16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4210 í B-deild Alþingistíðinda. (3564)

381. mál, framkvæmdir á vegum bandaríska herliðsins á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera upp við hæstv. utanrrh. nokkrar spurningar, sem eru á þskj. 609, um framkvæmdir á vegum bandaríska herliðsins á Íslandi, ýmist framkvæmdir sem þegar eru í gangi og aðrar sem fyrir dyrum standa eða hvort þær standi fyrir dyrum. Ég hef lagt þessar spurningar fyrir hæstv. utanrrh. til þess að fá upplýsingar um stöðu þeirra margvíslegu og miklu framkvæmda sem eru á vegum bandaríska herliðsins hér á landi nú. Þá væri einnig fróðlegt að fá um það upplýsingar hvernig að slíkri ákvarðanatekt er staðið af hálfu hæstv. ríkisstj., hvort ríkisstj. öll, allir sem einn eins og það heitir í dag, stendur að þessum ákvörðunum í hverju tilviki eða hvort það sé utanrrh. hæstv. einn sem gefi hernaðargenginu græna ljósið í hverju tilviki.

Ég vil taka það fram strax að þessi listi minn er ekki tæmandi, hann hefði getað verið nokkru lengri, því miður, en hann gefur þó hugmynd um þær margvíslegu og miklu framkvæmdir sem eiga sér stað eða standa fyrir dyrum. Einnig eru nokkrar upplýsingar fáanlegar um þá gífurlegu fjármuni sem hér er verið að verja til hernaðaruppbyggingar á þessum tímum.

Þegar ég lagði fram þessa mína fsp. fyrir nokkrum vikum hafði ég að vísu undir höndum nokkrar upplýsingar um ýmsar framkvæmdir sem ekki eru hér tíundaðar, en síðan það var hafa mér bæst upplýsingar t. a. m. um þau áform sem heyrst hafa nefnd nokkrum sinnum á undanförnum einu til tveimur árum um áhuga bandarískra hernaðaryfirvalda á að byggja svonefndar OTH-radarstöðvar hér á norðurslóðum. Þessar OTH-radarstöðvar eru stundum kallaðar „yfir sjóndeildarhringinn“ eða Over the Horizon og eru radarstöðvar sem byggja á þeirri tækni að endurvarpa geislum frá jónahvolfinu niður á jörð og eykst þannig langdrægi þeirra margfalt miðað við hefðbundnar gerðir radarstöðva. Þannig mundi t. a. m. slík stöð sem staðsett væri á Íslandi draga norður á pól og austur á Kóla-skaga eða eitthvað þar um bil svo dæmi sé tekið. Það hefur verið vitað að tvær staðsetningar hafa einkum verið ræddar í Pentagon fyrir þessa stöð hér á norðurslóðum, þ. e. Bretlandseyjar eða Ísland. Og nú hefur frægur maður, orðum prýddur generáll, Wesley McDonald, sem er yfirmaður Atlantshafsflota Bandaríkjanna og NATO í vorum heimshluta, lagt í yfirheyrslum fyrir þingnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings sérstaka áherslu á þessa framkvæmd og sérfræðingar t. a. m. á Bretlandseyjum telja, því miður vil ég segja, að áhugi Bandaríkjamanna hvað staðsetningu varðar fyrir þetta mannvirki beinist nú fyrst og fremst að Keflavík. Sé þetta rétt, sem ég óttast að sé, er hér á ferðinni sennilega einhver alvarlegasta ef ekki alvarlegasta breyting á stöðu Íslands í vígbúnaðartaflinu frá upphafi vega.

Ég er ekki með þetta hér sem formlega fyrirspurn, herra forseti, enda er hún ekki á þessum lista, en ég nefni þetta til að sýna að listi þessi er engan veginn tæmandi. Það er auðvitað illþolandi að hv. Alþingi og íslenska þjóðin búi við það æ ofan í æ að upp komi áform og áætlanir um framkvæmdir á Íslandi eða breytingar á stöðu Íslands í tafli stórveldanna sem verið er að möndla með og hefur verið möndlað með mánuðum og jafnvel árum saman erlendis áður en við fáum um það að vita. Þannig er til að mynda að fyrst nú, árum eftir að vitað var um áhuga bandarískra hernaðaryfirvalda á því að byggja hér styrkta stjórnstöð, örlar á því að hæstv. utanrrh. eða þeir menn sem með þau mál fara fyrir Ísland gefi einhverjar skýringar á þeim áformum í þeirri skýrslu sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi um utanríkismál. M. a. til þess að upplýsa og fá það hér á hreint hvernig ýmsar framkvæmdir standa hef ég, herra forseti, lagt fram þessar fsp. og skal nú ljúka máli mínu með því að renna yfir þær. Þær eru:

„1. Hefur koma nýrra orrustuflugvéla til Keflavíkurflugvallar, og jafnframt fjölgun úr 12 vélum í 18, verið samþykkt í ríkisstj.?

2. Hefur ríkisstj. gefið heimild til að reisa fleiri sprengjuheld flugskýli á Keflavíkurflugvelli, til viðbótar þeim níu sem þar eru í byggingu, og hvenær var gefin heimild til að byggja skýli nr. 4–9?“

Eins og menn vita var upphaflega gefin heimild til að byggja fjögur af þessum skýlum, en ég vil gjarnan fá svör við því hvenær og hvernig var heimilað að reisa skýli 4–9.

„3. Hefur ríkisstj. gefið heimild til að byggðir verði 2. og/eða 3. áfangi olíubirgðastöðvar í Helguvík?

4. Hafa ríkisstjórn Íslands eða utanrrn. borist einhverjar áætlanir, lýsingar, umleitanir eða erindi varðandi byggingu nýrrar stjórnstöðvar á Keflavíkurflugvelli?

5. Hafa ríkisstjórn Íslands eða utanrrn. borist einhverjar áætlanir, umleitanir eða erindi varðandi nýjar framkvæmdir við flugbrautir á Keflavíkurflugvelli?“