29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 29 er um margt hið athyglisverðasta. Það tekur mið af þeirri öru tækniþróun sem nú á sér stað og leitað er leiða til að mæta henni.

Í allflestum löndum hins vestræna heims hafa stjórnvöld á undanförnum árum skipað starfshópa til að kanna áhrif þeirrar umbyltingar á vinnumarkaði sem rafeindatæknin hefur í för með sér. Á þessu sviði standa Norðurlöndin framarlega í flokki. Þar er unnið að upplýsingaöflun um þessi mál. Stjórnvöld fá stöðugt upplýsingar og ráðleggingar um þróun rafeindatækninnar og á hvern hátt skuli bregðast við breyttum aðstæðum. Í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Þýskalandi, Japan og fleiri löndum hafa verið gerðar umfangsmiklar úttektir á líklegum áhrifum nýrrar tækni á vinnumarkað og þróun samkeppnisaðstöðu á heimsmarkaðnum. Ýmsar stofnanir hafa tekið áhrif nýrrar tækni til umræðu. Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur málið verið til umræðu í nokkur ár og hafa tvær meiri háttar skýrslur komið út á vegum ráðsins um þetta mál. Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf hefur gefið út nokkrar bækur um þetta efni. Þá hefur OECD, Efnahags-, samvinnu- og þróunarstofnun Evrópu í París, stofnað til umræðna um áhrif nýrrar tækni á efnahagsog atvinnuþróum í aðildarlöndunum, núna síðast 6.–8. febr. s.l.

Flestum ber saman um að mannkynið standi nú frammi fyrir jafnróttækum eða róttækari breytingum á atvinnuháttum og áttu sér stað með iðnbyltingunni. Rafeindatæknin opnar nýja möguleika, en hefur einnig hættur í för með sér. Nýta þarf tækifærin sem best og draga sem mest úr neikvæðum áhrifum tækninnar.

Þessi málefni hafa lítið verið rædd hér á landi á undanförnum árum. Þó var það á árinu 1982 sem Alþingi lét málið til sín taka og þann 20. apríl það ár samþykkti Alþingi þáltill. um stefnumótun í upplýsinga- og tölvumálum. Þáltill. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd er geri athugun á stöðu og þróunarhorfum í upplýsinga- og tölvumálum og á hvern hátt er unnt að stjórna þeirri þróun.

Jafnframt skal nefndin benda á kosti varðandi stefnumótun og opinbera ákvarðanatöku á fyrrgreindu sviði. Sérstaklega skal athuga hvernig vinnumarkaðurinn geti aðlagast tölvuvæðingunni án þess að atvinnuöryggi sé stefnt í hættu.

Nefndin skal við störf sín hafa hliðsjón af þeirri vinnu og þeim skýrslum sem þegar kann að vera lokið hérlendis og erlendis.

Skal nefndin skila niðurstöðum og tillögum fyrir árslok 1982.“

Af því varð þó ekki, en eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum létu ýmsir aðilar í ljós áhuga á því að ríkisstj. hefði frumkvæði að því að fram færi könnun á hugsanlegum áhrifum aukinnar tölvuvæðingar og sjálfvirkni á íslenski atvinnulíf. Ríkisstj. fól félmrh. að kanna undirtektir helstu samtaka launafólks og atvinnurekenda og boðaði hann til fundar með aðilum 5. sept. 1983. Undirtektir samtaka atvinnulífsins og vinnumarkaðarins voru jákvæðar og í framhaldi af því var starfshópur skipaður þann 9. nóv. 1983 til að gera úttekt á þessum málum. en í hópnum eru tveir fulltrúar tilnefndir af launþegasamtökum og tveir eftir tilnefningu atvinnurekenda, enda er þess vænst að gott samstarf náist um framkvæmd könnunarinnar við aðila vinnumarkaðarins.

Félmrh. skipaði eftirtalda menn í starfshópinn: Ingvar Ásmundsson skólastjóra, sem er formaður án tilnefningar, Hauk Helgason skólastjóra og Hilmar Jónasson formann verkalýðsfélagsins í Rangárvallasýslu eftir tilnefningu launþegasamtaka, Magnús Gústafsson forstjóra og Þorstein Geirsson skrifstofustjóra eftir tilnefningu samtaka atvinnurekenda. Gylfi Kristinsson, fulltrúi vinnumálaskrifstofu félmrn., var skipaður ritari hópsins. Í mars 1984 varð sú breyting að Þórarinn V. Þórarinsson aðstoðarframkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins var skipaður í starfshópinn í stað Magnúsar Gústafssonar sem réðist til starfa í Bandaríkjunum.

Í skipunarbréfi starfshópsins er nánar fjallað um verkefni hans og segir m.a. að hann skuli framkvæma könnun sem ætlað er að leiða í ljós, eftir því sem unnt er, líkleg áhrif þeirrar nýju tækni, sem nú ryður sér til rúms. á mannaflaþróun á vinnumarkaði, framleiðni og samkeppnishæfni núverandi atvinnugreina svo og á stofnun og viðgang nýrra atvinnugreina.

Herra forseti. Ég vil helst gagnrýna frv. sem hér er til umr., fyrir að það er látið líta út eins og stjórnvöld séu ekki að gera neitt í þessu mikilvæga máli. Ekki er minnst einu orði á þá nefnd, sem ég hef hér verið að skýra frá, sem er starfandi og hefur það hlutverk að framkvæma könnun á áhrifum nýrrar tækni á mannaflaþróun á vinnumarkaði, framleiðni, samkeppnishæfni o.s.frv. svo og á stofnun og viðgang nýrra atvinnugreina. Þessi starfshópur, sem er hér að störfum, vinnur mikið og gott verk. Ég vil geta þess alveg sérstaklega að í júlímánuði s.l. kom út áfangaskýrsla frá þessum starfshópi sem var send öllum hv. alþm. og mörgum fleiri sem helst hafa áhuga á því að fylgjast með þessum málum og kynna sér það sem í gangi er. Þetta finnst mér aðfinnsluvert við hv. flm. þessa ágæta máls. Þó vil ég geta þess að þeir hafa, þrátt fyrir að láta líta svo út að ekki sé neitt gert og ekki sé minnst á tilvist starfshópsins sem vinnur að þessu mikilvæga máli, sem betur fer notað sér ýmislegt úr þessari opinberu skýrslu og tekið upp setningar og málsgreinar úr vinnuplöggum starfshópsins. Ég er ekki að átelja það á einn eða neinn hátt, en mér finnst að þegar menn eru að flytja gott mál eigi í leiðinni að skýra frá staðreyndum sem blasa við öllum.

Eins og ég gat um sendi starfshópur félmrn., sem kannar áhrif nýrrar tækni á íslenskan vinnumarkað, frá sér þessa skýrslu nú í sumar. Skýrslan er öðrum þræði byggð á athugunum. sem starfshópurinn hefur gert á gögnum sem hann hefur viðað að sér frá fjölmörgum löndum sem hafa framkvæmt svipaðar kannanir, og hins vegar upplýsingum sem aflað var á umfangsmikilli ráðstefnu. sem ég minntist á áður. sem haldin var í febr. s.l. í París. Ég vil geta þess hér að félmrn. kostaði för tveggja fulltrúa starfshópsins á þessa ráðstefnu. Segja má að skýrslan sé samantekt á helstu niðurstöðum þeirra gagna sem hópurinn hefur aflað sér og viðhorfum aðila vinnumarkaðarins til þeirra í heild.

Þar sem frv. það sem hér er til umr. tengist á ýmsan hátt því verkefni sem starfshópur félmrn. er að vinna þykir mér hlýða að benda á nokkur atriði í áfangaskýrslu hans.

Meginniðurstaða starfshópsins er sú að afkoma Íslendinga ákvarðist af alþjóðlegri samkeppnishæfni. Til þess að bæta samkeppnishæfnina og lífskjör er nauðsynlegt að auka framleiðnina. Til þess að auka framleiðnina þarf að bæta stjórnun, auka hæfni mannaflans, auka arðbæra fjárfestingu og efla tækniþróun. Starfshópurinn telur að öll þessi atriði séu mikilvæg, en tækniþróunin skipti sköpum.

Til þess að örva tækniþróunina bendir hópurinn á nokkrar leiðir, t.d. að verja þurfi enn meiri fjármunum í menntun og þjálfun. Það er einmitt það sem hv. frsm. lagði áherslu á áðan. Bent er á að menntakerfið þurfi að taka nýja stefnu til að laga sig að tæknimenningunni. Sveigjanlegir kennsluhættir þurfi að sitja í fyrirrúmi vegna þess að erfitt sé að sjá hæfnisþörfina fyrir. Því þurfi að leggja megináherslu á kennslu í almennum undirstöðugreinum og haga skólastarfi þannig að það efli frumkvæði og framtak, en drepi það ekki í dróma. Starfshópurinn telur að í raun þurfi að endurskipuleggja allt menntakerfið með hliðsjón af þeim öru tæknibreytingum sem nú ganga yfir heiminn. Menntaleiðir verði markvissari og miðaðar í ríkari mæli við framleiðsluþarfir atvinnuveganna. Kennslustarf og námsaðferðir taki mið af nýrri tækni.

Varðandi eftir- og endurmenntun segir starfshópurinn í skýrslu sinni að aðlögun vinnumarkaðarins að nýrri tækni komi misjafnlega niður á starfsgreinum og störfum. Þess vegna þurfi að tryggja starfsmönnum endurmenntun og þjálfun sem geri þeim kleift að laga sig að tæknibreytingunni. Slíkum stuðningi þurfi að fylgja skilningur á aðlögunarvanda eldri starfsmanna.

Starfshópurinn gerir stöðu kvenna á vinnumarkaðinum að umræðuefni í áfangaskýrslunni og telur að sérstök áhersla sé til að hyggja að stöðu þeirra. Þær gegna í ríkari mæli en karlar einhæfum störfum sem líklegra er að leggist af eða breytist. Til að bæta stöðu kvenna þurfi að stuðla að því að atvinnuþátttaka þeirra verði fjölþættari. Hvet ég konur til að haga menntun sinni í samræmi við það.

Herra forseti. Eins og hér hefur verið rakið er verið að vinna á vegum ríkisstj. að athugunum á ýmsum þáttum um þessi málefni, sem frv. hv. 2. landsk. þm. fjallar um, og eins og ég tók fram áðan eru aðilar vinnumarkaðarins sammála um þetta verkefni. Þessari vinnu er ekki fulllokið. Ég mun að sjálfsögðu reyna eftir því sem efni og ástæður leyfa að hraða vinnu þessa starfshóps, sem hefur komið inn á þessi málefni, og tel raunar athugandi að skipa sérstaka nefnd til að fjalla sérstaklega um endurmenntunarmálið.

Ég endurtek að hér er um að ræða eitt mikilvægasta málið fyrir framþróun í okkar þjóðfélagi, ekki hvað síst í sambandi við atvinnumálin og framtíð þeirra. Það er þess vegna nauðsyn að menn taki höndum saman um að fylgja fast eftir með skipulegum hætti vinnu við að móta þessi mál.