15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4194 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

Afgreiðsla þingmála

Svavar Gestsson:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þá þolínmæði sem hann sýnir þessari utandagskrárumræðu, en ég geri ráð fyrir því að slík umræða geti flýtt fyrir meðferð þingmála síðar og greitt götu þingstarfa í heild. Ég kvaddi mér hljóðs út af ummælum hv. þm. Páls Péturssonar þar sem hann gerði tilraun til að kenna formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar um það hversu mikið misvægi er á verkum á milli deildanna. Ég vísa þessu algjörlega á bug. Mér þykir þetta satt að segja heldur klént af formanni þingflokks, stjórnarflokks, að ætta sér að bera fyrir sig almennar óskir formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar um að það sé jafnað vinnuálagi á milli deilda. Ég mótmæli þessu algjörlega. Ég er sannfærður um að stjórnarandstaðan hefur óskað eftir því að það yrði nokkurt jafnræði hér á milli, svo að ekki yrði eins mikið misvægi í störfum deilda og verið hefur hér á undanförnum árum. En að útkoman yrði svo sú að nærri öll mál væru lögð fyrir Ed., eins og verið hefur í vefur, það er auðvitað fjarstæða og skrifast einhliða á reikning stjórnarliðsins. Það er aumt af hv. þm. Páli Péturssyni að ætla sér að bregða fyrir sig almennum óskum stjórnarandstöðunnar frá því í haust í þessum efnum.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði líka-og ég hefði ekki, herra forseti, farið að tala hér aftur nema vegna þess að hann ýfði hér upp umræður — hv. þm. Páll Pétursson sagði líka að stjórnarandstaðan fengi þetta landbúnaðarfrv. þegar stjórnarflokkarnir væru búnir að koma sér niður á þetta. Ég skildi hv. þm. Pál Pétursson svo að hann væri að segja sem svo að málið kæmi ekki til okkar fyrir fund stéttarsambandsins eða hvað? Hæstv. landbrh. lýsti því yfir hér áðan að stjórnarandstaðan fengi frv. þetta í hendur á morgun. Er hv. þm. Páll Pétursson að reyna að taka þarna aftur orð ráðh. síns varðandi þetta mál? Ég vil að það sé alveg á hreinu hvor það er sem ræður í þessu efni. Er það hv. þm. Páll Pétursson eða er það hæstv. landbrh.? Ættar hann að fara sínu fram eða ætlar hann að láta hv. þm. Pál Pétursson skipa sér fyrir verkum og gera sig ómerkan orða í þessu efni?