11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4141 í B-deild Alþingistíðinda. (3470)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það sem þarf að hugleiða í því máli sem hér er rætt er að mínu mati það að sú hætta er alltaf yfirvofandi í hvers konar stjórnkerfi að þar verði til sjálfvirkar ákvarðanir til að tryggja kjör yfirmanna þeirra sem kalla má „hina nýju stétt“. Þessi hætta er ævinlega yfirvofandi ef ekki er um að ræða virkt lýðræðislegt aðhald. Það er grundvallaratriði. Og það er grundvallaratriði að við áttum okkur á því að hér á Alþingi hafa engar brtt. komið fram, hvorki frá þeim fjórum flokkum sem hér hafa átt fulltrúa lengst né heldur þeim tveim nýju flokkum sem hér eiga fulltrúa á Alþingi til viðbótar, um það að breyta í grundvallaratriðum því sem hér er á dagskrá. Breytingin hlýtur auðvitað að vera sú — og það er eðlilegasta breytingin á þessum málum til að koma í veg fyrir svona lagað — að bankaráðin séu svipt valdi til að ákveða launakjör bankastjóra og að sú ákvörðun sé flutt yfir til Kjaradóms. Það er í raun og veru eina svarið sem skynsamlegt er að hafa uppi í þessu eini, eins og þingflokkur Alþb. hefur gert samþykkt um og flutt frv. um á þskj. 694 og þingflokkur Framsfl. hefur í raun tekið undir með samþykkt sem gerð var í gær og formaður þingflokks Framsfl. kynnti hér áðan.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það leysi engan vanda í þessu máli fremur en öðrum að hér standi menn og berji sér á brjóst og segi: heilagir, heilagir. Ég tel að það sé engin lausn. Ég tel að hér sé um að ræða ákveðna galla á okkar löggjöf sem við eigum að sameinast um að breyta.

Það er meginmálið. Og það má segja að allir þeir alþm., 60 talsins, sem hér sitja nú og hafa til þessa vanrækt að flytja tillögu um kerfisbreytingu eiga í þessu svipaða sök. Þetta er grundvallaratriði sem menn þurfa að átta sig á. Það jákvæða við samþykkt bankaráðanna er að mínu mati það að málið hefur komist á dagskrá og blöðin — ég nefni þar sérstaklega NT — hafa tekið þetta mál upp og varpað ljósi á það, skapað hér umræðu sem verður vonandi til þess að Alþingi sameinast um að breyta þessu kerfi.

Ég skora á hv. alþm. að taka því frv. vel sem hér hefur verið lagt fram af Alþb. á þskj. 694, flutt í Ed. af hv. þm. Skúla Alexanderssyni, Ragnari Arnalds og Helga Seljan. En þar segir, með leyfi forseta:

.,Þrátt fyrir ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og laga um ríkisbankana skulu launakjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ákveðin af Kjaradómi, sbr. lög nr. 46/1973, með síðari breytingum. Sama gildir um forstjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins.“

Og síðan segir í 2. gr.: „Hvers konar hlunnindi bankastjóra og ráðherra, sem fela í sér að greiddur sé tollur af innflutningi einkabifreiða, eru bönnuð svo og hvers konar launauppbætur í staðinn fyrir þessi hlunnindi.“

Hér er sem sagt lagt til að þessi hlunnindi séu tekin af bankastjórunum og kaup þeirra, ef menn vilja orða það svo, lækkað sem þessu nemur, enda eru þessir menn prýðilega haldnir, eins og hér kom fram hjá hæstv. viðskrh., með 83 000 kr. á mánuði nú þegar. Alþb. er einfaldlega að segja: Það á að taka þessi hlunnindi af bankastjórunum, það á að svipta þá þessum launaauka. Það er ástæðulaust að þjóðfélagið, almenningur sé að greiða bankastjórum þessa peninga.

Það vekur hins vegar athygli og er auðvitað með öllu fráleitt frammi fyrir staðreyndum launamála á Íslandi í dag að horfa upp á það að hér er um að ræða þreföld lágmarkslaun fólks. Skv. kjarasamningum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins eru lágmarkslaun á Íslandi í dag á mánuði 14 075 kr. Það er nærri þreföld þessi upphæð sem verið er að láta þessa menn hafa, ekki í laun, heldur í launaauka, til viðbótar við þau gífurlega háu laun sem þeir hafa. Þetta er köld kveðja til þessa láglaunafólks, til ellilífeyrisþega í landinu, til kennara, til sjómanna og annarra þeirra sem hafa staðið í harðri baráttu á undanförnum vikum og mánuðum gegn launastefnu núverandi ríkisstj.) . (Gripið fram í: Einkum til öryrkja sem vantar bíla.) Ég tala nú ekki um, herra forseti, þegar svo er reynt að bjarga sér með því að segja: Ja, þetta er svona hátt vegna þess að það þarf að borga af þessu skatta. — Það er eiginlega notað sem rök fyrir þessari breytingu að bankarnir hafi þetta svona hátt til þess að það nái yfir skattagreiðslurnar. Það er ekki að furða þó að bankarnir vilji borga einhvers staðar bankaskattana sína sem var verið að' lækka á þeim á síðasta þingi.

Þetta er ákaflega sérkennileg útskýring, að ekki sé meira sagt. En þó tekur steininn úr, og það er nú það sem er í aðra röndina spaugilegt við þetta mál, að ríkisstj. og fulltrúar hennar í bankaráðunum, sem hafa bannað vísitölu á allt, þegar þeir eru komnir inn í hin lokuðu herbergi bankaráðanna þá samþykkja þeir lánskjaravísitölu á kaupaukann handa bankastjórunum. Þetta sýnir auðvitað betur en nokkuð annað að þetta vísitölubannskerfi heldur ekki. Það er alls staðar veriðað reyna að smeygja sér fram hjá því. Kjörnir fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráðunum standa að því að taka upp þetta vísitölukerfi sem er, eins og hæstv. viðskrh. orðaði það áðan svo pent, „andstætt lögum“.

Í rauninni hlýtur ríkisstj. að taka alveg sérstaklega á þessu máli. En hún hefur ekki gert það. Hún hefur verið með yfirlýsingar. Hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. hafa gefið yfirlýsingar. Ég tel að í tilefni af þessum ákvörðunum eigi ríkisstj. að senda frá sér grg. um þetta sérstaka mál. Er það kannske þannig að „hin nýja stétt“ hér í stjórnkerfinu sé víðar að skammta sér kaupauka, launaauka og viðbætur, vísitölutryggt á grundvelli lánskjaravísitölunnar? Er ekki ástæða til þess að hv. Alþingi krefjist þess að farið verði í saumana á þessu kerfi öllu og þetta athugað, ekki bara í bönkunum heldur miklu, miklu víðar? Ég held að það sé nauðsynlegt í tilefni af þessari ákvörðun bankanna að það verði kannað mjög rækilega hvort svo sé, að þetta hafi gerst miklu víðar.

Afstaða Alþb. er sú sem kemur fram í þessu frv., herra forseti. Í fyrsta lagi á að fella þessi fríðindi niður strax. Í öðru lagi á að flytja ákvörðun um laun bankastjóra til Kjaradóms.

Hv. þm. Páll Pétursson vitnaði til þess að hér er lagt fram á Alþingi í dag frv. til laga um viðskiptabanka. Þar er gert ráð fyrir því að bankaráðin ákveði laun og önnur ráðningarkjör bankastjóra eins og verið hefur. Og hæstv. viðskrh. sagði: „Við skulum taka á þessum launamálum bankastjóra í tengslum við þetta frv.“

Hér er um að ræða viðamikið frv. að nýjum heildarlögum um viðskiptabanka. Sex til sjö vikur eru eftir af þinghaldi, hef ég einhvers staðar heyrt. Ef svo er tel ég mjög vafasamt að það takíst að afgreiða þetta frv. um viðskiptabankana. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að taka eigi þessi kjaramál bankastjóranna út úr og afgreiða þau sérstaklega hvað sem þessu frv. um viðskiptabankana líður.

Þegar talsmenn stjórnarflokkanna hér eru að vísa á frv. um viðskiptabankana eru þeir í rauninni að reyna að skjóta sér undan þessu sérstaka máli, að flækja það í stóru málin. Ég held að umræðurnar síðustu daga eigi að geta leitt til þeirrar jákvæðu niðurstöðu að þingið sameinist um að stöðva það fyrirkomulag sem hefur verið í þessum efnum, þannig að laun bankastjóra verði ákveðin af Kjaradómi og þessi fríðindi verði tekin af bankastjórum frá og með síðustu áramótum. Það væri eðlileg og sjálfsögð niðurstaða fyrir Alþingi vegna sögunnar og vegna þess fólks sem um allt land horfir á þessi ósköp, þar sem um er að ræða margföld lágmarkslaun verkafólks sem menn taka sér í vísitölutryggðan launaauka með ákvörðunum á bak við tjöldin.