16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

357. mál, húsnæðissamvinnufélög og búseturéttaríbúðir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mun svara fsp. á þskj. 569 frá hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrími J. Sigfússyni og Guðmundi Einarssyni. Þar er spurt:

„1. Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var með bréfi 27. júní s. l. til að vinna að frv. um búseturéttaríbúðir og kaupleiguíbúðir?

2. Hyggst ráðh. beita sér fyrir setningu laga um húsnæðissamvinnufélög og búseturéttarbúðir á þessu þingi?“

Starf þessarar nefndar hefur tekið lengri tíma en ætlað var í upphafi, en nefndin hefur safnað að sér ýmsum gögnum, m. a. leitað fanga erlendis frá og rætt við ýmsa aðila, svo sem fulltrúa frá Landssambandi húsnæðissamvinnufélaga, Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja svo einhverjir séu nefndir. Skv. upplýsingum formanns nefndarinnar er gert ráð fyrir að nefndin ljúki störfum innan tveggja vikna eða nánar til tekið fyrir 27. þessa mánaðar og skili þá fullbúnu frv. til laga um húsnæðissamvinnufélög sem ég hef að vísu fengið drög að. Frv. mun verða í aðalatriðum brtt. við lög nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, þ. e. nýjum kafla verði bætt inn í þau lög.

Varðandi síðari hluta fsp. vil ég upplýsa að strax og nefndin hefur skilað frv. á þeim tíma sem ég tiltók mun ég leggja frv.-drögin fyrir ríkisstj. og þingflokka stjórnarflokkanna og mun leggja áherslu á það, bæði við ríkisstj. og þingflokkana, að hraða athugun sinni á frv. svo að unnt verði að leggja það fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi til afgreiðslu. Ég tel að miðað við þann áhuga sem er á þessu máli ætti að vera möguleiki á því að afgreiða frv. fyrir þinglok.