11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4149 í B-deild Alþingistíðinda. (3474)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um bifreiðahlunnindi bankastjóra ríkisbankanna vil ég taka fram að við í Búnaðarbankanum höfum rætt þessi mál á mörgum fundum, áður en formleg tillaga var samþykkt, þar sem við komum ekki auga á neina leið sem við vorum sæmilega ánægðir með í þessu máli. Rætt var um að bankinn legði bankastjórunum til bifreiðar til eigin nota á sama hátt og gert var fyrir 1. ágúst 1970. Fram kom að a. m. k. einn af bankastjórunum mundi taka þann kost ef í boði væri. Hinir bankastjórarnir sögðust einnig mundu hugleiða það mál þar sem allir bankaráðsmenn létu í ljósi áhuga sinn fyrir því að sú leið yrði eingöngu valin af bankastjórum Búnaðarbankans. Hins vegar vorum við einnig sammála um það að við í Búnaðarbankanum gætum ekki boðið okkar bankastjórum upp á lakari kjör en bankastjórar í hliðstæðum bönkum hafa. Þess vegna var annar valkostur tilgreindur í bankaráðssamþykktinni.

Um síðustu mánaðamót lágu fyrir upplýsingar, sem við töldum óyggjandi, að frá þessum málum hefði verið gengið í Seðlabanka, Landsbanka, Útvegsbanka og Framkvæmdastofnun ríkisins. Þann 2. apríl s. l. var gengið frá svohljóðandi samþykkt í bankaráði Búnaðarbankans og stóðu allir bankaráðsmenn að samþykkt hennar:

„Bankaráð samþykkir að fella niður frá áramótum 1984–1985 greiðslur vegna bílakaupa bankastjóra sem verið hafa í gildi frá 1. ágúst 1970. Í stað þeirra hlunninda sem fólust í þeirri reglu mun bankinn greiða bankastjórunum árlega fjárhæð sem svarar til 450 þús. kr. miðað við janúar 1985, en það er sem næst jafngildi áður umsaminna hlunninda. Ef bankinn leggur bankastjórunum til bíl verði þau hlunnindi metin út frá fyrrgreindri fjárhæð.“

Á fundi, sem haldinn var í bankaráðinu í dag, var ákveðið af bankaráðsmönnum og bankastjórum að hinn síðari kostur yrði valinn, sá að Búnaðarbankinn legði bankastjórunum til bíl til afnota, enda falli fyrri hluti samþykktarinnar frá 2. apríl um launaauka að sjálfsögðu þar með niður.

Ég vil mótmæla því, sem kom fram hér hjá síðasta ræðumanni, að bankaráð Búnaðarbankans hefði framið lögbrot. (JBH: Það var undanskilið.) Það var ekki undanskilið. Og mig furðar á því að þessi hv. þm. skuli fara þess á leit að þeir sem sitja þar í bankaráði segi af sér út af þessu máli. Það er alveg furðuleg ósvífni að fara fram á það. En það kann að vera að ég eigi eftir að tala við þennan hv. þm. betur við annað tækifæri.

Ég vil benda á að skv. 8. gr. laga nr. 28/1976, um Búnaðarbanka Íslands, ber bankaráðinu að fá samþykki viðskrh. til breytinga á öllum kjörum. Þar sem við vorum að athuga þann möguleika að taka þennan síðari kost var því auðvitað frestað að skrifa ráðh. Þar með hefur þessi samþykkt, sem ég hef hér lesið, aldrei öðlast gildi. Verður ráðh. skrifað miðað við breytt viðhorf í bankanum sem ég hef þegar greint frá.