15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4191 í B-deild Alþingistíðinda. (3526)

Afgreiðsla þingmála

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma að máli sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon vék reyndar að. Það er sá háttur ríkisstj. að lýsa pólitískum áformum sínum alls staðar annars staðar en á Alþingi. Við Bandalagsmenn fluttum raunar á síðasta þingi tillögu um beint útvarp frá Alþingi. En við ætluðumst ekki beinlínis til að það yrði tekið þannig að þm. yrðu vísari um starfsemi og áætlanir þingsins með því að sitja heima og horfa á fjölmiðla heldur en með því að taka eðlilegan þátt í þingstörfum. Það hefur komist á sá undarlegi skikkur að menn verða vísastir um áform ríkisstj. á þann hátt að sitja og horfa á sjónvarp og reyna að lesa á milli línanna hvað ríkisstj. hyggst gera. Líklega hefur verið mjög til bóta að vera á landsfundi Sjálfstfl. þar sem ýmis áform munu líklega hafa verið opinberuð. E. t. v. fer nú mjöðurinn að streyma þegar búið er að taka þennan tappa úr stjórnarsamstarfinu sem landsfundur Sjálfstfl. vafalaust var. Við eigum kannske von á því að eitthvað fari að gerast í þessari ríkisstj.

Hv. þm. Halldór Blöndal talaði um það áðan að eðlilegt væri að menn og stjórnir tækju sér tíma til þess að vinna mál. Mér sýnist að þessi ríkisstj. hafi ekkert gert annað en að taka sér tíma og ef það er eitthvað sem hana vantar þá er það annað en tími. Af tíma hefur hún haft nóg. Það sem við erum að biðja um er einhver árangur. Við erum að biðja um að þeir lufsist nú til að fara að gera eitthvað, að hér séu sýnd mál sem geta hugsanlega orðið þessari þjóð til einhverrar bjargar. Um það snýst þessi umræða og eftir því er kallað. Það er nefnilega svo að sú biðlund sem fólkið í landinu hefur er takmörkuð. Eins og ég sagði áðan þá líður senn aftur að því að menn standi frammi fyrir öðrum eins ósköpum og voru hérna s. l. haust. Þá var því lofað að stjórnvöld létu vinna og legðu fram tillögur sem gætu orðið grundvöllur að farsælli eða a. m. k. betri lausn þeirra mála en náðist þá. Eftir því er lýst og til þess hafa menn sjö vikur núna.

Ég áfellist það ekki að menn taki sér góðan tíma til málsundirbúnings áður en málin eru sýnd í þinginu. En það er lágmarkskrafa að þinginu sé sýnd sú sjálfsagða kurteisi að ætta því tíma líka. Og sá tími er að renna út.