15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4169 í B-deild Alþingistíðinda. (3484)

416. mál, þingsköp Alþingis

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tel, eins og margir sem hér hafa talað, að það hafi verið brýn nauðsyn að endurskoða þingskapalög og í þingflokki Alþfl. hafa þessi mál verið rædd og erum við í meginatriðum sammála því frv. sem hér liggur fyrir. Þó komu fram ýmsar aths. sem voru fluttar síðan inn í nefndina. En ég lít á þetta frv. sem samkomulag. Hér hefur verið gert samkomulag sem nú er til umfjöllunar.

Sjálfur gerði ég þá aths. að tvær mínútur væru fullstuttur tími fyrir fyrirspyrjendur og ég verð að játa að ég tel mjög vandmeðfarið það atriði að öðrum þm. sé heimilt að gera örstutta eða stutta aths. Ég upplifði það 1978 að einn þm. fékk að gera slíka aths. og talaði í tæpan klukkutíma. Það segir okkur að þetta atriði er mjög vandmeðfarið og í þeim efnum verður að treysta á góða fundarstjórn og sanngirni þingforseta.

Auðvitað er allt of mikið af málskrafi á Alþingi um einskis nýta hluti og það er líka rétt að hér eru fluttar þáltill. sem margar hverjar fjalla um mjög ómerkileg mál og ástæðulaust er að eyða tíma þingsins í það, en erfitt er reyndar að gerast dómari í þeim efnum, hvað er ómerkilegt og hvað er ekki ómerkilegt.

Ég hef vissar áhyggjur af því líka að ekki er tekið á þeim vanda sem kemur upp á hverju þingi, þ. e. fyrir jólin og í lok þings, þar sem vinnuálag verður óhóflega mikið og afgreiðsla mála flaustursleg, fullyrði ég, oft og tíðum. Enn fremur berast stjfrv. of seint eða koma of seint fram, kannske örfáum dögum áður en þess er krafist að þau séu afgreidd. Við þetta er náttúrlega ekki unandi. Vil ég spyrja hv. 4. þm. Vestf., sem er formaður þingskapanefndar, hvort þetta hafi ekki verið rætt og hvort ekki sé möguleiki á að breyta þessum vinnubrögðum, sem átt hafa sér stað í þinginu, ekki bara á þessu þingi heldur á öllum þeim þingum sem ég hef sótt og löngu áður.

En ég ítreka að þingflokkur Alþfl. er í meginatriðum sammála þessu frv. Frv. kemur til nefndar — er það ekki? (Gripið fram í.) Nei, það fer ekki til nefndar. Sá er var fulltrúi Alþfl. í þingskapanefnd er nú ekki viðstaddur þannig að erfitt er fyrir mig að gera — (Gripið fram í.) Hún hefur gert það, já. — grein fyrir því sem hann hefur aðhafst í þessu. En okkar niðurstaða er sú að við munum styðja þetta frv. í meginatriðum og fylgja þó brtt. ef þær koma fram og geta orðið til að bæta frv.