11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4143 í B-deild Alþingistíðinda. (3471)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Á þingflokksfundi Kvennalistans í gær var samþykkt svohljóðandi ályktun:

„Þingflokkur Kvennalistans fordæmir harðlega þá ákvörðun bankaráða ríkisbankanna að greiða bankastjórum sínum 450 000 kr. á ári til kaupa á einkabílum. Þessi ákvörðun er því miður aðeins eitt dæmi um það siðleysi sem ríkir hér á landi þegar kaup og kjör eru ákveðin. Á meðan stjórnvöld láta sér sæma að skerða stórlega laun í landinu og daufheyrast við kröfum um mannsæmandi laun fyrir unna vinnu samþykkja fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka í bankaráðum ríkisbankanna þvílíkan styrk til hálaunamanna og verðtryggðan að auki í bága við gildandi lög. Þessi ákvörðun sýnir í hnotskurn aðstöðumun fólks hér á landi og hvernig samtrygging gömlu stjórnmálaflokkanna viðheldur honum. Kvennalistinn er mótfallinn hvers konar fríðindum og launaaukum sem eru til þess eins fallnir að auka tekjubilið í þjóðfélaginu. Þar sem ekki verður séð að bankastjórar þurfi meira á bílum að halda vegna starfa sinna en annað vinnandi fólk telur þingflokkur Kvennalistans réttast að afnema slíka bílastyrki til þeirra með öllu.“

Ég vil þakka hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hefja þessa umr. en lýsi um leið nokkrum vonbrigðum með svör hæstv. viðskrh. sem mér fannst ekki gefa fyrirheit um að ríkisstj. hyggist taka fast á þessu máli. Af fyrstu viðbrögðum nokkurra ráðh. að dæma þegar uppvíst varð um þetta mál í síðustu viku vöktu áform bankaráða ríkisbankanna furðu þeirra og hneykslun og þess er greinilega almennt vænst í þjóðfélaginu að ríkisstj. hafi afskipti af svo augljóslega óheppilegum, óeðlilegum og ósiðlegum aðgerðum þingkjörinna bankaráða. Spilling er spilling hversu gamalgróin sem hún er og hana ber að uppræta. Misbeiting valds er engu betri þótt hún hafi viðgengist árum saman. Öllum réttsýnum mönnum hlýtur að blöskra svona ráðslag og við hljótum að bera saman kjarabaráttu almenns launafólks nú á þessum vetri og samtryggingarmakk þingkjörinna bankaráða sem hafa vakið furðu í þjóðfélaginu, að ég segi ekki óhugnað.

Það hefur lengi verið vitað mál að bankastjórar fengju góð laun fyrir vinnu sína og það hefur enn fremur verið vitað mál að þeir nytu margvíslegra fríðinda í krafti embættis síns. En almennt hafa menn vafalaust ekki gert sér nægilega ljóst ígildi þessara bílakaupafríðinda sem árum saman hafa viðgengist sem launaauki til handa ráðherrum og bankastjórum. Fyrst núna liggur á borðinu að þessi fríðindi eru talin jafngilda árstekjum sem margur þjóðfélagsþegninn væri sæmilega ánægður með. 37 500 kr. á mánuði eru svo sem engin ósköp með tilliti til framfærslukostnaðar. En fjöldi manns má sætta sig við aðeins helming þeirrar upphæðar í mánaðarlaun og sumir miklu minna og mega svo bæta bónusvinnu, yfirvinnu og aukavinnu við tekjurnar til þess hreinlega að hafa í sig og á. Þetta fólk á ekki kost á niðurfellingu gjalda af einu eða neinu tagi. Það fær ekki bílastyrki, það fær ekki greiddan símakostnað, ekki 13. mánuðinn greiddan eða neitt af því tagi sem tínt er til þegar verið er að pína upp laun manna í toppstöðum. Þetta fólk þarf að berjast fyrir örfárra prósenta kauphækkun, hætta öllu, starfi og launum, í baráttu fyrir mannsæmandi kjörum. Meðan það heyr sína örvæntingarfullu baráttu fyrir 15–25 þús. kr. lágmarkslaunum er það sakað um kröfuhörku og ábyrgðarleysi, jafnvel borið ofbeldi á brýn. Þetta fólk er gert ábyrgt fyrir kollsteypum þjóðfélagsins, eins og það er orðað. Við getum gert okkur í hugarlund hvernig þessu fólki hefur orðið við fréttir af ráðslagi bankaráðanna. Það athæfi er ekkert annað en siðleysi og bein ögrun við allan almenning og særir réttlætiskennd hans.

Auðvitað er ekki réttmætt að skella allri skuld á bankaráðsmenn, það er heldur ótrúlegt að bankastjórar hafi ekki sótt á um að fá fríðindamissinn, þ. e. niðurfellingu aðflutningsgjalda og tolla, bættan. Sennilega hefur þeim bankaráðsmönnum ekki hugkvæmst að segja við bankastjórana eins og fólkið í láglaunastörfunum fær oft að heyra hjá sínum atvinnurekendum: „Ef þið eruð óánægð með kjörin skulið þið bara leita ykkur að öðru starfi, það eru nógir um hituna.“ Þetta fá ekki síst láglaunakonurnar oft að heyra þegar þær eru að berjast fyrir ögn skárri kjörum. Nú er ég ekki að mæla með slíku en að manni læðist sá grunur að slík svör hefðu litlu breytt. Eða eiga menn von á því að hörgull yrði á umsækjendum um bankastjóraembættin þótt þeim fylgdi ekki þessi óeðlilegi launaauki? Heldur finnst mér það ólíklegt, kjörin eru ekki svo slæm.

Kvennalistinn hefur ekki enn þá tekið afstöðu til till. Alþb. og framsóknarmanna um að Kjaradómur ákvarði kjör bankastjóra. En á síðasta þingi lögðumst við gegn fjölgun í þeim virðulega klúbbi sem fær laun sín skv. Kjaradómi án þess að æmta né skræmta og hefur allt sitt ævinlega á þurru þegar aðrir eru búnir að berjast upp á líf og dauða og ryðja þeim brautina sem betri aðstöðu hafa. Sjálfri finnst mér álitlegri kostur að bankastjórar þurfi eftir sem áður að semja við bankaráðin þó ekki væri nema vegna aðhaldsins. Það er alténd auðveldara að gagnrýna þingkjörin ráð en dómara í Kjaradómi sem á að vera hlutlaus.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. frekar. Kvennalistinn krefst þess að þessar greiðslur verði endurskoðaðar og niðurfelldar og skírskotar til ábyrgðar og réttlætiskenndar allra sem einhverju fá ráðið um þessi mál. Við skorum á ráðh. að gleyma ekki sjálfum sér. Þeir hafa nefnilega bílakaupafríðindi sjálfir.