15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4182 í B-deild Alþingistíðinda. (3511)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef ýmsar athugasemdir við ræðu hæstv. félmrh. að gera eins og hún var.

Í fyrsta lagi sýnist mér alveg augljóst að ekki er gert ráð fyrir að iðgjöld sjúkra- og orlofssjóða falli undir þetta. Það er ljóst, um það þarf ekki að deila. Hins vegar fékk ég ekki svar við því frá hæstv. félmrh. hvort orlofsfé launþega á Vestfjörðum er innan þessa ramma. Hæstv. ráðh. sló úr og í. Ég vil minna hæstv. ráðh. á hluta af ræðu sem hann flutti á síðasta þingi einmitt um þetta sama mál. Hann er þar að tala um þá nefnd sem hann vék hér að líka, sem átti að endurskoða lögin um orlof, en þar sagði hæstv. félmrh., með leyfi forseta:

„Hlutverk þeirrar nefndar var að endurskoða lög um ríkisábyrgð á launum og semja frv. sem leiða mundi til greiðari og öruggari meðferðar á kröfugreiðslum skv. lögunum og tæki af vafa um umfang ríkisábyrgðarinnar.“

Þetta var meginefnið. Nefndinni var ekki ætlað að gera efnislegar breytingar. Það er ekki heldur gert í þessu frv. nema að því er varðar orlofsfé í þeim tilfellum sem Póstgíróstofan hefur lagt það út. Ég sé ekki betur, hæstv. ráðh., en að þetta frv. sé að þessu leytinu til nákvæmlega eins og það sem var hér til umr. á s. l. vori. Það er engin breyting gerð til rýmkunar að því er varðar ríkisábyrgð á orlofsfé frá því frv. sem við ræddum s. l. vor. Það eina sem mér sýnist breytast núna með brtt. hv. nefndar er að lífeyrissjóðsiðgjöldin koma inn, en ekkert annað.

Ég skora á hæstv. ráðh., og vil helst ekki láta þessari umr. lokið án þess að geta fengið alveg hrein svör, að svara því hvort hann telur að orlofsfé launþega á Vestfjörðum falli undir þetta ákvæði laganna. Ég vil fá alveg ótvíræð svör, ekki að slegið sé úr og í að því er þetta varðar. Þetta er það stórt atriði og mikilvægt að nauðsynlegt er að fá skýr svör.

Í öðru lagi sagði hæstv. ráðh.: Það er andstaða hjá heildarsamtökum launþega við að taka upp breytingar á orlofslögunum í ljósi Vestfjarðasamkomulagsins. — Þetta er alrangt, hæstv. ráðh. Ég á sjálfur sæti í þeirri nefnd sem hæstv. ráðh. er að tala um og veit mjög vel hvernig mál hafa þróast þar og hvernig þau standa. Það er engin andstaða við því innan heildarsamtaka verkalýðshreyfingarinnar að taka upp hliðstætt fyrirkomulag um greiðslu orlofsfjár og tekið var upp á Vestfjörðum, þ. e. að launþegum sé tryggð besta ávöxtun hverju sinni á orlofsfé, og Vestfirðingar þurftu ekki að leggja sig hart fram til að ná sömu ávöxtunarkjörum og póstgírókerfið gaf á síðasta orlofsári. Þeir héldu alveg sínu, en voru mörgum prósentum óhagstæðari í ávöxtun árið þar á undan. Vestfjarðasamkomulagið hefur því leitt til þess að póstgírókerfið hefur ávaxtað hefur hlut launafólks í þessum efnum en það gerði áður.

Ég veit ekki betur, og nánast fullyrði það hér, en að miðstjórn Alþýðusambands Íslands, sem tilnefndi menn í umrædda nefnd, sem hæstv. ráðh. var hér að tala um, til endurskoðunar á lögunum um orlof, hafi verið mjög jákvæð fyrir því að breyta lögunum um orlof í þá átt að losa um að allt færi í gegnum póstgírókerfið, þ. e. fela annaðhvort félögunum sjálfum einum og sér eða landssamböndum að semja írekar um þessi mál á þeim grundvelli að tryggja sem hagkvæmasta ávöxtun hverju sinni. Það er engin andstaða við því innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er rangt. Það sem hefur hins vegar strandað á í þeirri nefnd sem hér er verið um að ræða er að menn hafa mismunandi skoðanir á því hvaða kerfi er hagkvæmast og öruggast í þessum efnum.

Ég dreg enga dul á þá skoðun mína að það kerfi sem við tókum upp á Vestfjörðum 1982 hafi tryggt hagkvæmustu ávöxtun orlofsfjár sem hægt var að ná á hverjum tíma síðan og hafi verið langt umfram það sem póstgírókerfið gaf á umræddu tímabili. Ég fullyrði að póstgírókerfið er búið að hafa af launþegum í þessu landi ómældar fjárhæðir vegna þess hversu það hefur ávaxtað illa orlofsféð. Það hafa ómældar fjárhæðir verið teknar af launþegum vegna slælegrar frammistöðu og ávöxtun hjá póstgírói með sérstökum samningum við seðlabankann er vafasöm að mínu viti.

Það er kannske ekki ástæða til að hafa um þetta öllu fleiri orð, en ég óska eindregið eftir því að fá um það alveg ótvíræð svör frá hæstv. félmrh. hvort hann lítur svo á að orlofsfé launþega á Vestfjörðum njóti sama réttar gagnvart þessum lögum, sem hér er verið um að ræða, og það orlofsfé sem greitt er í gegnum póstgíró. Fáist ekki um það alveg ótvíræð svör verður að freista þess að flytja brtt. við þetta mál og óska eftir því við forseta að hann fresti frekari umr. um málið þangað til tækifæri gefst til að gera það. Ég vil ekki trúa því að það þurfi til slíks að koma. Ég vona að hæstv. ráðh. gefi þá yfirlýsingu hér að launþegar á Vestfjörðum sitji við sama borð og aðrir launþegar í þessu landi að þessu leytinu til.