15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4165 í B-deild Alþingistíðinda. (3482)

416. mál, þingsköp Alþingis

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir að þetta frv. til l. um þingsköp Alþingis er komið fram. Það stendur svo á að enginn af þeim fulltrúum Framsfl. sem eiga sæti í þingskapalaganefndinni er í Ed. þannig að ég við lýsa í örfáum orðum að þingflokkurinn hefur rætt þessi mál og er í öllum höfuðatriðum sammála frv. þó að einstakir þm. flokksins áskilji sér að sjálfsögðu rétt til að flytja eða fylgja brtt. En í höfuðatriðum er mikil samstaða um þetta mál. Ég vil einnig þakka hv. 1. flm. þessa frv. fyrir ágæta grein sem hann gerði fyrir málinu í framsögu áðan.

Þau atriði, sem ég vildi gera að umræðuefni einkum og sér í lagi, snerta framkvæmd þingstarfa. Ég vil taka fram í upphafi að ég er mjög hlynntur takmörkun á umr. um þáltill. og ég get ekki verið sammála því, sem hv. þm. Ragnar Arnalds hélt fram, að þar væri tími takmarkaður um of. Ég held þvert á móti að það sé full ástæða til þess að takmarka umr. um þáltill., einkum og sér í lagi þar sem í frv. eru ákvæði sem gera ráð fyrir að hægt sé að víkja frá þessum tímatakmörkunum ef um sérstaklega mikilvæg mál er að ræða. Ég vildi m. a. s. ganga lengra í sambandi við þáltill. Ég tel að það ætti að hafa enn þrengri mörk um framlagningu bæði frv. til laga og þáltill. Hér er gert ráð fyrir að það þurfi sérstaka samþykkt ef þáltill. komi fram síðar en sex mánuðum eftir þingsetningu. Ég tel að það gæti verið til athugunar að setja einhver enn þá þrengri mörk um þetta atriði, t. d. 1. mars, 1. apríl eða eitthvað slíkt. Mjög óheppilegt getur verið að fá stór lagafrv. á allra síðustu dögum þingsins. Erfitt getur því reynst að fjalla um þau eins og skyldi. Að sjálfsögðu þurfa að vera til undantekningar frá þessu ef þingið samþykkir, eins og reyndar er hér í frv., en meginstefnan tel ég að eigi að vera sú að ákvæðin um framlagningu frv. til laga og þáltill. séu enn hert frá því sem í frv. er.

Í öðru lagi vil ég nefna það að umr. utan dagskrár og í fyrirspurnatíma eru að mínu mati gerð góð skil í þessu frv. Það er alltaf álitamál hve löngum tíma á að verja til slíkra umr., en ég held að með því að gefa mönnum tækifæri til að tala í 5–10 mínútur ætti að vera hægt að sjá til þess að bæði stjórn og stjórnarandstaða komi allmörgum sjónarmiðum á framfæri. Það verða um eða yfir 60 þm. og ef þeir neyta allir réttar síns eru þarna komnar mjög langar og ítarlegar umr. Ég held að um a. m. k. allan obbann af þáltill. og reyndar fsp. líka sé hægt að segja allmikið á fimm mínútum. Ég er ekki viss um að mikil rýmkun á því sé til bóta. Tvær mínútur ættu í flestum tilfellum að duga til að menn gætu sagt skoðun sína.

Það gegnir að sjálfsögðu öðru máli um lagafrv. Eðli þeirra er allt annað en þáltill., fsp. eða umr. utan dagskrár. Þar þarf að gæta þess að rækilega sé að unnið, bæði hvað snertir umr. og ekki síst það, sem ég vildi koma að sem þriðja atriði, að ég tel að vera ættu langtum strangari reglur um nefndarstörf, nefndartími sé áætlaður það rúmur og það sé gengið þannig frá samkomutíma nefndanna að það rekist ekki á og hægt sé að halda nefndarfundi nokkuð reglulega á þeim fasta tíma sem ákveðinn verður í upphafi hvers þings.

Þetta snertir fjórða atriðið sem ég vildi taka til umr. og hefur verið minnst hér á. Það er varðandi fundartíma deilda. Það er atriði sem hefur nokkuð verið rætt án þess að niðurstaða hafi fengist, en ég vil mælast til að það verði athugað mjög ítarlega, hvort ekki sé unnt að taka upp annan fundartíma, byrja fyrr að deginum og hætta þá fyrr. Þannig yrði, að mínu mati, betri skipulagning á deildafundum og þingflokksfundum en nú er. Ég mundi telja það tvímælalaust til bóta að þingfundir væru að morgninum frekar en síðdegis, t. d. kl. 9 eða kl. 10, og þeim væri þá lokið á hádegi eða kl. 1 þannig að tími gæfist til þingflokksfunda og nefndafunda síðdegis. Þetta eru allt saman atriði sem eru til umr. Ég vænti þess að það verði farið af mikilli alvöru að athuga hvort ekki mætti skipuleggja betur fundartíma Alþingis en mér finnst a. m. k. stundum vera núna.

Ég vil einnig taka undir það sjónarmið að æskilegt væri að deildirnar hefðu meiri tíma en nú er. Eins og nú er takmarkast fundatími þeirra, að mínu mati, um of af fundatíma þingflokkanna. Margt af því mikilvægara sem fram fer í þinginu fer fram einmitt í deildunum. Þar eru lagafrv. rædd. Ég tel að betri tíma þurfi en nú er.

Ég ætla ekki að lengja þessa umr. Ég vil endurtaka að ég tel fjölmargt í þessu frv. til bóta. Ég tel takmarkanir á umr. um þáltill. og fsp. vera einungis til góðs og tel mjög vel fyrir komið þeim tíma sem unnt er að verja til umr. utan dagskrár, en vil undirstrika að deildafundanna og nefndafundanna verði betur gætt og það mál tekið til athugunar.