10.04.1985
Neðri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4123 í B-deild Alþingistíðinda. (3447)

210. mál, selveiðar við Ísland

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Mig langar að segja örfá orð um þetta mál jafnvel þó að ég sé ekki líffræðingur. Það hefur borið mest á þeim hingað til í umr. En það hefur þó farið svo að sú umr. öll af þeirra hálfu hefur verið lítt skiljanleg fyrir margra hluta sakir.

Í fyrsta lagi má minna á ræðu hv. þm. Guðmundar Einarssonar fyrr í umr. Þá flutti hann mikla ræðu og var greinilega mikið niðri fyrir af umhyggju fyrir selnum, trúi ég, því líffræðingar elska selinn meira en aðrir menn jafnvel þó að það kosti þjóðina tugi millj. á ári. En hvað varðar þá um það?

Þessi ræða hv. þm. Guðmundar Einarssonar var gjörsamlega óskiljanleg öllum venjulegum mönnum. Hún hefði kannske dugað í líffræðitíma uppi í háskóla eða á kjaftafundi hjá Bandalagi jafnaðarmanna þar sem menn setja saman upplognar greinargerðir um samþm. sína án þess að vita nokkurn skapaðan hlut hvað þeir eru að gera. Nenni ég ekki að nefna dæmi um það, það hefur öll þjóðin hlustað á, þannig að ég tek ekki mikið mark á því.

Hitt er annað mál að annar líffræðingur, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, hefur verið miklu skiljanlegri, þ. e. maður hefur skilið hvað hann var að fara. Hins vegar skil ég ekki hvernig stendur á því að hann lætur sig hafa það að segja að það sé illa unnið í hv. sjútvn. (KP: Guðmundur J. sagði það líka um daginn.) Misskilningurinn er víða, það heyri ég á hv. þm. Ég þekki enga nefnd sem hv. 5. þm. Austurl. hefur verið með á sínum snærum sem hefur unnið betur en sjútvn. Hún vill þó afgreiða mál. En hv. 5. þm. Austurl. biður nú hv. þm. í þessari deild að betur sé farið ofan í saumana á frv. Það er bara búið að vera að sauma þetta frv. í tvö ár. Það tekur heldur betur tímann að átta sig á því eins einfalt og það er og eins gott og það er þar sem tillit er tekið til nánast allra sem málið varðar. Það er enginn vandi að lesa það ef menn nenna því, fyrir utan það þegar fyrrv. hæstv. landbrh. Pálmi Jónsson kvartar undan því að það sé slitin einhver tætla út úr landbrn. Það er eðlilegt að hann hafi svolitla umhyggju fyrir því að allt vald sé ekki þaðan tekið. En ég held að það sé bara til góðs að taka vald af því rn. því að það er mín skoðun að þar hafi lítið verið stjórnað nú um alllanga hríð, enda held ég að þetta sé bara misskilningur. Þó menn leiti að þessu í frv. þá er hvergi minnst á landbrn. enda hefði þetta frv. ekki verið eins gott ef það hefði verið.

Bændur mega veiða þorsk og enginn kvakar í landbrn. út af því. Því skyldu þeir ekki mega veiða sel þó að sjútvrn. hafi þar milligöngu? Auðvitað. Aðalatriðið er að menn átti sig á því af hverju verið er að leggja fram frv. af þessu tagi og af hverju er verið að reyna að koma þeim mönnum, sem eru á móti því að veiða sel, í skilning um að við verðum að gera það vegna þess einfaldlega að selurinn er einn aðalhýsill hringormsins. Hringormur hefur vaxið ótrúlega mikið í fiski við Ísland og útsel hefur fjölgað stórlega og er ekki ómerkari heimild fyrir því en í þessari bók sem allir hafa getað vitnað til um sel og hringorma.

Í ýmsum íslenskum lögum um selveiðar eru nokkuð hrottalegar aðferðir leyfðar við að drepa sel. Enginn af elskendum selsins hefur kvartað undan því hingað til svo að ég viti til. T. d. segir í lögum frá árinu 1932, þar sem kveðið er á um útrýmingu sels í Húnaósi, í 1. gr. með leyfi forseta:

„Veiðifélag Vatnsdalsár skal hafa einkarétt til að útrýma sel úr Húnaósi:" — Útrýma sel úr Húnaósi. Af hverju?

Húnvetningar voru að mótmæla því að það væri drepinn selur. Er ekki Húnaós í Húnavatnssýslu? Mig grunar það. Þó er ég nú ekki kunnugur uppi á landinu, þekki betur til þarna úti á sjó. Nei, það mátti drepa hann, það var sjálfsagt að útrýma honum. Ef hann hafði bitið silung eða nartað í lax, þá mátti drepa hann. Þá er ekki umhyggjan. Ef eitthvert stangveiðifélag hafði misst sporð í kjaftinn á sel þá máttu ákveðnir aðilar hafa einkarétt á því að útrýma sel. Sér er nú hver umhyggjan. Og þetta er víðar.

Raunar er skv. núgildandi lögum nr. 76 frá 1970 leyfilegt að drepa sel með öllum tiltækum ráðum ef hann er einhvers staðar í námunda við silung. Ef hann vegur eitthvað að laxveiði eða silungsveiði þá má drepa jafnvel hvern sem er, svo heilagt er það mál.

Herra forseti. Umsagnir um þetta frv., sem nefndin hefur farið í gegnum, eru með mismunandi hætti. Þar er varla um neinn óljósan lit að ræða, heldur liggur við að þar sé litrófið aðeins svart og hvítt. Ég hirði ekki um að lesa þær umsagnir en vil þó leyfa mér að nefna álit frá Fiskifélagi Íslands og frá Fiskiþingi og fleiri aðilum í sjávarútvegi. Það eru ófagrar lýsingar. Þar er t. d. nefnt hversu gífurlega dýrt þetta hringormavandamál er orðið þjóðinni. Þar er talað um 60 milljónir á verðlagi 1982. Og með duglegum ríkisstjórnum höfum við getað hækkað þessar 60 millj. í a. m. k. 120 á þessum tímamiklu meira, Drottinn minn, þannig að þarna eru gífurlegir fjármunir í veði. Þessir menn, sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi, eins og raunar þjóðin öll, hafa áttað sig á því að það er mikið samband milli sela og hringorma í fiski. Það fer auðvitað ekki milli mála jafnvel þó einhverjir vísindamenn — sem svo kalla sig — segist ekki geta sannað það. Sambandið er svo ljóst að ég tel fulla ástæðu til þess að gera róttækar ráðstafanir til að fækka þessum smitberum og sníkjudýrum, jafnvel þó að einhver nefnd úti í bæ, sem semur svona langhunda, hafi ekki fundið óræka sönnun fyrir því.

Þeir frændurnir, hv. 5. þm. . Austurl. og hæstv. landbrh., hafa komið hér upp í stólinn og talað um þetta mál og vitnað hvor í annan. Ég tek ekki mikið mark á því. En fyrr við þessa umr. var okkur í hv. sjútvn. sendur tónninn heldur betur þar sem við vorum sakaðir um að hafa ekki reynt að ná samkomulagi. Hvílík ósanngirni og óskammfeilni. Allan tímann vorum við að reyna að ná samkomulagi. Og það tókst næstum því alveg. Af sjö nm. skrifuðu sex undir athugasemdalaust. Og sex af sjö hefur ævinlega þótt allgott í því tilliti, þannig að lengra varð ekki komist, enda næstum augljóst með tilliti til þess hver var á móti. Þeim hv. þm. verður ekki snúið því að þar er um trúarbrögð að tefla sem eru kölluð vísindi. Ég neita því algjörlega að við höfum ekki reynt að draga þennan hv. þm. í okkar dilk. Við reyndum það. En hann var rangt markaður og þess vegna gátum við ekki gengið lengra en gert var.

Herra forseti. Um þetta má auðvitað margt segja. Hér hefur verið mikið vitnað til bréfs nokkurs sem barst frá Vestfirðingi, sem heitir Játvarður Jökull og er Júlíusson, hinn merkasti maður, og hvað svo sem segja má um efni hans bréfs þá er óhætt að fullyrða það að hann skrifar betra mál en hinir sem hafa verið að reyna að verja það að berja niður þetta frv. Hins vegar var aðalefnið í hans erindi það að hafa ekki hlunnindi af bændum. Vísindalegra var það ekki. En í þessu frv. er svo sannarlega tekið tillit til bænda eins og allra annarra aðila sem málið snertir. Mennirnir hafa bara hreinlega ekki lesið frv. eða ekki áttað sig á því hvað þar stendur. Og það er ekki mín sök.

Hitt kunni ég afar illa við að heyra nú í annað sinn eða þriðja í þessari einu umræðu veist að ákveðnum manni úti í bæ sem ekki getur varið sig hér. Þar er um að ræða hlunnindaráðunaut, hvað svo sem það er. Hann er eitthvað frá Sambandinu eða landbrn. og ekki man ég hvað hann heitir. En mér finnst það ákaflega óviðfelldið þegar hv. þm. segja hér úr ræðustóli um mann, jafnvel þótt haft sé eftir öðrum, í tvígang eða þrígang um þennan mann „að betra er autt rúm en illa skipað“. Þetta er argasti ruddaskapur jafnvel þó að menn geri það brosandi og að því er virðist með kurteislegu yfirbragði. Ég vil fyrir mitt leyti harma að slíkt skuli eiga sér stað því það er ósæmilegt að haga sér með þessum hætti.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Við höfum haft með þetta að gera í rn. En ég vil samt segja það að ég fagna því að selveiðar, eins og aðrar veiðar á sjávardýrum, séu settar undir sjútvrn. Það er hið eðlilega. Hitt eru leifar af ævagömlum búskaparháttum og við höfum gert of mikið í því að halda í þá búskaparhætti. Okkur er m. a. s. nauðsyn að gera þar miklar breytingar á. Það getur varla verið mjög sárt fyrir landbúnaðinn að færa þennan málaflokk yfir til sjútvrh. úr því að hann er ekki þar í verri höndum en í landbrn.

Það er að mínum dómi einnig mjög mikilvægt að kveða mjög skýrt á um það hver eigi að annast rannsóknir á selum við Ísland. Það er alveg ljós grein.

Full ástæða er til að fagna því einnig að sjútvrn. skuli hafa samráð við aðila málsins, svo við orðum þetta nú á stofnanamáli, þ. e. þá sem vilja vernda náttúru landsins, þá sem annast rannsóknir og þá aðila sem varða bændur, sem sagt Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands. Þarna er vel skipað og rétt að mínum dómi og ekki ástæða til að þenja sig yfir því klukkutímum saman án þess að benda í rauninni á nokkrar haldbærar röksemdir gegn þessari grein.

Í 4. gr. segir mjög skýrt — og mættu þeir sem hafa verið að kvarta hvað varðar réttindi bænda athuga það: „Landeiganda er einum heimilar selveiðar og ráðstöfunarréttur þeirra í landareign sinni.“ Þetta getur varla skýrara verið. Alltaf er allt gert fyrir bændur. Skal ég ekki gráta það, ekki að þessu sinni. Hitt er svo annað mál þegar menn eru komnir á haf út, á eina 115 metra, þá eru menn komnir allfjarri landi bænda og þar er talið rétt að aðrir megi drepa þessi dýr því að þess þarf. Því miður hefur það verið þannig undanfarin ár að bændur hafa vanrækt — svo ég segi ekki svikist um, það er kannske of ljótt orð — að drepa kópa eins og þeir hafa áður gert. En þeir hættu því vegna þess að þeir höfðu ekki nógu mikinn pening fyrir það.

Það er sorglegt að fylla fiskinn í kringum landið af hringormi vegna þess að bændur græði ekki nógu mikið á skinnunum. Ekki hef ég samúð með því sjónarmiði. Þess vegna verður að ganga í að drepa þessi dýr þegar við erum komnir á haf út, eins og segir hér í frv. Það mun vera talsvert á fjórða hundrað fet.

Einstaka maður hefur býsnast mjög yfir texta 6. gr. og kvartar enn einu sinni yfir því hvað ráðh. hafi mikil völd. Það er bara eins og þessir menn séu fæddir í gær. Hverjir hafa haft völdin yfir viðkomandi málaflokki? Auðvitað ráðh. Það er kannske svona hættulegt vegna þess að það er Halldór, hæstv. ráðh. Ég get ekki séð það. Það vald, sem ráðh. er fengið í hendur, felst m. a. í því að geta bannað selveiðar, ekki ætti neinn að harma það af andstæðingum þessa frv., takmarka selveiðar í ákveðinn tíma, friða ákveðnar tegundir sela. Allt þetta má og verður gert meira og minna og settar reglur um vísindalegan tilgang og það allt saman.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að beina því til hv. deildarmanna að þeir létu það ekki koma fyrir aftur að þetta frv. dagi uppi annað árið. Hvað segir fólk í landinu þegar það fréttir af því að nauðsynjamál af þessu tagi gangi ekki hér fram í þinginu ár eftir ár? „Hvað eru mennirnir að gera?“ spyr fólk. „Fyrir hvað fá þessir menn kaup? Eru þeir að fresta frv. í löngum bunum hér ár eftir ár til þess að hafa eitthvað að gera?“ Hv. þm. verða nú að taka á sig rögg og taka afstöðu, ákveða en ekki skoða, rannsaka og skilgreina fram og til baka án þess að koma nokkrum sköpuðum hlut í verk.