15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4191 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

Afgreiðsla þingmála

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég þakka þann áhuga sem hv. þm. hafa sýnt á málum landbúnaðarins og yfirlýsingar þeirra um að vilja vinna vel að framgangi þeirra. Met ég það mikils og vænti því að svo verði þegar hægt verður að leggja málið hér fyrir. En það er ekki hægt fyrr en það hefur verið fullunnið, það þekkja hv. þm.

Ég hef lagt hér fyrir hv. Nd. nokkur mál í vetur. Ég skal ekki segja fyrir hvorri deildinni eru fleiri. Ég hef skipt málum á milli deilda svo að ég get ekki tekið það til mín að eingöngu hafi verið lagt fyrir Ed. Og enn þá eru mál í nefndum í Nd. sem ég hef lagt fram. En vissulega vil ég ekki draga úr því að hv. Nd. er rösk og ég veit að hún vill vinna vel að málunum.

Ég hef ekki neitt að fela fyrir stjórnarandstöðu í sambandi við þetta mál. En meðan verið er að vinna að orðalagsbreytingum og uppsetningu á málinu er ekki unnt að afhenda stjórnarandstöðu það formlega. En ég ítreka að það mun ég gera, afhenda þeim það strax og þeirri vinnu er lokið.