29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

53. mál, erfðalög

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til I. um breyt. á erfðalögum, nr. 8 frá 1962, sem fyrir liggur á þskj. 53 og er 53. mál þingsins.

Á s.l. þingi lagði ég fram samhljóða frv. og voru meðflm. hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Kristín S. Kvaran, Guðrún Agnarsdóttir og Jón Baldvin Hannibalsson. Meðflm. mínir nú eru hinir sömu með þeirri breytingu að í stað hv. þm. Kristínar S. Kvaran, sem nú er fjarri þinginu, hefur gerst meðflm. hv. þm. Guðmundur Einarsson.

Breyting sú sem lögð er til felur í sér að eftirlifandi maki eigi jafnan rétt til að búa á eigin heimili með þeim húsmunum sem þar voru við lát maka þó að skipta sé krafist á öðrum eignum búsins. Á síðasta þingi gerði ég allítarlega grein fyrir efni þessa frv. Sú breyting sem lögð er til er ekki mjög róttæk þar sem einungis er gert ráð fyrir að eftirlifandi maki haldi heimili sínu og húsmunum óskiptum. Aðrar eignir mega koma til skipta. Í Danmörku á eftirlifandi maki hins vegar rétt til að sitja í öllu búinu óskiptu, hversu miklar eignir sem þar er um að ræða, svo að dæmi sé tekið. Það hlýtur að vera réttur eftirlifandi maka að þurfa ekki að hrekjast úr eigin heimili við lát hins makans svo að við persónulegan missi bætist fjárhagslegt öryggisleysi og oft og tíðum sár sem seint gróa.

Lífaldur manna hækkar í sífellu samfara betra heilbrigðiskerfi og það hlýtur að vera þjóðfélaginu fyrir bestu að fólk búi sem lengst í eigin heimili og annist það eftir getu og með þeirri þjónustu sem samfélagið býður. Íslendingar hafa haft þá sérstöðu að í heimi atvinnuleysis og kreppu hefur roskið fólk í miklu meira mæli getað tekið þátt í atvinnulífi þjóðarinnar en annars staðar gerist. Þannig á það að vera þó að nú horfi kannske til verri vegar ef verulegt atvinnuleysi sækir að okkur. Þarf vart að benda á þann sparnað sem í því er fólginn að hinir öldruðu búi í eigin heimilum í stað þess að gista stofnanir meðan þess gerist ekki bein þörf.

Ekki síður á aldrað fólk skilyrðislausan rétt til þess að ráða eigin lífi meðan það er til þess fært. Frumréttur þess er að búa áfram í eigin heimili eftir lát maka ef það kýs svo. Sá ákvörðunarréttur á ekki að vera í höndum barna eða stjúpbarna. Öllum þeim sem að málefnum aldraðra vinna kemur saman um að því lengur sem menn séu virkir þátttakendur í samfélaginu, þeim mun lengur endist þeim líf og heilsa. Búseta á eigin heimili ætti að vera frumréttur hins aldraða svo lengi sem hann er fær um að annast það með þeirri þjónustu sem völ er á.

Enginn vafi er á að konur eiga frekar undir högg að sækja þegar búskipta er krafist við lát maka. Enn þá er það svo að mun stærri hópur þeirra hefur verið fyrir utan atvinnulífið og því eiga þær erfiðara með að breyta lífsháttum sínum og byggja upp nýtt heimili, enda er það svo að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem á biðlistum eru í stofnunum fyrir aldraða eru einmitt konur. Meðallífaldur karla á Íslandi er auk þess nokkru styttri en kvenna.

Ungt fólk er nú betur í stakk búið til þess en oft áður að sjá fyrir sér og sínum vegna betri uppeldisskilyrða, menntunar og þjóðfélagsaðstæðna. Velflestir foreldrar hafa búið börn sín vel undir lífið og sýnist þeim því vorkunnarlaust að bíða þess erfðahluta síns sem heimili foreldris er þangað til þess er ekki þörf lengur. Réttur til heimilisins á að vera í höndum þess sem það hefur skapað og ekki annarra.

Þá skal þess getið að nefnd sú, sem heilbr.- og trmrh. skipaði árið 1981 til þess að gera tillögur um samræmingu í skipulagi heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og annast undirbúning ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg sumarið 1982, en formaður þeirrar nefndar var Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, nefndi einmitt breytingu á erfðalögum í þá veru sem hér er gert ráð fyrir sem tillögu til úrbóta í málefnum aldraðra.

Ýmsir hafa talað um að við búskipti skuli tekið annað tillit til stjúpbarna en sameiginlegra barna. Ég er því algerlega ósammála og tel það viðhorf í andstöðu við þá stefnumörkun sem löggjafinn hefur unnið að, t.d. með nýsettum barnalögum sem hér voru einmitt á dagskrá áðan. Allur andi þeirra laga er að foreldrar beri ábyrgð á börnum sínum án tillits til þess hvort þeir kjósa að búa saman eða ekki. Vissulega hefur átt sér stað hugarfarsbreyting í þessum efnum. Engin ástæða er því til að gera ráð fyrir að milli stjúpforeldra og stjúpbarna hljóti að ríkja tilfinningaleysi og jafnvel illindi. Þess má t.d. geta að í danska þinginu hefur komið fram tillaga um að forræði barna foreldra sem ekki kjósa að búa saman verði beinlínis afnumið, að báðir foreldrar hafi sjálfkrafa forræði þeirra barna sem þeir hafa eignast án tillits til hvort þeir kjósi að búa saman eða ekki.

Vitaskuld er það til að tilfinningaleysi og jafnvel illindi ríki í þessum efnum, því miður. En engin lög geta náð yfir öll þau tilvik mannlegs lífs sem fyrir koma. Í landi þar sem þúsundir barna búa með öðru foreldri með eða án maka ber að eyða því hugarfari að milli stjúpforeldra og stjúpbarna þurfi að ríkja tortryggni. Í frv. er því engin munur gerður á rétti barna og stjúpbarna til að krefjast skipta á heimili eftirlifandi maka.

Frá árinu 1960 hefur fjöldi þeirra eftirlifandi maka sem búa í eigin húsnæði aukist um 22% svo að nú búa t.d. um 86% Reykvíkinga í eigin húsnæði. Það er því ljóst að eftir meiri fjármunum er að sækjast við lát foreldra en áður. Engan þarf því að undra þó að kröfum um búskipti fari fjölgandi þar sem heimilið eitt er verulegir fjármunir. Menn kunna að segja að unga fólkið sem er að koma yfir sig þaki þarfnist einmitt fjármagns en þann vanda ber að leysa á annan hátt. Foreldrarnir hafa í þeim tilvikum lokið sínu framfærsluhlutverki.

Núgildandi erfðalög voru vönduð lagasetning og um margt gætti þar framsýni þegar þau voru sett. En við breyttar þjóðfélagsaðstæður þarf að endurskoða hin ýmsu lög og um það er annar höfunda núgildandi laga okkur sammála, en það er Ármann Snævarr prófessor. Frv. okkar er einnig mjög í anda greinar sem Guðrún Erlendsdóttir dósent skrifaði í tímaritið Úlfljót 4. tbl. 1978 svo að ýmsum er ljóst að hér er breytinga þörf.

Það er hins vegar oft svo, að þegar nýjar hugmyndir eru settar fram við lagasetningu, og ekki síst eins og hér kom fram áðan í umr. um frv. hv. 2. landsk. þm. um endurmenntun, gætir vissrar tregðu, einkum af hálfu ráðh. og ekki síst ef um stjórnarandstöðuþm. er að ræða sem málið flytja. Ekki síður gætir tregðu þegar til eru kallaðar embættismenn, einmitt þeir sömu embættismenn og lögin eiga að framkvæma verði frv. að lögum. Við alþm. könnumst harla vel við þá tregðu sem þeim hættir til að sýna og oft leggja þeir mikla áherslu á erfiðleika við framkvæmd. En ráðuneytin hafa það hlutverk að ráða fram úr framkvæmdinni og eiga að leggja í það vinnu. Hagur fólksins í landinu er mikilvægari en rósemi embættismanna á vinnustað. Í frv. okkar er ekkert það sem flóknara yrði að framkvæma en í núgildandi lögum. Á það má einnig benda að fólkið í landinu mætti vissulega oft ganga betur frá sínum málum en það gerir og á það ekki síst við um erfðamál. Hygg ég að það mundi spara embættismönnum mikla vinnu, en það er önnur saga.

Frv. þetta hlaut nokkra umfjöllun í hv. allshn. Nd. á síðasta þingi og voru ýmsir kunnáttumenn um erfðalög kallaðir til. Efnislega nýtur frv. fylgis, en aths. komu fram um að framkvæmd yrði erfið. Ekki er þó sýnt að framkvæmd á núgildandi lögum sé einföld, enda ljóst að engin lög geta náð til allra tilvika sem upp kunna að koma í svo viðkvæmum samskiptum manna. Reglugerðir um nánari ákvæði hljóta að verða að leysa þann vanda.

Helsta aths. við efni frv., sem fram kom, var sú að frv. gæti gengið gegn fyrirmælum hins látna, þ.e. að réttur bréferfingja svokallaðs. en það er sá sem gerður hefur verið erfingi með erfðaskrá, væri rýrður svo og auðvitað réttur lögerfingja til kröfu um búskipti. Það er einmitt megininntak frv., og skal ekki reynt að dylja það. að tryggja rétt eftirlifandi maka. Það verður ekki gert nema á kostnað annarra erfingja. Um það þarf þingið að taka ákvörðun. Hér verða menn að taka afstöðu til, hverra hagsmuni þeir vilja tryggja. Frv. er framlagt til þess að tryggja hagsmuni þess erfingja sem mest hefur lagt til búsins, þ.e. eftirlifandi maka.

Menn skulu athuga að skv. núgildandi lögum á eftirlifandi maki langstærstan hluta í búi. Hann á í fyrsta lagi helming búsins og erfir síðan 1/3. en niðjar erfa 2/3 af helmingi eignanna. Bréferfingi getur aldrei eignast nema 1/3 af eigum arfláta eða hins látna svo að það verður að teljast óeðlilegt að þeir sem svo lítinn hluta búsins erfa geti með árs fyrirvara hvenær sem er krafist skipta á búinu öllu og jafnvel gert aðalerfingja ófært að halda eigin heimili. Hér er á engan hátt gengið á endanlegan erfðarétt annarra erfingja en makans, heldur er skiptum á heimili hins eftirlifandi maka einungis frestað. Allar reglur erfðalaganna gilda áfram um að eignirnar verði ekki rýrðar og kemur það skýrt fram í grg. Leyfi til að sitja í óskiptu búi samkvæmt frv. verður ekki veitt ef búið er gjaldþrota og í ljós kemur að eignir hrökkva ekki fyrir skuldum. Auðvitað ekki. Ef eignir bús hrökkva hins vegar fyrir skuldum er eðlilegt að þær eignir sem eru umfram íbúðarhúsnæði og nauðsynlegustu búshluti eftirlifandi maka gangi til greiðslu á skuldum. Verði einhverjar skuldir ógreiddar þá og séu áhvílandi veðskuldir á húsnæðinu hljóta eftirlifandi maki og erfingjar að bera sameiginlega ábyrgð á þeim skuldum. Frv. gerir m.ö.o. ráð fyrir að sú kvöð verði lögð á erfingja að eiga sameiginlega með eftirlifandi maka ákveðna fasteign og innanstokksmuni í einhvern ótiltekinn tíma meðan eftirlifandi maki hefur búseturétt. Maki er í öllum tilvikum langstærsti eigandi eignarinnar sem helmingseigandi að félagsbúinu. Þetta vil ég að komi fram vegna þeirra athugasemda sem fram komu við frv. á síðasta þingi.

Það hefur komið fram, eins og svo oft áður og næstum alltaf þegar þm. flytja frv. hér á hinu háa Alþingi, að erfðalögin, eins og öll önnur lög, séu nú í endurskoðun. Trú flm. er sú að sú endurskoðun geti tekið langan tíma, og höfum við af því nokkra reynslu, og því sé nauðsynlegt að stöðva nú þegar það óréttlæti sem viðgengist getur við búskipti.

Herra forseti. Þetta frv. hefur vakið almennan áhuga fjölmargra í landinu og hafa margir hv. þm. orðið varir við hann. Sá áhugi er til kominn vegna þess að margir einstaklingar hafa orðið hart úti við búskipti og vegna þeirra laga sem nú gilda um þau. Ég vil skora á hv. þm. að gera upp hug sinn í þessu máli, en láta ekki íhaldssama embættismenn ráða ferðum við ákvarðanir þingsins með úrtölum sínum sem okkur eru öllum svo vel kunnugar. Hagur fólksins í landinu skiptir meira máli en þægindi þeirra á vinnustað. Og ég held að hér sé um að ræða mál sem fjölmargir landsmenn vilja gjarnan að verði afgreitt á þessu þingi. Það er nú lagt fram fyrr en á síðasta þingi og ég vil biðja hv. þm. að kynna sér það nú vel og veita því brautargengi þegar það kemur nú til hv. allshn. sem flm. leggja til að því verði vísað til.