15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4189 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

Afgreiðsla þingmála

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hygg að þeim tíma sé ekki illa varið sem við eyðum hér til þess að ræða ofurlítið tilhögun þingstarfa það sem eftir er og það hvernig hæstv. ríkisstj. hefur staðið og hyggst standa að þeim málum. Þar er í raun af nógu að taka. Það hefur vakið athygli mína að málalisti hæstv. Nd. er nú allmiklu skemmri en hinnar efri og hafa hlutföll þessi mjög snúist við frá því sem var á síðasta hv. þingi. Ber nú svo við að hæstv. ríkisstj. leggur ógjarnan mál að fyrra bragði fram í Nd. Veit ég ekki hvað veldur, hvort hún er orðin eitthvað rög við að fara þá leiðina. Ég beini því nú til hæstv. landbrh. að þegar hann kemur fram því frv. sem hér hefur verið nokkuð fjallað um þá sýni hann það hér t. a. m., enda er þetta rösk þingdeild og vísust til þess að vinna vel að því máli.

Það má annars segja að uppi sé nokkuð nýr stíll af hálfu hæstv. ríkisstj. undir forustu hæstv. forsrh., sem nú er fjarstaddur, og bregður þá nokkuð nýrra við. Sú var tíðin að sá stjórnmálamaður þótti nokkuð raupsamur. Það má kannske segja um hann að honum hafi verið laus munnurinn, svona eins og öðrum mönnum er laus höndin. En nú er öldin önnur á þeim bæ. Þar er nú talað í dulúðugum véfréttarstíl og sýnd bláhornin af leyndarmálalistum. Leyndin er að mínu viti farin að ganga fulllangt þegar það er dregið í lengstu lög að sýna hv. Alþingi — ég tala nú ekki um stjórnarandstöðunni — þau leyndarmál sem engu að síður á að keyra hér í gegnum þingið. Ég spyr: Halda menn að það sé málum til framdráttar, að það greiði götu þeirra í gegnum hv. Alþingi að draga það eins og mögulegt er að sýna t. a. m. stjórnarandstöðunni málin? Væru það ekki eðlilegri vinnubrögð og líklegri til árangurs að koma málum í þann búning að hægt væri skammlaust að sýna þau — og gera það þá svo að menn hefðu þeim mun lengri tíma til að fjalla um þau?

Ég held að viðamikil og viðkvæm mál, eins og við vitum að breytingar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins eru eða eru líkleg til að verða, geti ekki annað en hagnast á því að fá hér ítarlegri fremur en skemmri skoðun, fyrir nú utan margnefnda virðingu hv. Alþingis að ætla sér að hnoða einum 25 stórmálum í gegn hér á síðustu vikum. Nú eða þá hitt, að ætla þinginu að sitja fram á grænt sumar.

En það eru önnur atriði sem ég hefði gjarnan viljað nefna aðeins í þessu samhengi, sem mér finnst vera, herra forseti, til marks um nokkuð sérkennileg vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj. og einstakra hæstv. ráðh., t. a. m. yfirlýsingar hæstv. utanrrh., sem einnig er fjarstaddur, þeir sjást hér rétt í mýflugumynd þessir hæstv. ráðh., úti í bæ, nánar tiltekið á landsfundi Sjálfstfl., um stórmál er snerta íslensk utanríkismál. Er það virkilega svo að t. a. m. hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. telji sér það sæma og fremur skylt að skýra frá nýbreytni í utanríkismálum þjóðarinnar á pólitískum samkundum sinna flokka en hér á hæstv. Alþingi? Fyrir hverjum bera þessir hæstv. ráðh. ábyrgð? Er það fremur fyrir landsfundi Sjálfstfl., sem reyndar var ekki neitt neitt, heldur en fyrir hv. Alþingi? Ég á hér t. a. m. við yfirlýsingar hæstv. utanrrh. um nauðsyn þess að fjölga sendiráðum og fleira sem snertir okkar utanríkispólitík.

Ég vil einnig beina því til hæstv. forseta, sem ég veit vera röggsaman og vilja virðingu þingsins sem mesta og málaframgang hér sem bestan, að hann láti nú ekki sitt eftir liggja að tryggja að ekki fari svo hér á hæstv. Alþingi um ýmis stórmál, eins og t. a. m. skýrslu forsrh. um Framkvæmdastofnun ríkisins og umræður þar að lútandi um byggðamál, að okkur hv. þm. verði ætlað að ræða það mál á milli kl. 14.30 og 15.20 eins og gerðist hér á hv. Alþingi s. l. vor. Það eru að mínu viti, herra forseti, ótæk vinnubrögð. Og ég lýsi eftir því: Er þessi skýrsla hæstv. forsrh. væntanleg og fær hún þá sæmilega umfjöllun hér á þinginu og sæmilegan tíma?

Einnig er komin fram skýrsla hæstv. utanrrh. um utanríkismál. Ber að fagna því að hún hefur nú litið dagsins ljós eða ljós hér í þingsölum. Ég vil sömuleiðis beina því til forseta að hann taki það upp í hópi hæstv. forseta þingsins að þessi mál fái hér eðlilega umfjöllun áður en allt er komið í hnút á vordögum með þingstörfin.