29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Kristófer Már Kristinsson:

Herra forseti. Mig langar til að gera örstutta aths. við það frv. sem hér er til umr.

Ég vil byrja á því að taka undir það sem segir í 1. gr. frv. og lýsa yfir stuðningi mínum við markmið þessa frv., en ég get ekki fellt mig við ákvæði 2. gr. og ýmislegt sem þar kemur á eftir. Ég get t.d. ekki skilið hvaða erindi skipulagsatriði í fræðslukerfinu eiga inn í félagsmálaráðuneytið. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að búa til sérstakt bákn í kringum þessa menntun, jafnvel þó að þess háttar bákn sé til á hinum Norðurlöndunum.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera fjölbrautaskólunum og öðrum framhaldsskólum kleift að sinna þessu verkefni. Þetta er að mínu mati spurning um skólaskipulag og fjármagn. Í raun og veru er þetta kannske spurningin um að ráða hæft fólk til að starfa að skilgreindum verkefnum á tilteknum tíma og stað. Ég er að vísu á þeirri skoðun að sú fullorðinsfræðsla sem í gangi er í landinu sé harla einkennileg. Mér þykir framleiðsla á miðaldra stúdentum ekki í neinum sjáanlegum tengslum við þarfir atvinnulífsins eða jafnvel einstaklinga. Ég tel það brýnt að koma skynsamlegu skipulagi á framhaldsskólakerfið og veita fjármagni sérstaklega til þessa verkefnis og stefna m.a. að því að nýta betur þá aðstöðu sem við ráðum yfir í skólum landsins. Ég er á þeirri skoðun að skóli sé ekki hús, heldur eigi skóli að vera lifandi afl í samfélaginu. Þjónusta skólans á ekki að vera bundin við ákveðin aldursmörk. Skólinn á m.a. að sinna framsæknum þjóðþrifaverkefnum af því tagi sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég held að ég sé að tala um skóla af þeirri tegund sem nú er verið að svæfa í menntmrn. með aðgerðarleysi. Ef litið er til þess er e.t.v. ekki fráleitt og kannske skynsamlegt að stefna að því að færa skóla- og fræðslumál frá menntmrn., vegna þeirrar stefnu sem þar er uppi, og þá til annarra aðila í samfélaginu sem eru þá e.t.v. líklegri til góðra verka.

En ég held að hér sé verið að stofna til apparats sem verður aldrei til stórræða og mun líklega ekki fá fjárveitingar til annars en að reka kontór og skapa pappírsflóð.