16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3556)

343. mál, listiðnaður og iðnhönnun

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. sem hér er rædd hljóðar svo: „Hvað líður framkvæmd þál. um eflingu listiðnaðar og iðnhönnunar sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 1982?“

Með þessari þál. var ríkisstj. falið að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig best verði staðið að eflingu listiðnaðar og listrænnar iðnhönnunar á Íslandi. Verkefni nefndarinnar er svo nánar rakið í ályktuninni sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til.

Menntmrn. skipaði hinn 10. des. 1982 eftirtalda aðila í nefnd í samræmi við þál.: Hákon Hertervig arkitekt skv. tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga, Jónínu Guðnadóttur myndlistarmann skv. tilnefningu Félags ísl. myndlistarmanna, Stefán Snæbjörnsson innanhúsarkitekt skv. tilnefningu félagsins Listiðnar, Þráin Þorvaldsson framkvæmdastjóra skv. tilnefningu Félags ísl. iðnrekenda og Torfa Jónsson skólastjóra Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem var skipaður formaður nefndarinnar. Þessi nefnd hefur enn ekki lokið störfum. Skv. þál. er verkefni hennar talsvert viðamikið og margþætt. Menntmrn. hefur óskað eftir því við nefndina að hún skili tillögum sínum ekki síðar en 1. ágúst n. k.

Ég vil taka fram að sumar af þeim hugmyndum sem nefndin hefur rætt eru þess eðlis að þær þyrftu að komast í framkvæmd á vegum iðnrn. og samtaka iðnaðarins og mun verða beint til þessara aðila. Einnig vil ég taka fram að nú liggur fyrir Alþingi lagafrv. sem hefur mjög mikla þýðingu í þessu sambandi sem hér er rætt. Það er frv. til laga um Myndlistaháskóla Íslands.

Þar er gert ráð fyrir sérstakri iðnhönnunardeild, iðnhönnunarskor innan listiðnaðardeildar. Hygg ég að sú tilhögun muni hafa veruleg áhrif í þá átt sem þessi till. miðar að. Í þessu námi verði lögð áhersla á kennslu í iðnhönnun fyrir fjöldaframleiðslu á þann veg að okkar atvinnuvegir geti tekið listina í sína þjónustu í enn ríkara mæli en nú er, eða listin gengið til liðs við atvinnuvegina með enn beinni hætti en nú er. Að sjálfsögðu verður ekki fram hjá því litið að margar listgreinar, ekki einungis þessi, ekki einungis iðnhönnun í þrengri merkingu, hafa auðvitað mjög mikla þýðingu í sambandi við ýmiss konar framfarir í atvinnuvegunum og kannske meiri en menn hafa oft gert sér grein fyrir. Ég hygg að menn séu æ betur að gera sér grein fyrir þessu og þess vegna verði skemmra að bíða þess að við fáum staðið vel að menntun í iðnhönnun hér á landi.