10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4103 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. 5. landsk. þm. um það að mér finnst dálítið sérstakt að þetta mál skuli vera tekið fyrir nú á þessum fundi. Það hafa komið upplýsingar um það að 1. flm. þessa frv. hafi samþykkt það og jafnvel óskað eftir því að málið yrði tekið fyrir að honum fjarstöddum og skilja sjálfsagt flestir þm. að hann hafi svo sem ekkert kært sig um það að vera við jarðarför þessa óskabarns síns. En það eru fleiri sem stóðu að þessu máli og fleiri sem stóðu að nál. Formaður þingflokks Alþb. stendur að nál. og leggur til að þetta verði samþykkt. Hann er fjarverandi í dag. Mér finnst nokkuð óeðlilegt að þessu máli sé hespað svo í gegn. Ég sé ekki hvað liggur á að afgreiða það að þessum þingmönnum fjarstöddum.

Ég hef ekki tekið þátt í umr. um frv. sjálft og efni þess. En mér finnst það liggja beint við nú, þegar búið er að afnema það að Seðlabankinn endurkaupi afurðalán, að bindiskyldan gagnvart viðskiptabönkunum sé afnumin að meginhluta til. Þessi bindiskylda var rökstudd með því að Seðlabankinn þyrfti að endurkaupa afurðalán framleiðsluatvinnuveganna. Þegar frjálshyggjan er komin það langt í þjóðfélaginu hjá okkur að búið er að færa þessa þjónustu, afurðalánakaupin, beint yfir til viðskiptabankanna þá eru engin rök lengur fyrir því að þessi bindiskylda, sem var gerð til að fjármagna afurðalánin, sé a. m. k. í þessari upphæð sem talað er um núna, þ. e. í 18%.

Þessi aðgerð, bindiskyldan, var félagsleg aðgerð. Hún var félagsleg aðgerð á þann máta að sparifé landsmanna vítt um landið var safnað saman hér í Seðlabankanum til að standa undir fjármögnun afurðalána. Hver viðskiptabanki fyrir sig hafði ekki styrkleika til að taka á móti þeim sveiflum og standa skil á þeim stóru fjárhæðum sem þurfti til að fjármagna afurðalánin. Meðan svo var lá það beint fyrir að þessi félagslega aðgerð væri í heiðri höfð. En þegar frjálshyggjumennirnir, bæði í Sjálfstfl. og Framsfl., eru búnir að koma því til leiðar að búið er að afnema endurkaup Seðlabankans á afurðalánum þá er þessi skylda fallin um sjálfa sig.

Það sýnir hvað þarna hefur verið um stóra félagslega aðgerð að ræða í sambandi við bindiskylduna og nauðsyn þess að halda henni í gangi meðan afurðalánin voru endurkeypt af Seðlabankanum að núna þurfa viðskiptabankarnir að taka erlend lán til að fjármagna afurðalánin. Þar með er þessi félagslegi fjármagnsþáttur, sem við skipulögðum með bindiskyldunni, kominn í erlendan gjaldeyri. Það er eitt af frjálshyggjumarkmiðum þeirra framsóknarmanna og sjálfstæðismanna að hafa hlutina á þennan veg. Ég get ekki fallist á það að það séu nein rök fyrir því að halda bindiskyldunni áfram þrátt fyrir þessa hluti.

Það kom hér fram í umr. við 1. umr. hjá hv. 4. þm. Austurl. að við það að bindiskyldan yrði felld niður mundi aukast spenna á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að þessu sé alveg öfugt farið. A. m. k. var það þannig að þegar verið var að setja bindiskylduna á hrópuðum við úti á landsbyggðinni, meira að segja sjálfsagt þeir norður í Mývatnssveit líka, við gerðum það bæði upp á Akranesi og vestur á Snæfellsnesi, að nú væri verið að flytja fjármagn til Reykjavíkur, það væri verið að skattleggja bankana og sparisjóðina úti um land til þess að flytja fjármagnið til Reykjavíkur og ráðstafa því þar. Ég held að það hafi verið mikið satt í þessu og ef það hefur verið satt þá held ég að sannleikurinn sé ósköp svipaður núna nema hann er kannske enn þá meira áberandi í dag. Við erum með lítið undirheimafjármagnsstreymi úti um landið. Þar fer meginhlutinn af peningunum beint í bankana og sparisjóðina ef eitthvað er laust sem ekki þarf að nota fyrir brýnustu nauðþurftum dagsins. Þær fara ekki í neinn skuldabréfabransa. Þar er engin fjárfestingarstofnun eða kaupþing til að standa fyrir kaupum á skuldabréfum þar sem ekki kemur fram bindiskylda. (Gripið fram í: Þeir koma í bæinn.) Þeir munu ekki koma í bæinn til þeirra aðgerða vegna þess að landsbyggðarmenn eru yfirleitt það vel — (Gripið fram í: Hvað eiga landsbyggðarmenn margar íbúðir í Reykjavík?) Það er annað mál. (Gripið fram í: Jæja.) Það er allt annað mál. Landsbyggðarmenn eru það góðir fjármálamenn að þeir hafa ekki látið sér detta í hug að nota peningana sína í veltuna hér í Reykjavík. Þeir hafa bara fest það — (Gripið fram í.) Já, í steininum í Reykjavík. En þeir hafa ekki gert það í bankakerfinu eða því undirheimafjármálaveldi sem er hér.

Þar af leiðandi skeður það að hér sleppur bindiskyldan meira og minna fram hjá í staðinn fyrir það að hver eyrir, sem lagður er inn í sparisjóð eða banka út um land, hefur verið skattskyldur hingað til Reykjavíkur. Af stórum hluta af fjárstreyminu hér í Reykjavík hefur ekki þurft að borga bindiskyldu til Seðlabankans. Þar af leiðandi er þetta alveg öfugt við það sem hv. 4. þm. Austurl. heldur fram. Það er frekar verið að skattleggja landsbyggðina með þessari aðgerð en á hinn veginn.

Það hefur verið tilhneiging hjá ríkisvaldinu, eins og komið hefur fram hér, að nota bindiskylduna sem nokkurs konar ógnunarskatt. Það hefur verið heimild til að taka 38% en sú heimild hefur ekki verið notuð, heldur 28%. Sem sagt: það hefur alltaf vofað yfir að ríkisstj. gæti með einu pennastriki eða svo bætt þarna við 10% ef henni dytti í hug. Hvernig stendur á því? Er það ekki sjálfsagður hlutur að halda sig þarna í lágmarki þess fjármagns sem þarf að nota í stað þess að hafa heimildina langt fyrir ofan það sem þarf að hafa á hverjum tíma? Það er ekki lengi verið að koma lagaheimild hér í gegnum Alþingi. Duglegir ráðherrar eru fljótir að ýta áfram frv. ef á þarf að halda til þess að gera slíka hluti sem þessa. Þegar þingið er ekki viðstatt hefur það legið hér í landi að auðvelt sé að gefa út brbl. ef þyrfti að hækka bindiskylduna.

Það hefur verið haft á orði að ekki þyrfti að notfæra sér þessi 18% og það er verið að tala um að það liggi ekki fyrir að beitt verði 10% bindiskyldu. Af hverju ekki að binda þetta við 10%? Af hverju að hafa það hærra en það? Þegar búið er að sleppa afurðalánunum, þegar hægt er að endurkaupa afurðalán í Seðlabankanum, þá er ekkert sem réttlætir það að þessi skattlagning á viðskiptabankana sé hærri en 10%. Ég hef ekki heyrt það nefnt. Ég hef engan af meðmælendum þessarar frávísunar heyrt nefna nein ákveðin rök fyrir því.

Það liggur sjálfsagt beint fyrir að þetta mál verður afgreitt núna á þessum mínútum sem eftir eru af þessum fundartíma. Það er alveg greinilegt, eins og hv. 5. landsk. þm. benti á áðan, að framsóknarmennirnir í Sjálfstfl. eru orðnir það fjölmennir að frv. verður samþykkt. Það endurtekur sig sem sagt hér í hv. Ed. að þegar útlit er fyrir að frjálslyndir þm. úr Sjálfstfl. hafi áhuga fyrir að fara einhverja pínulítið aðra leið en Framsfl. þá er ýtt allstíft á. Þetta átti sér stað og er búið að eiga sér stað í sambandi við kvótafrv. trekk í trekk hér í deildinni. Það er vitað að það munaði einu atkvæði hér að það væri stoppað. Þá var ýtt allhörkulega á. Sagan er að endurtaka sig núna. Það er verið að gera góðan bóndason norðan úr Mývatnssveit, sem hefur talið sig vera allharðan sjálfstæðismann og frjálshyggjumann, að þegni kaupfélagsins á Húsavík, að góðum og gildum framsóknarmanni.