11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3467)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Þessi utandagskrárumræða hefur nú staðið í hartnær 35 mínútur, en aðeins tveir hafa talað. Það sér ekki högg á vatni. Það eru jafnmargir á mælendaskrá núna og voru í upphafi. Við höfum nú um eina klukkustund til umráða á þessum fundi til framhaldsumræðu.

Með skírskotun til þess sem var sagt við upphaf þessarar umr., þá er það ljóst að ef það á að takast að ljúka umr. á þessum fundi verða menn að stilla máli sínu mjög í hóf eða leitast við, hver ræðumaður, að fara ekki yfir 5 mínútur. Ef menn sýna þá tillitssemi hver við annan að halda sig innan þeirra marka má vera von til þess að við getum lokið umr. á þessum fundi. Ef umr. verður ekki lokið á þessum fundi, þá verður henni að sjálfsögðu frestað fram í næstu viku. En ég hygg að okkur sé öllum ljóst að það sé mjög slæmur kostur að fresta slíkri umr. sem þessari, sérstaklega fyrir þá sem taka þátt í umr. Þess vegna er þess vænst að við hjálpumst öll að því að ljúka umr. á þessum fundi.