16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4218 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

396. mál, sýningar Þjóðleikhússins

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt þó að a. m. k. hluti af þeim valdi mér gífurlegum vonbrigðum. Ég þóttist raunar vita að þarna hefði á lítinn hátt verið sinnt þeirri skyldu sem löggjafinn leggur Þjóðleikhúsinu á herðar að því er varðar leiksýningar úti á landsbyggðinni, en ég verð að viðurkenna að mig óraði ekki fyrir því að það væri aðeins um eina slíka leikför að ræða á s. l. fimm árum, bara á Vestfirði og Norðurland vestra, en enga á Austfirði. Þetta er hrikalegt og að mínu viti þýðir ekki að bera við peningaleysi einu saman. Það er jafnt lagaskylda þessarar stofnunar að leika úti á landsbyggðinni og sinna þeim þætti á Reykjavíkursvæðinu. Þá ætti alveg eins að draga úr hér og nýta fjármagnið til leikferða.

En ekki er ég að saka hæstv. menntmrh. um þetta. Ég þykist vita og vona a. m. k. að hún taki rösklega til hendinni og hristi upp í því liði sem ekki hefur séð sér fært að standa að þessu leytinu við löggjöf frá Alþingi og skikki það beinlínis til þess að koma af stað leikferðum út á landsbyggðina.

Hitt er rétt og ég tek undir það sem hv, þm. Helgi Seljan sagði hér áðan, að hinum þættinum hefur verið þokkalega sinnt og tæpast hægt að gagnrýna það á nokkurn hátt eftir þessum upplýsingum. Aldrei hefði það hvarflað að mér að ég ætti eftir að standa hér í ræðustól á Alþingi, miðað við það sem á undan er gengið, og taka upp hanskann fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og er þá mikið sagt (Gripið fram í.) ef hv. 5. þm. Vestf. á þar hlut að máli. Það verður þó að segjast að sinfóníuhljómsveit Íslands ber þarna af eins og gull af eiri. Ég er á engan hátt að segja að það sé gott sem hún er með, það verður hver og einn að meta fyrir sig og alltaf verður misjafnt mat einstaklinga á efninu, en að því er varðar það að sinna þessu verkefni er Sinfóníuhljómsveitin langtum fremri en musteri þjóðarinnar í leikhúsfræðum. (Gripið fram í: Þú færð engar betri sinfóníur eftir þetta.) Ég hef alltaf haldið því fram og get sagt það hér, að það er tvennt ólíkt að hlusta á sinfóníuna og horfa á hana í leiðinni eða hlusta á hana í útvarpi. Eins og ég sá í sjónvarpinu er ólíkt að horfa á suma menn framkvæma leikkúnstir á fjölum, í sjónvarpi eða hvar sem er eða hlusta á þá beint í útvarpi. Þetta veit ég að þeir taka til sín sem eiga. En nóg um það. Það var ekki meiningin að snúa þessu upp í grín og glens. Það er staðreynd að sinfóníuhljómsveitin á þakkir skildar fyrir þennan þátt og framkvæmdastjóri hennar. Ég hygg að það sé ekki síst hans verk.

Ég tek undir það með hv. þm. Helga Seljan að leikarar eða leikstjórar úr Þjóðleikhúsinu hafa ekki síður gagn af því að koma út á meðal fólks á landsbyggðinni. Ég er alveg handviss um það.

Sem sagt: 15. gr. í lögunum um Þjóðleikhús hefur verið dauður bókstafur, a. m. k. fimm s. l. ár, og það er tími til kominn að fara að hrista upp í því. Takist okkur, hæstv. menntmrh. og mér eða öðrum hv. þm., ekki að fá nægilegt fjármagn til þess að sinna þessu að fullu skal ég styðja hann í því að skera niður sýningarnar hér í Reykjavík þannig að við getum fengið það sem okkur ber úti á landi og þá vildi ég helst að miðað væri við að ekki hefur verið sýnt þar s. l. fimm ár og taka það inn í dæmið.