núna hafa framsóknarmennirnir í báðum stjórnarflokkunum unnið sigur á þeim sem vildu breyta vegna þess að það þýðir þá að þeir hafa beygt þá, sem vildu fá þetta frv. samþykkt, til að lúta því að málinu verði vísað til ríkisstj. Þetta finnst mér býsna athyglisvert og það getur sjálfsagt verið umhugsunarefni fyrir ágæta fulltrúa á landsfundi Sjálfstfl., sem hefst eftir fáeina daga, hvernig valdahlutföllin eru nú í ríkisstjórnarflokkunum. Ég legg áherslu á að það blasir við og gefur auga leið að afturhaldsöflin hafa í þessu máli haft sigur þegar á að losa um og breyta heldur til í frjálsræðisátt og eðlilegra starfshátta í efnahagsmálum eftir því sem mín skoðun og sannfæring segir mér. Nei takk. Framsókn ræður.