15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4173 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

416. mál, þingsköp Alþingis

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að fjölyrða frekar um að ágreiningur er um þetta frv. og ég vil segja talsverður ágreiningur. Ég er ekki í neinum vafa um að hann á eftir að koma miklu skýrar og skarpar í ljós en í þessum umr. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um hinn mjög svo niðurskorna ræðutíma sem þm. er ætlaður við umr. um þáltill., sem þar að auki fer niður í fimm mínútur, og hins vegar þar sem eru þessi stórbreyttu ákvæði um utandagskrárumr. þar sem líka er bersýnilega verið að skerða verulega rétt þm.

Ég vil hins vegar taka það fram að ég hygg að það njóti nokkuð útbreidds og almenns stuðnings hér í þinginu meðal þm. að eðlilegt sé að takmarka utandagskrárumr. frá því sem nú er og breyta fyrirkomulagi þeirra, en ég vil leggja á það áherslu að til þess eru margar leiðir. Það er ekki endilega víst að það sem nefndin hefur gert tillögur um sé það eina rétta eða það eina sem til greina kemur. Ég held að við hér í þinginu ættum síður en svo að flaustra að því að afgreiða þessi mál þannig að ekki séu skoðaðar allar tillögur sem til greina gætu komið og reynt að afgreiða málið í sæmilegum friði. Það er verið að gera mjög veigamikla breytingu á þingsköpum og það væri auðvitað mjög forkastanlegt að reyna ekki til hins ýtrasta að ná góðu samkomulagi meðal þm. um hvernig þeim breytingum yrði háttað þegar verið er að raska áratuga gömlum venjum hér í þinginu, venjum sem fyrst og fremst hafa verið til hagsbóta fyrir stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Hvað svo sem 1. flm. frv. segir er þetta nú staðreynd sem ekkert þýðir að loka augunum fyrir, að málsmeðferð og vinnubrögð stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga eru alltaf ólík á hverjum tíma. Stjórnarsinnar og ríkisstj. koma sínum málum á framfæri í gegnum stjfrv. og með margháttuðum viðtölum og grg. við fjölmiðla, en stjórnarandstaðan hefur sínar sérstöku aðferðir og meðal þeirra eru umr. utan dagskrár. Það væri mjög til þess að skerða eðlileg skoðanaskipti í þinginu ef reglan sem hér er gerð tillaga um í frv. yrði aðalregla, að utandagskrárumr. ættu sér yfirleitt aldrei stað nema í lok þingfundartíma og þá þannig að frsm. mætti tala í þrjár til fimm mínútur og aðrir í ekki nema tvær mínútur. Það held ég að væri veruleg skerðing á eðlilegum skoðanaskiptum og við ættum að hugsa okkur vandlega um áður en við grípum til þess ráðs.

Ég vil taka það fram að þegar ég segi að það geti ýmsar aðrar leiðir komið til greina eða ýmiss konar annað fyrirkomulag á ég t. d. við að það gæti verið hugsanlegt að takmarka ræðutíma án þess að gera það í svona stórum stíl. Í öðru lagi skiptir verulega miklu máli hvort þessi utandagskrárumr., sem þarna er leyfð, er almennt aldrei fyrr en í lök þingfundartímans eða hvort hún væri t. d. í upphafi þingfundar. Ég hygg að menn væru miklu fúsari til þess að fallast á að utandagskrárumr. tæki ekki nema einn hálftíma og umr. væri verulega niðurskornar hvað ræðutíma snertir ef það væri þá um leið regla að þessi umr. ætti sér stað í upphafi fundarins, en ekki að hún ætti sér stað undir lok fundarins þegar öll athygli er dreifð og beinist ekki lengur að fundum þingsins. Það þarf ekki að segja neinum þm. þau tíðindi að upphaf fundar vekur miklu meiri athygli fjölmiðla en lok fundar. Undir lok funda er það meginregla að allir fréttamenn blaða, útvarps og sjónvarps eru farnir heim. Það að hefja utandagskrárumr. í lok fundar er ekkert annað en strika yfir þær og segja: Þær eiga enga athygli að vekja héðan í frá nema þær örfáu sem falla undir skilgreiningu 2. mgr. Þess vegna segi ég að þetta, að setja þessar umr. allar upp fyrir lok fundartímans, er býsna mikið atriði í málinu.

Ég vil svo segja það að lokum að vegna þess að hér er bersýnilega um talsvert ágreiningsmál að ræða meðal þm. og málið er samið af nefnd sem kosin var í Sþ. til að undirbúa málið finnst mér ekki við hæfi að við samþykkjum hér að vísa málinu aftur til sömu nefndar sem bjó það úr garði. Ef ágreiningur er um málið meðal annarra en þeirra sem sitja í þessari nefnd, sem bjó það til, er það mjög óeðlilegt að vísa því aftur til nefndarinnar, sem gekk frá málinu, frekar en vísa því með eðlilegum þinglegum hætti til allshn., fyrst í Ed. og svo til allshn. í Nd. Ég vildi gera það að tillögu minni hér að þessu máli verði vísað til allshn. deildarinnar.