29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þeim hæstv. félmrh. og hv. þm. Kristófer Má Kristinssyni sem sáu ástæðu til að taka þátt í umr. um þetta mál.

Hv. þm. Kristófer Már Kristinsson gagnrýndi þetta frv. og taldi að hér væri verið að setja á laggirnar eitthvert bákn sem aldrei yrði til neins gagns. Ég vil mótmæla þessu og tel að ef menn hafa uppi gagnrýni á ákveðna þætti og þegar um svo mikilvægt mál er að ræða eins og þetta eigi þeir auðvitað jafnhliða því að þeir gagnrýna að benda á úrlausnir, hvernig þeir vilji þá skipa málum, vegna þess að við svo búið má auðvitað ekki standa eins og er hér varðandi endurmenntunarmálin.

Hann talaði um að hann skildi ekki af hverju félmrh., eins og hér er lagt til, ætti að hafa yfirstjórn þessara mála. Ég tel mig hafa rökstutt það nægilega í framsöguræðunni og skal ekki endurtaka það.

En þá vil ég víkja að því sem hæstv. félmrh. sagði. Hann vitnaði mikið til þess starfshóps sem skipaður hefur verið til að fjalla um nýja tækni. Þessi starfshópur hefur vissulega skilað áfangaskýrslu og gerði það í sumar, en ég verð þó að segja að mér fannst innihald þeirrar skýrslu nokkuð rýrt og ekki koma fram nein ákveðin stefnumótun um hvernig eigi að taka á þessu máli.

Það er einkennandi, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., að þegar einstakir þm. taka sig til og flytja frv. um ákveðin brýn málefni, og það eru þá ekki málefni sem hæstv. ríkisstj. hefur á hverjum tíma haft frumkvæði til að leggja fram á Alþingi, er það yfirleitt viðkvæðið sem við fáum sem leggjum fram slík mál: Jú, jú, þetta er gott og þarft málefni og ég er að hugsa um að skipa nefnd í það. — Þetta eru yfirleitt svörin sem við hv. þm. fáum hér á Alþingi sem erum að reyna að leggja fram mál og stuðla að því að þau nái fram að ganga. Þá eru það svör hæstv. ráðh. að setja þurfi nefnd í málið og kanna það. Hv. Alþingi er sem sagt ekki fært að þeirra dómi til að fjalla um og taka afstöðu til mála sem hér eru lögð fram.

Vitaskuld á þetta mál eftir að fara í nefnd og fá þar umsagnir. Ég tel að hv. þm. séu í stakk búnir til að taka afstöðu til þessa máls eins og það liggur fyrir, en ráðh. þurfi ekki að skipa sérstaka nefnd í málið. Hann telur þá ekki að sú nefnd sem hann hefur þegar skipað til að fjalla um nýja tækni muni fjalla um þennan þátt mála. Nú á að setja nýja nefnd í málið til að fjalla um það. Og hvenær fáum við niðurstöðu þar? Eftir 1, 2, 3 eða 4 ár? Ég tel að það sé um svo brýnt mál að ræða að við getum ekki beðið eftir neinni nefndarskipun frá ráðh. í þessu efni. Það liggur hér fyrir frv. um þetta mál. Ég sagði áðan í mínu máli að ég væri tilbúin að skoða allar breytingar sem menn vilja leggja fram í þessu máli, en ég tel alveg óþarft að við bíðum eftir einhverri nefndarskipun frá hæstv. ráðh. í þessu máli og skora á Alþingi að taka afstöðu til þessa máls, jafnvel þó hér sé bara um þmfrv. að ræða en ekki frv. frá hæstv. ríkisstj.