10.04.1985
Efri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3430)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að vekja athygli á því að hv. 8. þm. Reykv. talaði um það í ræðustól áðan að hann óttaðist samþjöppun valds. Í þessu máli hefur Bandalag jafnaðarmanna í fyrsta sinn raunhæft tækifæri til að hafa áhrif á það að valddreifing eigi sér stað, en þá hefur viðkomandi þm. enga skoðun á málinu. Ég vek athygli á þessu og tel ástæðu til þess.

Bankar og bílastyrkir heyra að vísu undir annan dagskrárlið, en hv. 8. þm. Reykv. talar af mikilli vandlætingu um svokallaða fjórflokka í þeim efnum. Ég hef ekki séð það hér á þingi að Bandalag jafnaðarmanna hagaði sér á nokkurn hátt öðruvísi en sem stjórnmálaflokkur, nema kannske hvað helst á þann veg að meira verður vart við flokkseigendur þar en hjá öðrum flokkum. Ég býst við því að ef sama samkvæmni ætti sér stað hvað snertir bílastyrki bankastjóra og það sem ég benti á áðan varðandi valddreifingu væri mjög líklegt að ef viðkomandi þm. ættu fulltrúa í bankaráðum létu þeir það afskiptalaust, hefðu ekki skoðun á málinu þegar til kastanna kæmi.