11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4145 í B-deild Alþingistíðinda. (3472)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Vegna þessarar umr. utan dagskrár um launaauka til bankastjóra ríkisbankanna vil ég greina hér frá samþykkt þingflokks sjálfstæðismanna en hún er svohljóðandi:

„Vegna þeirra samþykkta bankaráða ríkisbankanna að greiða bankastjórum kr. 450 þús. á ári vegna bifreiðakaupa ályktar þingflokkur sjálfstæðismanna eftirfarandi:

1. Þingflokkurinn telur þessa upphæð vera úr öllu hófi og ekki réttlætanlega þótt bankarnir hafi áður greitt tolla af bifreiðum bankastjóra.

2. Framkvæmd þessara samþykkta verði frestað eins og viðskrh. óskaði.

3. Endurskoðað verði frá grunni fyrirkomulag bifreiðahlunninda hjá ríkisbönkunum og í öllum opinberum rekstri.“

Þetta var samþykkt þingflokks sjálfstæðismanna. Mitt erindi hingað í ræðustólinn var í sjálfu sér ekki annað en að kynna þessa samþykkt. Ég get þó ekki stillt mig um, vegna orða sem hér hafa fallið og reyndar skrifa ýmissa stjórnarandstæðinga að undanförnu um þetta mál, að segja örfá orð til viðbótar. Mér finnst nefnilega í þessum málflutningi utan og innan Alþingis gæta dæmalausrar hræsni.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði kröfu um að umboðin verði tekin af núv. bankaráðsmönnum nýkjörnum, en þeir tóku til starfa um síðustu áramót, og reynt er með þessu að skella skuldinni á núv. bankaráðsmenn. Í því sambandi er kannske vert að íhuga hvar þessi svokallaða spilling — sem ég ætla ekkert að draga úr að sé spilling — á upptök sín. Í því sambandi vil ég gjarnan taka undir orð hv. þm. Guðmundar Einarssonar að í raun og veru átti sér ekki stað nein stórbreyting nú um síðustu áramót. Þar voru aðeins umreiknuð þau hlunnindi í beinar peningagreiðslur sem bankastjórar hafa í raun og veru haft frá því á árinu 1970.

Í leiðinni má rifja það upp að þá var bankamálaráðh. þáv. formaður Alþfl. og ef ég man rétt var Alþfl. maður formaður bankaráðs Landsbankans. En þetta skiptir kannske ekki meginmáli. Í þessu sambandi má líka rifja upp hver það var sem gaf tóninn sem núna hefur verið farið eftir. Það var bankaráð Landsbankans í desembermánuði s. l. undir forsæti Lúðvíks nokkurs Jósepssonar. Það vita væntanlega allir hvar í flokki hann er. Nú segir hann í blaðaviðtali að alþm. væri nær að líta í eigin barm en vera að gagnrýna bankaráðin. Alþm. er vissulega hollt að líta í eigin barm. En menn skulu þá líka rifja það upp í þessu samhengi að í því bankaráði Landsbankans, sem tók þessa ákvörðun, sat enginn alþm. í desembermánuði s. l.

Inn í þessar umr. hafa líka nokkuð blandast launakjör forstjóra Framkvæmdastofnunar en þau eru svipuð og kjör bankastjóra. Það er líka gagnlegt að rifja upp hvar upphafið að þeirri ákvörðun er að finna. Ég er hérna með samþykkt sem gerð var þann 9. maí 1972 í þáv. stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég ætla að lesa þessa samþykkt, með leyfi hæstv. forseta. Hún er svona:

„Með tilvísun til þess að á stjórnarfundi 21. jan. „ — þ. e. 1972 — “ var samþykkt að laun framkvæmdaráðsmanna“ — þeir heita nú forstjórar — „skyldu vera hin sömu og laun aðalbankastjóra ríkisbankanna og þeir skyldu fá sömu greiðslu fyrir setu á stjórnarfundum stofnunarinnar og bankastjórarnir fá fyrir setu á bankaráðsfundum, samþykkir stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að framkvæmdaráðsmönnum skuli greidd sem svarar 67% af öðrum þeim hlunnindum sem bankastjórar hafa. Þar undir falla bílahlunnindin.“

Þessi till. var borin undir atkvæði og hún var samþykkt með 3:1 atkv. Þeir sem greiddu þessu atkvæði voru Ragnar Arnalds, Steingrímur Hermannsson og Halldór Magnússon sem þá sat í stjórninni fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Á móti þessu greiddi atkv. Matthías Bjarnason en hjá sat við atkvæðagreiðslu Benedikt Gröndal. Fjarverandi voru tveir stjórnarmenn, Magnús Jónsson og Ingvar Gíslason. Menn vita væntanlega hvar í flokki þessir menn eru.

Ég er ekki að draga þetta fram til að gera lítið úr þörfinni fyrir breytingu á starfsreglum og skipan þessara mála. Þvert á móti legg ég áherslu á nauðsyn endurskoðunar, endurskoðunar sem hafi það markmið að horfið verði frá þeim ójöfnuði sem verið hefur við lýði allt frá árinu 1970. Á þetta er lögð áhersla í þeirri ályktun þingflokks sjálfstæðismanna sem ég hef hér gert grein fyrir.