29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

29. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það eru nokkur orð í sambandi við þær aths. sem hv. 2. landsk. þm. lét falla.

Ég held að ekki hafi komið fram í mínu máli að ég væri að tala gegn þessu frv. Það var síður en svo. Ég var að segja það að þegar tekið er á svona mikilvægum málum, hvort sem það gera einstakir þm. eða jafnvel ríkisstj., finnst mér ástæðulaust annað en láta koma fram í framsögu eða grg. með slíku frv. það sem verið er að gera þó það sé kannske ekki fullnægjandi að mati þeirra sem eru að flytja slík mál.

Sú nefnd, sem ég var að lýsa fyrr og hefur samið áfangaskýrslu, er einmitt skipuð til að framkvæma þann vilja Alþingis sem fram kom í þáltill. sem samþykkt var á Alþingi 1982, en hafði ekki verið fylgt eftir. Það kemur augljóslega fram í vinnu þessarar nefndar. Ég skýrði frá að hún er saman sett af aðilum vinnumarkaðarins. Það er mjög mikill kostur, að mínu mati, að aðilar vinnumarkaðarins séu sammála um að vinna skipulega að þessum málum, svo mikilvæg eru þau. Ég sagði svo í lok máls míns áðan að e.t.v. væri athugandi, til þess að flýta vissum greinum í þessu máli öllu, að taka t.d. endurmenntunarmálin út úr og skipa um þau sérstaka nefnd.

Ég ætla ekki að ræða þetta nánar. Ég tók ekki til máls áðan til þess að draga úr því að þetta mál fái eðlilegan framgang hér á hv. þingi. Alls ekki. Ég tel málið mikilvægt og ég endurtek enn að ég legg áherslu á að menn sameinist um að sinna þessu máli. Þetta er framtíðarmál þessarar þjóðar.