15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3517)

Afgreiðsla þingmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum vikum lýsti hæstv. forsrh. því yfir í sjónvarpi, þar sem hann var staddur í þætti ásamt hæstv. fjmrh. og fram kom hjá báðum að stjórnarráðið væri í rauninni eitt samfellt kærleiksheimili, eins og hefur nú verið staðfest á landsfundi Sjálfstfl., að hann væri með undir höndum lista yfir 25 atriði sem hann mundi sýna eftir helgina, eins og hann komst þá að orði. Nú eru nokkrar helgar liðnar síðan þetta var. Hæstv. fjmrh. fékk ekki að sjá þennan lista í sjónvarpsþættinum en hæstv. forsrh. lýsti því yfir að hann mundi sýna ráðherrum listann daginn eftir á ríkisstjórnarfundi.

Nú hefur lítið til þessa lista spurst og fá mál hafa frá ríkisstj. séð dagsins ljós hér í Nd. Alþingis það sem af er frá áramótum. Hygg ég að það hafi sjaldan gerst að ríkisstj. hafi lagt jafnfá veigamikil mál fyrir Nd. Alþingis á jafnlöngum tíma og gerst hefur á þessum vetri. Þess vegna hafa menn líka haft býsna góðan tíma til umræðna um selveiðar og önnur brýn verkefni sem hér eru á dagskrá og ég geri ekki lítið úr. En umræður um grundvallaratriði efnahags- og atvinnumála hafa ekki hafist hér að frumkvæði ríkisstj.

Hæstv. forsrh. var ekki tilbúinn að svara spurningum mínum um þennan leynilista 25 atriða í dag, kvaðst hins vegar reiðubúinn til að gera það næstu daga. Aftur á móti háttar svo til að ríkisstj. ku hafa þrælað saman frv. um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Mér er sagt að það frv. hafi verið lagt fyrir þingflokka stjórnarliðsins núna síðustu daga. Og mér er sagt að það mál verði til meðferðar á þingi Stéttarsambands bænda n. k. miðvikudag. Það er gott eitt um það að segja að Stéttarsamband bænda fjalli um þau mál sem að landbúnaðinum snúa og finnst mér reyndar stundum að sú stofnun hefði mátt vera fyrr á ferðinni með sín mál en raun ber vitni um. En hvað um það. Í tilefni af því að ætlunin er að ræða þetta hjá Stéttarsambandi bænda finnst mér það eðlileg og sanngjörn ósk að bera fram af hálfu míns flokks að stjórnarandstaðan fái þetta frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins í sínar hendur nú þegar. Ég tel það algjörlega óeðlilegt að vera að loka þetta mál inni hjá stjórnarflokkunum þegar það er komið til umræðu úfi í þjóðfélaginu, í raun og veru alls staðar annars staðar en hjá stjórnarandstöðunni.

Það var þessi spurning sem ég ætlaði að bera fram fyrir hæstv. landbrh. Ég ætlaði einnig að benda á það, herra forseti, að ef það er ætlun ríkisstj. að láta afgreiða hér í lagaformi þessi 25 atriði af leynilista forsrh., sem hann sagði frá í sjónvarpinu fyrir nokkru, þá er bersýnilegt að þinghald verður að vera hér fram eftir öllu sumri. Venjan hefur verið sú að ljúka þingstörfum í kringum mánaðamótin maí-júní. Er það ætlun ríkisstj. að breyta út frá því og láta þing standa langt fram eftir júnímánuði eða jafnvel fram í júlímánuð? Eftir þeim verkhraða sem ríkisstj. hefur haft undanfarna þrjá mánuði endist ekki sumarið allt til að fjalla um þó ekki væri nema helmingurinn af leynilista hæstv. forsrh. með 25 atriðum sem hann sagði frá í sjónvarpinu fyrir nokkru. Ég ætla ekki að hefja hér ítarlega umræðu um vinnubrögð þingsins sem ég tel satt að segja að hafi verið með ólíkindum á þessum vetri af hálfu hæstv. ríkisstj. Nægir í þeim efnum að minna á lánsfjárlög sem eru víst á milli 2. og 3. umr. í Ed. og ríkisstj. hefur ekki komið frá sér línum í þeim efnum vegna þess að þar er hver höndin upp á móti annarri. Hæstv. fjmrh. hefur ekki fengið að koma með það mál enn þá hingað niður í Nd. til meðferðar. Og það er alveg ljóst að hv. Nd. hlýtur að taka sér eðlilegan tíma til að fjalla um lánsfjárlögin og fara yfir frv. lið fyrir lið svo sem venja er.

Ég ber spurningu mína fram til hæstv. landbrh.: Er hann reiðubúinn að tryggja það að stjórnarandstaðan fái nú þegar þau drög að frv. um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins sem hann hefur þegar lagt fyrir stjórnarflokkana og verður rætt á sérstökum fundi Stéttarsambands bænda á miðvikudaginn kemur?