10.04.1985
Neðri deild: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4126 í B-deild Alþingistíðinda. (3448)

210. mál, selveiðar við Ísland

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. seinasta þm. að það sé nauðsynlegt að Alþingi taki afstöðu til mála, afgreiði þau, ákveði sig. Mér hefur reyndar þótt það mikill ljóður á þinginu að það væri mikil lenska að láta mál daga uppi í nefndum og það væri þinginu til vansa að ekki væri tekin afstaða til þeirra mála sem fram eru lögð, og ég veit að það er ekki til siðs að viðhafa þau vinnubrögð í öðrum þingum.

En þetta frv. er í rauninni einungis um eitt efnisatriði. Það er að selveiðar skuli frá gildistöku þessara laga heyra undir sjútvrn. en ekki landbrn. Ef við lítum á hinar greinar frv. eru þær nánast innihaldslausar. Ég held að rangt sé að flytja selveiðarnar frá landbrn. til sjútvrn. og fyrir því er ákaflega einföld röksemd. Það er nú einu sinni svo að þeir sem selveiðar stunda eru bændur. Þetta er aukabúgrein, ef menn svo vilja kalla það, og bændur hafa sitt undir landbrn., og þess vegna er eðlilegt samhengi í því að selveiðar séu þar líka.

Ég hef aldrei litið svo á að selveiðar ættu að flokkast með fiskveiðum eða að menn þyrftu mikinn skipastól eða mikinn tæknibúnað til þess að stunda selveiðar. Ég tel að þessar veiðar séu alls óskyldar þeim sjávarútvegi sem við stundum að öðru leyti þegar við erum að veiða fisk eða jafnvel þó að við séum að veiða hval sem mér er þó sagt að hér hafi verið samþykkt að menn skyldu hætta. Af þessari einföldu ástæðu finnst mér rétt að þetta heyri undir landbrn. en ekki sjútvrn.

Nú segja menn: Já, en hringormurinn er mikið vandamál. — Það er alveg rétt. Og selurinn etur mikinn fisk. En mér finnst að það eigi ekki að ráða því að selveiðarnar eigi að vera undir landbrn. Mér finnst að þeir sem greinina stunda og eðli greinarinnar eigi að ráða því hvar þessum málum er skipað og við eigum að hafa manndóm í okkur til þess að leysa málin í þeim rn. þar sem þau eiga best heima og undir þeirri yfirstjórn. Það er mitt viðhorf. Þess vegna held ég að megineinkenni þessa frv. séu ekki á réttum rökum reist.

Ég tel alveg sjálfsagt að við höldum selastofnunum í skefjum. Ég tel alveg sjálfsagt að við nýtum selastofnana. En nú árar svo um þessar mundir að það fæst ekki hátt afurðaverð fyrir selina. Hins vegar horfa menn á vandamálin varðandi hringorminn og þá segja menn: Þá verðum við að flytja þetta milli rn. — Það geta ekki verið rök í málinu vegna þess að aðstæður geta að fáeinum árum liðnum verið allt aðrar. Þá getur vel verið að önnur hver kona í allri Evrópu og norðanverðri Ameríku vilji endilega ganga í selskinni og þetta verði hin arðbærasta búgrein. Þess vegna eiga það ekki að vera rök í málinu. Og ég segi það aftur: Ég tel að það sé ekki rétt að flytja þetta frá landbrn. til sjútvrn. Þetta á heima í landbrn. M. a. hefur hv. þm. Guðmundur Einarsson stundað selveiðar sem ungur maður og gerði það ekki sem sjómaður, heldur sem aðstoðarmaður á jörð sunnanlands, maður í störfum þar.

Lítum á aðrar greinar þessa frv.

Í 2. gr. er beinlínis tekið fram varðandi þá grein að þar sé aðeins um staðfestingu að ræða á því sem sé í öðrum lögum. Þá þarf ekkert endilega ákvæði 2. gr.

Í 3. gr. er fjallað um það, sem menn hafa hér mest um talað, hvort skuli vera samráð eða nefnd. Ég tel að það skipti engu meginmáli. Ég tel að menn eigi að geta ráðið fram úr þeim vandamálum sem hér um ræðir án þess að til komi nein sérstök lög. Ef menn vilja auka veiðar á sel eiga þeir að beita til þess efnahagslegum aðgerðum, gera mönnum arðbært að veiða selinn, eins og reyndar hafa verið gerðar tilraunir til. Ég sé ekki annað en að það sé hægt alveg án tillits til þess undir hvaða rn. þetta heyrir og alveg án tillits til þess hvort þessi lög verða samþykkt eða ekki. Vitaskuld er það hægt. Það er ekkert sem stendur í veginum fyrir því.

Hugmyndir hv. þm. Pálma Jónssonar um veiðikvöð líst mér hins vegar ekki á. Ég tel að það sé ekki hægt að leggja það á menn, vegna þess að þeir eigi land að sjó þar sem eru sellátur eða eitthvað slíkt, að nú skuli þeir skyldugir til þess að drepa svo og svo mikið af sel eða kóp. Rétta aðferðin er sú að gera mönnum arðbært að stunda þessar veiðar. Úr því að ljóst er að sjávarútvegsgreinarnar telja að það sé mikill hagur fyrir þær að þessum veiðum sé haldið áfram geta þær vitaskuld staðið undir styrk eða niðurgreiðslum, eða hvað menn vilja kalla það sem hér um ræðir, til þess að halda selastofnunum í skefjum með eðlilegum veiðum og til þess að þessar afurðir verði þá nýttar í dýrafóður og þar fram eftir götum. Til þess þarf engin lög. Þess vegna þarf hvorki samráð né nefnd af þeim sökum og ekki heldur þessi lög.

Menn hafa gagnrýnt að einhver ráðh. hafi árið 1979 skipað hringormanefnd með bréfi og falið henni rannsóknarverkefni og það væri að líkindum lögbrot. Þetta hefur viðgengist síðan engu að síður. En ef þetta er lögbrot þarf ekki annað en nýtt bréf frá ráðh. þar sem rannsóknirnar eru framkvæmdar skv. þeim lögum sem menn telja að séu í gildi, auðvitað á ábyrgð og undir yfirumsjón Hafrannsóknastofnunar. Ég er sannfærður um að þessi ráðh. skrifaði ekki þetta bréf vegna þess að hann langaði endilega til að brjóta lögin eða setja Hafrannsóknastofnun út í horn. Hann hreinlega vissi ekki um að þarna væri hugsanlega farið yfir mörk laganna og það varð enginn til þess að benda honum á það. — Og ég þykist geta trútt um talað því að ég skrifaði þetta bréf.

Í 4. gr. laganna er staðfestur sá einkaréttur sem þegar er í lögum. Þessi einkaréttur er í lögum og það er vísað til tilskipunar sem er í gildi. Þá þarf ekki 4. gr. laganna.

Með 5. gr. á að banna selveiðar innan 200 sjómílna. Ég lít svo á að þau lög, sem í gildi eru varðandi landhelgina, séu þess eðlis að engum lifandi útlendingi detti í hug að fara inn fyrir 200 mílurnar til þess að fara að elta sel, hvað þá að fara hér upp í landsteinana, upp í 117 metra eða 116. Ég sé ekki að þessi grein skipti nokkru máli.

Í 6. gr. eru upp taldir alls konar reglugerðarmöguleikar fyrir ráðh. Það hefur reyndar verið mjög gagnrýnt á undanförnum árum að menn væru að kæfa sig í reglugerðum og flóknum atriðum og það stæði atvinnulífi fyrir þrifum. Ég veit ekki annað en t. d. þm. Sjálfstfl. hafi tekið mjög undir þá gagnrýni að það reglugerðarfargan, sem menn væru að flækja sig í, væri vafasamt. Ég held að það sé hægt að ná öllum þeim markmiðum sem þarna eru sett án þess að settar séu nýjar lagaheimildir um reglugerðir. Ég held að allar þær heimildir sem menn þurfa séu í raun fyrir hendi, enda séu menn þá tilbúnir til þess að beita þeim aðferðum sem eðlilegastar eru.

Það er líka annað í sambandi við reglugerðir sem menn ættu að hafa í huga. Reglugerðir eru ákaflega óþægilegt stjórnform fyrir þolandann vegna þess að ráðh. getur breytt reglugerðum með litlum fyrirvara, þannig að það sem gilti í dag gildir ekki á morgun. Menn eiga að forðast reglugerðir eftir mætti.

Herra forseti. Ég hef hér farið í gegnum allar greinar frv. Efnislega sé ég ekki að það sé þörf á greinum 2–6, hvað þá 7 eða 8, en 1. gr. frv. er vissulega um efnisatriði, undir hvaða rn. selveiðar skuli falla, og ég er ósammála þeirri grein. Ég tel að eðli máls skv. og vegna þess að hér er um búskap að ræða eigi selveiðar að heyra undir landbrn. og menn eiga að hafa manndóm til að leysa sín mál án þess að vera að flytja þau á milli rn.