11.04.1985
Sameinað þing: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4151 í B-deild Alþingistíðinda. (3476)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það verður seint sagt allt það sem segja þarf í þessu máli. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafa þegar rækilega, skýrt og skilmerkilega gert grein fyrir sjónarmiðum og stefnu Alþfl. að því er þetta mál varðar. Um allt land rís nú alda reiði og vanþóknunar vegna þess sem hér hefur gerst. Það er réttmæt reiði og réttmæt vanþóknun sem nær nú inn í sali hins háa Alþingis.

Það var næsta fróðlegt að hlusta á hv. síðasta ræðumann flytja mál sitt hér. Hann er einn af þm. Sjálfstfl. en talaði hér svo sem hann væri utan flokka. Það var líka fróðlegt að hlusta á ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, formanns þingflokks Sjálfstíl., sem fór á flótta langar leiðir aftur í tímann.

Ég skal virða þau tilmæli forseta að tala hér ekki langt mál. Hér hefur verið gerð grein fyrir þeirri skoðun okkar þm. Alþfl. að svipta beri núv. bankaráðsmenn umboði. Ég vil vekja athygli þingheims á því að í því frv. sem lagt hefur verið fram hér í dag, stjfrv. til 1. um viðskiptabanka, eru ákvæði til bráðabirgða á bls. 11, þar sem segir svo með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara skal Alþingi kjósa fimm menn í bankaráð hvers ríkisviðskiptabanka og jafnmarga til vara. Frá sama tíma fellur niður umboð þeirra, er þá sitja í bankaráðum ríkisviðskiptabanka.“

Þetta ákvæði er sem sagt þegar fyrir hendi í því frv. sem lagt hefur verið fram.

En það var annað, herra forseti, sem ég vildi hér vekja athygli á. Í hv. fjh.- og viðskn. Ed. liggur nú frv. til l. um breytingu á lögum um tollskrá o. fl., sem gerir ráð fyrir því að felld verði niður hliðstæð hlunnindi sem ráðherrar hafa, þ. e. að fá eftirgefin aðflutningsgjöld af bílum. Þetta frv. á sér nokkra sögu sem nauðsynlegt er að rekja hér. Það var lagt fram sem stjfrv. á þinginu 1978. Á vordögum 1979, fyrir 6 árum, tæpum 5 árum og 11 mánuðum, nánar tiltekið 20. maí 1979, var þetta mál komið til nefndar í seinni deild, í Ed., stjfrv. um að fella niður þessi hlunnindi ráðh. Hvað gerist þá? Ég er hér með ljósrit úr fundargerðabók fjh.- og viðskn. Ed. á þessum tíma: „39. fundur, haldinn 22. maí 1979 kl. 9. 184. mál: Málinu frestað, fundi slitið. Ólafur Ragnar Grímsson“, þáv. formaður fjh.- og viðskn. Ed.

Þar strandaði þetta mál á síðasta stigi. Mér er ekki kunnugt um hvers vegna. Þeir hv. þm. Alþb. kunna væntanlega skýringar á því. Síðan hefur þetta frv., um að afnema þessi hlunnindi ráðh., verið flutt tvisvar sinnum. Í fyrra dagaði það uppi í fjh.- og viðskn. Ed. Hvers vegna dagaði það uppi? Vegna þess að þá var okkur nm. sagt að á næsta leiti væri endurskoðun allra bifreiðareglna á ríkisins vegum. Það átti að koma grg. um það mál frá forsrn. Hún kom aldrei. En okkur var sagt að þessi mál væru í endurskoðun.

Og hvað gerist nú í dag, tæpu ári síðar? Hæstv. viðskrh. kemur í þennan ræðustól og ber því enn við að þessi mál séu í endurskoðun. Á þessi endurskoðun engan enda að taka? Á eilíflega að skjóta sér á bak við það að verið sé að endurskoða málin og þess vegna skuli ekkert gert? Ég hef rætt við formann fjh.- og viðskn. Ed., hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, gerði það í morgun, og hann kvaðst mundu að minni beiðni beita sér fyrir því að þetta mál yrði afgreitt út úr nefndinni eftir rúma viku „með einhverjum hætti“, eins og komist var að orði. Ég uni því vel. En nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. þá sem hér eru staddir: Munu þeir greiða þessu máli veg í gegnum þingið, að þessi hlunnindi, sem ráðh. nú njóta og eru hin sömu og bankastjórar nutu eða a. m. k. mjög svipuð, verði felld niður? Munu hæstv. ráðh. greiða þessu máli leið í gegnum þingið? Ég tel afar mikilsvert að svar fáist við þeirri spurningu. Hér er um meginmál að ræða. Það hafa verið notuð stór orð hér og ég mælist til þess að hæstv. viðskrh. svari. Það kann vel að vera að hann geti ekki svarað fyrir alla ríkisstj. en ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hans, og henni er hægt að svara með jái eða neii, þarf ekki löng ræðuhöld til: Mun hann beita sér fyrir því að frv. okkar Karls Steinars Guðnasonar á þskj. 473, 292. mál þessa þings, verði samþykkt á þessu þingi og nái fram að ganga?