16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 646 höfum við þm. Kvennalista leyft okkur að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. Tilefni þessarar fsp. er skipun í stöðu skrifstofustjóra í félmrn. þann 1. mars s. l. Í haust er leið lést skrifstofustjóri félmrn. Varð því staða hans laus. Nokkur dráttur varð á að staða hans væri fyllt. Í hana var ekki skipað fyrr en í mars s. l. eins og áður segir. Hins vegar voru um miðjan desember 1984 auglýstar til umsóknar tvær stöður deildarstjóra í rn. Þann 1. janúar s. l. var síðan karlmaður skipaður í stöðu deildarstjóra sem annast fjármál rn., en í stöðu deildarstjóra sem annast lögfræðileg málefni var skipuð kona.

Í 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að skipa deildarstjóra ráðuneytis skrifstofustjóra þess ráðuneytis og tekur hann þá sjálfkrafa við störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans.“

Staða skrifstofustjóra er því aldrei auglýst og um hana er ekki sótt. Hins vegar velur ráðherra skrifstofustjóra úr hópi þeirra deildarstjóra sem í rn. eru. Er þá eðlilegt að öllu jöfnu að tekið sé tillit til menntunar og fyrri starfsreynslu auk almennrar hæfni til að gegna slíku starfi. Þegar ráðið var í skrifstofustjórastöðuna voru starfandi níu deildarstjórar í félmrn., fimm konur og fjórir karlar. Þrjár þessara kvenna hafa háskólamenntun en tveir karlanna. Starfsreynsla þeirra í stöðu deildarstjóra er mislöng, allt frá nokkrum vikum upp í sjö ár. Það voru því margir einstaklingar sem komu til greina þegar valið var í skrifstofustjórastöðuna, þótt mér sé ekki kunnugt um það hvort hugur allra þeirra hafi staðið til starfans. sá einstaklingur sem lengsta starfsreynslu hefur í deildarstjórastöðu er kona. Hún hefur gegnt því starfi s. l. sjö ár. Á þeim tíma hefur hún öðlast víðtæka reynslu af því að vinna að mörgum ólíkum verkefnum á vegum rn. Sú kona er lögfræðingur að mennt og hafði 13 ára starfsreynslu við dómarastörf áður en hún hóf störf í félmrn. Yfirmenn hennar í rn. hafa mér vitanlega ekki kvartað undan vinnulagi hennar eða afköstum. Hins vegar hef ég heyrt marga hæla henni fyrir vandvirkni og dugnað. Slíkt er þó að sjálfsögðu matsatriði. Það var þó álit margra, sem til málsins þekktu, að skv. almennum reglum og hefðum í samræmi við réttlæti og sanngirni væri eðlilegt að þessi kona hlyti skrifstofustjórastöðuna að öllum öðrum ólöstuðum. Auk þess hafði hún lýst yfir áhuga á starfinu.

Nú ber svo undarlega við að skipaður er í þessa stöðu maður sem einungis hefur unnið nokkrar vikur í rn., hóf deildarstjórastörf 1. febrúar s. l. en áður hafði hann lokið samvinnuskólaprófi og starfað sem kaupfélagsstjóri og sveitarstjóri. Ég tek það skýrt fram að hér er ekki á neinn hátt verið að kasta rýrð á hæfileika þessa manns né annarra. En ef litið er á hefðbundinn hátt á menntun og starfsreynslu til að gegna umræddu skrifstofustjórastarfi, þá blöskrar þessi ráðstöfun fleirum en þeim sjö framsóknarmönnum sem sendu hæstv. jafnréttismálaráðherra áskorunarbréf um þetta efni.

Ég vil minna hæstv. ráðh. á 3. gr. núgildandi laga um jafnstöðu kvenna og karla, en þar segir, með leyfi forseta:

„Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m. a. hvað varðar ráðningu og skipun í starf, stöðuhækkun, stöðuheiti, uppsögn úr starfi, veitingu hvers konar hlunninda og almenn vinnuskilyrði.“

Ég vil líka minna hann á 5. gr. laganna sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nú er umsækjandi um auglýst starf kona, en það hefur verið veitt karlmanni. Á hún þá rétt til að hlutaðeigandi atvinnurekandi veiti henni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika sá hefur til að bera er ráðinn var í starfið. Sama rétt skal karlmaður, sem er umsækjandi um starf, hafa ef konu er veitt starfið.“

Má ég enn fremur minna hæstv. ráðh. á eigin orð í október s. l. þegar hann mælti fyrir frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar segir ráðh., með leyfi forseta:

„... undanfarna tvo áratugi hefur barátta kvenna fyrir jafnrétti beinst fyrst og fremst að því að öðlast raunverulegt jafnrétti á við karla á vinnumarkaði. Í þessu felst að hafa sömu tækifæri til stöðuhækkana og karlmenn og fá sömu laun og aðra greiðslu fyrir sömu störf, þ. e. að konur fái sömu yfirborganir og hlunnindi og karlmenn.“

Þarna er vel mælt, hæstv. ráðh. Áfram heldur ráðh.: „Barátta kvenna til að ná þessum markmiðum hefur ekki skilað nægilegum árangri. Konum hefur reynst erfitt að fá stöðuhækkanir og raunverulegur launamismunur hefur í sumum starfsgreinum verið mikill.“ En hvers vegna, hæstv. ráðh.? Hvers vegna hefur konum reynst erfiðara að fá stöðuhækkanir?

Áfram segir: „Ýmsir hafa orðið til þess að setja fram athugasemdir til að skýra þennan mun. Þannig hefur verið bent á að menntun kvenna er almennt skemmri en menntun karla.“ Það á ekki við í þessu tilfelli síðar í máli sínu segir ráðh.: „Sérstaklega verður reynt að fá konur til að leggja stund á nám sem síðar leiðir til starfs í hefðbundnum karlagreinum.“ En til hvers í ósköpunum, hæstv. ráðh., eiga konur að leggja stund á nám til að taka þátt í störfum í karlagreinum ef þeim er síðan vikið til hliðar og fram hjá þeim gengið?

Það háttalag sem hér virðist hafa verið viðhaft krefst skýringa og það verður ekki látið óátalið. Því vil ég spyrja hæstv. ráðh. fyrir hönd þeirra þm. sem að þessari fsp. standa:

1. Hvaða rök voru lögð til grundvallar þegar ráðið var í skrifstofustjórastöðu í félmrn. 1. mars s. 1.?

2. Telur jafnréttismálaráðherra að þessi ráðning hafi verið í samræmi við jafnréttislög?