10.04.1985
Neðri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4114 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

210. mál, selveiðar við Ísland

Frsm. meiri hluta (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Mér er ljúft að verða við óskum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og svara spurningu sem hann lagði fyrir mig sem formann sjútvn. þegar þetta mál var á dagskrá síðast. Hann spurði fyrir það fyrsta hvort nefndin hefði kynnt sér skýrslu Landverndar, „Selir og hringormar“. Þetta rit hefur nefndin að sjálfsögðu kynnt sér. Ég vil einnig skýra frá því úr því að spurt er að hér er einnig annað rit sem gefið er út af Hafrannsóknastofnuninni sem heitir „Könnun á sýkingu þorsks á Íslandsmiðum af selormi, fæða landsels og útsels á Íslandi“. Við athuguðum einnig þetta rit, hv. þm.

Mér fundust koma óbeint fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar efasemdir um það að sjútvn. hefði unnið verk sitt nægjanlega samviskusamlega og hefði kannske ekki gefið sér tíma til að fjalla um þá þætti sem eðlilegast hefði mátt teljast. Málið kom til sjútvn. þann 30. janúar og var sent þá til umsagnar. Umsagnir bárust, að mig minnir, frá einum sjö aðilum og einnig ítarlegt og mikið bréf frá Játvarði Júlíussyni. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom til mín sem formanns n. og bað mig að koma því til nm. þannig að þeir gætu kynnt sér sjónarmið og skoðanir þessa ágæta manns sem hefur mikinn áhuga á þessum málum. Það gerði ég þegar ég lét ljósrita allt þetta bréf og koma því til nm.

Ég held einnig að ég muni það rétt að hringormanefndin, sem skilaði okkur áliti, var með jákvæða umsögn og sama má segja um Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Félag sambandsfiskframleiðenda einnig. Ég held að það verði að teljast jákvæð umsögn frá Hafrannsóknastofnun þó að hún geri athugasemdir við 2. gr. frv. sem hér hefur verið fjallað um áður og þarf ekki að fjölyrða frekar um. Það sem skiptir meginmáli í umsögn Búnaðarfélags Íslands er það að Búnaðarfélagið telur óeðlilegt að þetta mál, selveiðar við Ísland, skuli heyra undir sjútvrn. en ekki undir landbrn. Hins vegar vil ég taka það fram og lesa það hér, ekki síst vegna lokaorða nm. sjútvn. hv. þm. Guðmundar Einarssonar, að í nál. hans á þskj. 652 segir svo í lokaorðum Árna G. Péturssonar: „Að öðru leyti er í frv. hvergi gengið á rétt bænda og landeigenda varðandi selveiðar umfram það sem er að finna í lögum.“ Þetta eru lokaorð Árna G. Péturssonar um þetta efni.

Það sem mest er tekist á um hér er 3. gr. frv. Náttúruverndarráð er andvígt 3. gr. Um það ætla ég ekki heldur að fjölyrða. Það hefur rækilega verið gert og skýrt af hæstv. sjútvrh. sem talaði hér á undan mér. En ég vil aðeins hnykkja á því sem stendur í 3. gr. „Sjútvn. skal hafa samráð við eftirtalda aðila um stjórnun og skipulagningu selveiða, eftir því sem við á hverju sinni“. Og hverjir eru þetta? Náttúruverndarráð er fyrst talið, Hafrannsóknastofnun, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands. Þetta eru þeir aðilar sem haft skal samráð við.

Sjútvn. fjallaði um þetta mál nú á tveimur fundum sínum. Það vil ég taka skýrt fram, vegna þess að mér hefur fundist að það sé látið liggja að því að við höfum kastað til þessa höndunum, að við fjölluðum um þetta mál einnig á síðasta þingi, þessi sama n., og afgreiddum það þá frá n. Mér finnst það því með ólíkindum ef á að láta liggja að því að við höfum eitthvað kastað til þessa höndunum.

Ég sé ekki að það sé hér fleiru við að bæta. Ég vonast til þess að ég hafi svarað því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vildi fá að vita um störf sjútvn. að þessu máli.